
- Virka daga: 08:30 - 15:00
- 569-6000
- uos@uos.is
- Virka daga: 08:30 - 15:00
- 569-6000
- uos@uos.is
Þýðingarmikil hráefni eru ómissandi í framleiðslu nútímatækni, allt frá snjallsímum og rafbílum til vindmylla og lækningatækja.
Þau eru skilgreind sem þýðingarmikil vegna þess að þau:
Dæmi: líþíum, sjaldgæf jarðefni, kóbalt, grafít og magnesíum.
Náttúruauðlindir eru undirstaða evrópsk efnahagslífs og tryggja framleiðslu á fjölbreyttum vörum og efnum sem við notum dags daglega. Það að tryggja áreiðanlegan og óhindraðan aðgang að ákveðnum hráefnum er vaxandi áhyggjuefni innan ESB og í raun um allan heim. Evrópusambandið hefur skilgreint 34 þýðingarmikil hráefni sem eru ómissandi fyrir evrópska hagkerfið og/eða hráefni þar sem birgjakeðjur eru taldar óöruggar. Það sem einkennir þessi efni er því yfirleitt að núverandi hagkerfi ganga hratt á birgðir hráefnisins og/eða að framleiðslan fer að mestu fram innan landa sem eru óáreiðanleg vegna stjórnmálaástands, spillingar, stríðsátaka eða annarra landfræðipólitískra ástæða.
Iðnaður og hagkerfi Evrópu er háð alþjóðamörkuðum til að tryggja aðgang að mörgum mikilvægum hráefnum sem framleidd eru utan Evrópusambandsins. Oft er um að ræða fágæta málma þar sem námur eru smátt og smátt að tæmast. Námurnar eru oft einskorðaðar við eitt eða mjög fá lönd. Sem dæmi má nefna að 97% af magnesíum sem notað er innan ESB kemur úr kínverskum námum, 99% af öllu bóri kemur úr námum í Tyrklandi, 79% af öllu litíum kemur frá Síle og 71% af allri platínu kemur frá S-Afríku. Einnig er Kína lang stærsti framleiðandi sjaldgæfra jarðefna (e. LREE og HREE).
Til að bregðast við þessu hefur Evrópusambandið sett fram sérstakt regluverk um þýðingarmikil hráefni. Til lengri tíma litið er markmið regluverksins að auka sjálfstæði Evrópu þegar kemur að framboði þessara málma. Þetta er hægt að gera meðal annars með að skilgreina hráefnin, auka þekkingu á hvar þá er að finna og nýta þá þekkingu til að halda þýðingarmiklum hráefnum innan sambandsins með að tryggja að þeir haldist í hringrás. Þetta getur meðal annars þýtt aukin endurvinnsla á fágætum málmum, en einnig að auka líftíma vara sem innihalda þessi hráefni.
Þessi 34 hráefni sem skilgreind hafa verið sem sérstaklega þýðingarmikil eru undirstaða framleiðslu og þróun á mörgum nútímatæknilausnum, svo sem snjallsímum, vindmyllum, sólarsellum, bílahlutum, þvottavélum, gervihnöttum, rafhlöðum í rafbíla og svo mætti lengi telja. Án öruggs aðgengis að þessum efnum getur komið til rasks í aðfangakeðjum, efnahagslegrar óvissu og töf í loftslagsaðgerðum.
Þegar kemur að þýðingarmiklum hráefnum hafa sveitarfélög ákveðna skyldu að gegna að fjalla um þau í svæðisáætlunum sínum, eins og fjallað er um í gr. 5(b) í reglugerð 803/2023 um meðhöndlun úrgangs. Það getur virðst frekar fjarlægt sveitarfélögum að fjalla um eða kortleggja þýðingarmikil hráefni innan sveitarfélagsins þar sem ekki er hægt að finna þau með að lesa innihaldslýsingar á vörum. Fyrstu skref sveitarfélags eða svæðis þegar skoða á þýðingarmikil hráefni er að skoða magn og farvegi fyrir eftirfarandi tegundir úrgangs:
📱 Raf- og rafeindabúnaður (EE-úrgangur) – t.d. símar, tölvur, hljóðkerfi.
🔋 Rafhlöður og orkugjafar – einkum litíum- og nikkelrafhlöður.
🛠️ Iðnaðar- og tækjabúnaður – gamall rafbúnaður frá fyrirtækjum.
🚗 Ökutæki (sérstaklega rafbílar) – rafhlöður, mótorar og skynjarar.
🏗️ Byggingarefni og rústir – leiðslur, snúrur og málmar.
Þýðingarmikil hráefni er málaflokkur sem er frekar langt frá almenningi að því leyti að aðgengi að upplýsingar um hvort að hin og þessi vara innihaldi þýðingarmikil hráefni eru heilt yfir ekki aðgengilegar. Að sama skapi eru þýðingarmikil hráefni mjög nálægt almenningi þar sem þau eru mjög mikilvæg í mörgum af þeim tæknilausnum sem við notum dags daglega, svo sem snjallsímum og ýmsum raftækjum. Þau eru einnig mikilvæg við uppbyggingu orkumannvirkja og fjarskiptamannvirkja sem halda öllum okkar kerfum gangandi. Það helsta sem almenningur getur gert til að leggja sitt að mörkum til málaflokksins er að auka líftíma vara. Þetta á sérstaklega við um raftæki þar sem rétt er að leggja áherslu á að draga úr neyslu, kaupa endurunnið, gera við og koma í réttan endurvinnslufarveg.