- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
Úrgangsþríhyrningurinn sýnir forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs og dregur fram mikilvægi mismunandi meðhöndlunarleiða með tilliti til umhverfisáhrifa. Úrgangsforvarnir eru mikilvægastar enda snúast þær um að draga úr myndun úrgangs, en undirbúningur fyrir endurnotkun, endurvinnsla og önnur endurnýting stuðla að minni umhverfisáhrifum en förgun.
Aðilar sem bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs eiga að leggja þessa forgangsröðun til grundvallar við setningu reglna, stefnumótun og við töku ákvarðana um fyrirkomulag við meðhöndlun úrgangs. Ef víkja á frá forgangsröðuninni þarf að réttlæta það sérstaklega með tilliti til áhrifa alls vistferils viðkomandi úrgangs.
Úrgangsforvarnir eru ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr magni úrgangs, neikvæðum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna vegna úrgangs sem hefur myndast og innihaldi skaðlegra efna. Úrgangsforvarnir miða meðal annars að því að vörur endist lengur, séu viðgerðarhæfar, draga úr notkun einnota vara, auka endurnotkun og að þjónusta eins og leigur á hlutum komi í stað eignarhalds.
Undirbúningur fyrir endurnotkun er hvers kyns aðgerðir, sem felast í skoðun, hreinsun eða viðgerð, þar sem vörur eða íhlutir þeirra, sem eru orðin að úrgangi, eru útbúin þannig að þau megi endurnota án annarrar forvinnslu. Dæmi um slíkar aðgerðir eru viðgerðir á notuðum húsbúnaði fyrir endursölu, glerflöskur sem eru hreinsaðar og notaðar aftur.
Endurvinnsla er hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar. Notað plast sem er hreinsað, kurlað og brætt í nýjar plastvörur og notaður pappír sem verður að pappírsmassa til að verða að nýjum pappír er klassískt dæmi um endurvinnslu.
Önnur endurnýting telst vera endurnýtingaraðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar sem hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður. Slíkar aðgerðir skiptast annars vegar í fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu. Fylling er þegar úrgangur, sem er ekki spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni. Þegar úrgangur er nýttur í brennslu til orkunýtingar þarf að vera ljóst að aðrar meðhöndlunar leiðir skili ekki betri niðurstöðu fyrir umhverfið.
Förgun er aðgerð sem er ekki endurnýting jafnvel þó aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku. Förgun getur verið brennsla án orkunýtingar eða urðun úrgangs og er sísti kosturinn við meðhöndlun úrgangs. Ef litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda kemur urðun mun verra út en förgun þar sem hvert tonn af úrgangi sem er urðað í dag losar í mörg ár inn í framtíðina.