Hvað er hringrásarhagkerfið?

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka úrgangsmyndun og mengun, draga úr auðlindanotkun með því að koma vörum og hráefnum í hringrás og þannig auka líftíma auðlinda jarðar. Hringrásarhagkerfið er kerfislausn sem tekur á mörgum áskorunum samtímis, s.s. losun gróðurhúsalofttegunda, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika , úrgangsmyndun og mengun.

Hringrásarhagkerfið gengur út á aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hringrás og endi ekki í förgun

Hringrásarhagkerfið er viðspyrna við gamla línulega hagkerfinu sem viðheldur ósjálfbærri nýtingu auðlinda og sóun þar sem hlutir eru framleiddir, keyptir, notaðir og þeim svo hent.

Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins felur ekki bara í sér endurskilgreiningu á hagkerfinu og hvernig við umgöngumst auðlindir okkar, heldur snýst hún líka um að tileinka sér nýtt viðhorf í nýju samfélagi. Við þurfum hringrásarhugsun á öllum sviðum, við hönnun og vöruþróun, í rekstri, í skólakerfinu og hjá neytendum.

Í hringrásarhagkerfinu er lögð áhersla á að hönnun og framleiðsla vöru sé með þeim hætti að hægt sé að endurnota og gera við vöruna til að lengja líftíma hennar. Jafnframt er þess gætt að varan henti til endurvinnslu að notkun lokinni. Í staðinn fyrir að bjóða alltaf fram nýja vöru fær framboð á þjónustu aukið vægi í hringrásarhagkerfinu.

Það helsta sem við getum gert til að tryggja að auðlindum sé haldið í hringrás er að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna.

Deila

Hagkerfi sem gengur út á það að deila gæðum (t.d. deilibílar, bókasöfn og rafskútuleigur) er bæði hagkvæmara og dregur úr umhverfisáhrifum. Með því að leggja áherslu á deilihagkerfi er hægt að draga úr sóun verðmæta.

Í deilihagkerfi er líklegra að vöruúrval sé fjölbreytt, mæti þörfum markaðarins samhliða aukinni þátttöku almennings í markaðnum þar sem þjónusta eða upplýsingar sem hann getur látið af hendi hefur markaðsvirði. Verðmætasköpun eykst þar sem vörur og þjónusta eru nýtt á skilvirkari hátt af fleiri aðilum.

Viðgerðir og viðhald

Viðgerðir eru einn liður í því að auka líftíma vara. Því miður hefur neysluhyggja samtímans ýtt undir framleiðslu á vörum með stuttan líftíma og sem erfitt er að gera við. Framleiðendur bera ábyrgð á því að hanna vörur sínar þannig að þær endist lengi og hafi þann kost að hægt sé að gera við þær. Ísland hefur tekið upp tilskipanir Evrópusambandsins um þrepaskipt gjöld sem virkar sem hvati fyrir framleiðendur til að framleiða endingargóðar vörur sem hægt er að gera við, endurnota- og endurvinna en innihaldi jafnframt ekki hættuleg efni. Þannig eiga vörur með lægri líftíma að bera hærra úrvinnslugjald. Þessi tilskipun kemur til framkvæmda árið 2023.

Samhliða vaxandi ábyrgð framleiðenda á að framleiða hluti til að endast, þarf að endurvekja viðgerðarmenningu í samfélaginu. Stjórnvöld geta stutt við viðgerðarmenningu með ýmsum ívilnandi aðgerðum en aðgerð 19 í stefnu stjórnvalda um meðhöndlun úrgangs snýst um að lækka kostnað almennings við viðgerðir og viðhald. En svo hafa einstaklingar, samtök og stofnanir sýnt frumkvæði í því að halda viðburði og bjóða upp á aðstöðu með tækjum og tólum til viðgerða, má þar nefna Munasafn Reykjvíkur, handverkskaffi bókasafna og námskeið Kvenfélagasambands Íslands.

Endurnota

Endurnotkun, þar sem vara er notuð áfram í óbreyttu formi, kemur í veg fyrir framleiðslu á nýjum vörum og sparar þannig auðlindanotkun og lengir líftíma hennar.

Markaðir fyrir endurnotkun hafa færst í aukana hér á landi síðustu ár, má þar nefna ýmsa nytjamarkaði, fataloppur, efnisveitur og skiptimarkaði. Að kaupa notaðar vörur í stað nýrra er orðin viðtekin venja hjá mörgum neytendum. Til að stuðla að enn virkari mörkuðum endurnotkunar er í skoðun hjá stjórnvöldum að afnema virðisaukaskatt af endursölu notaðara vara en aðgerð 20 í stefnu stjórnvalda um meðhöndlun úrgangs stefnir að því markmiði.

Endurframleiða

Endurframleiðsla byggir á því að hægt sé að taka vöru í sundur, hreinsa, gera við og bæta nauðsynlegum íhlutum við og setja saman aftur samkvæmt forskrift framleiðanda þannig að varan geti nýst áfram. Endurframleiðsla vara notar allt að 80% minni orku við framleiðsluferlið auk þess sem hún krefst færri auðlinda.

Endurvinna

Í virku hringrásarhagkerfi er takmarkið að framleiða einungis endurvinnanlegar vörur að öllu leyti til að tryggja hringrás og koma alveg í veg fyrir myndun úrgangs. Slíkt takmark er ekki fjarlægur draumur því flest efni er hægt að endurvinna aftur og aftur. Gildir það t.d. um efni eins og málma, pappír, gler og sumar gerðir plasts sem er hægt að endurvinna og nýta sem endurheimt hráefni í stað nýrra. Forsenda þess að hægt sé að endurvinna efni er að það sé tiltölulega hreint, laust við aðskotahluti og sé ekki blandað öðrum efnum. Svo efni henti í hágæða endurvinnslu þurfum við að vanda okkur við að flokka úrganginn okkar, koma honum tiltölulega hreinum í flokkunarílát og passa upp á að engin blöndun eigi sér stað