Ráðgefandi álit - Hvenær telst endurnýttur
úrgangur verða að vöru?

Til þess að markaðssetja endurnýttan úrgang sem vöru þarf að liggja fyrir ráðgefandi álit frá Umhverfisstofnun. Ráðgefandi álit felur í sér mat Umhverfisstofnunar á því hvort hægt sé að endurnýta úrgang við framleiðslu á vöru þannig að ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og þannig að umhverfið verði ekki fyrir skaða.

Við gerð ráðgefandi álits tekur Umhverfisstofnun meðal annars mið af eftirfarandi þáttum þegar hún metur hvort tiltekinn úrgangur hættir að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum þá endurnýtingaraðgerð sem lýst er í umsókn:

  • Að úrganginum verði breytt í vöru sem hægt sé að setja á markað.
  • Að hægt sé að nota úrganginn sem fer í gegnum endurnýtingaraðgerð á sambærilegan hátt og sambærilega vöru á markaði sem hefur ekki verið unnin úr úrgangi.
  • Að hægt sé að geyma úrganginn sem fer í gegnum endurnýtingaraðgerð og nota hann á þann hátt að hann valdi ekki verri umhverfisáhrifum en sambærileg vara á markaði sem hefur ekki verið unnin úr úrgangi.
  • Að umsækjandi tryggi að varan uppfylli ávallt settar kröfur.

Í reglugerð um lok úrgangsfasa koma fram sérstök viðmið um lok úrgangsfasa fyrir tiltekna úrgangsflokka. Ekki er þörf á ráðgefandi áliti frá Umhverfisstofnun til að framleiða vörur úr þessum úrgangsflokkum heldur ber framleiðendum í stað þess að fylgja þeim viðmiðum sem sett eru í reglugerðinni. Þeir úrgangsflokkar sem heyra undir reglugerð um lok úrgangsfasa eru:

  • Brotamálmar af tilteknum gerðum
  • Glerbrot
  • Koparrusl

Nánar er fjallað um ráðgefandi álit og endurnýtingu úrgangs í 21. grein laga um meðhöndlun úrgangs og í reglugerð um endurnýtingu úrgangs.

Umsóknir um ráðgefandi álit skulu berast í gegnum þjónustugátt Umhverfisstofnunar.