Flokkarnir sjö

Á árinu 2023 verður fyrirkomulag í flokkun úrgangs stórbætt og einfaldað um allt land. Skylda verður að flokka heimilisúrgang á heimilum og vinnustöðum í sjö flokka: pappír, plast, matarleifar, málma, gler, textíl og spilliefni. Bannað verður að urða eða brenna úrgang sem búið er að flokka.

Borgað þegar hent er

Með nýju fyrirkomulagi við innheimtu sem kallast Borgað þegar hent er mun hvert heimili borga eftir magni og tegund úrgangs. Þau sem fleygja minna og flokka vel geta lækkað kostnað fyrir meðhöndlun úrgangs. Þannig getur þú sparað, umhverfið græðir en ávinningurinn er okkar allra!

Sömu merkingar

Það á að vera einfalt að stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu. Þess vegna verða sömu flokkunarmerkingar á ílátum og tunnum fyrir úrgang. Þú flokkar eftir sömu merkingum hvort sem þú ert í Kópavogi eða á Kópaskeri!

Viltu vita meira?

Smelltu hér!


Um verkefnið

Allan hringinn er samstarfsverkefni á vegum stofnana, sveitarfélaga,  rekstraraðila í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu. Markmiðið með verkefninu er að kynna þær breytingar sem eiga sér stað í úrgangsmálum árið 2023 í kjölfar gildistöku nýrra laga og hvetja landsmenn alla til að taka þátt í að mynda hringrásarhagkerfi á Íslandi af fullum krafti. 

Flokka þarf úrgang meira og betur svo hægt sé að endurnýta og endurvinna hann, hringrásarhugsun þarf við hönnun og vöruþróun, auka endurnotkunar og kannski fyrst og fremst, huga alls staðar í ferlinu, hvar er hægt að lágmarka sóun og koma í veg fyrir myndun úrgangs.

Breytingarnar kalla ekki síst á nýja hugsun þar sem við þurfum að líta á úrganginn okkar sem auðlind sem við getum endurnýtt og endurunnið, en ekki efni til urðunar.

Tökum öll höndum saman og stuðlum að hringrásarhagkerfi allan hringinn!

Bakhjarlar

Kynningarefni

Náðu þér í kynningarefni og deildu að vild!