Skilgreiningar á hugtökum

Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur sé á hugtökum og orðanotkun í úrgangsmálum. Hér má sjá skilgreiningar helstu orða í málaflokkinum og dæmi um notkun þeirra. Skilgreiningar þessar byggja á skilgreiningum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs (með breytingarlögum nr. 103/2021) og reglugerðum sem hafa stoð í þeim. Frekari upplýsingar um regluverkið má finna hér.

Almennur úrgangur: Úrgangur annar en spilliefni.

Byggingar- og niðurrifsúrgangur1: Allur sá úrgangur sem til kemur vegna byggingar- og niðurrifsstarfsemi, þar á meðal vegna viðhalds og breytinga á líftíma mannvirkja, og niðurrifs þeirra. Skilgreining þessi tekur jafnframt til úrgangs sem stafar frá minni háttar byggingar- og niðurrifsstarfsemi almennings á einkaheimilum.

Endurnotkun: Hvers kyns aðgerð þar sem vörur og íhlutir, sem ekki er úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi. Það sem er endurnotað telst ekki úrgangur vegna þess að það var endurnotað í stað þess að handhafi losaði sig við efnið eða hlutinn. Endurnotkun eru dæmi um úrgangsforvarnir. Enska heiti þess er reuse.

Dæmi:

  • Raftæki sem er í nothæfu ástandi gengur frá einum notanda til annars.
  • Fatnaður skiptir um eiganda á flóamarkaði.
  • Byggingarverktaki kaupir notuð steypumót
  • Notuð bifreið skiptir um eiganda.


Endurnýting
1: Aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eða hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notað í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu. Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.


Fylling
er sérhver endurnýtingaraðgerð þar sem hentugur úrgangur, sem ekki er spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni, henta í áðurnefndum tilgangi og takmarkast við það magn sem er nauðsynlegt til að ná þessum tilgangi. Enska heiti þess er backfilling.

 

Endurvinnsla: Hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi, undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar. Enska heiti þess er recycling.

Endurvinnsla er mengi undir stærra hugtaki endurnýtingar. Öll endurvinnsla er endurnýting en ekki öll endurnýting er endurvinnsla. Endurvinnsla er betri farleið fyrir úrgang heldur en önnur endurnýting þar sem hún er ofar í forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs sem oft er sett fram myndrænt sem úrgangsþríhyrningurinn.

Endurnýting: er aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu. Enska heiti þess er recovery.

Endurnýting er yfirheiti yfir alla meðhöndlun úrgangs sem er ekki förgun. Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.

Fylling er sérhver endurnýtingaraðgerð þar sem hentugur úrgangur, sem ekki er spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni, henta í áðurnefndum tilgangi og takmarkast við það magn sem er nauðsynlegt til að ná þessum tilgangi. Enska heiti þess er backfilling.

 

Flokkun: Aðgreining úrgangsefna til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.

Förgun: Hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.

Handhafi úrgangs: Framleiðandi úrgangs eða einstaklingur eða lögaðili sem hefur hann í vörslu sinni.

Heimilisúrgangur1: Úrgangur sem flokkast sem:

  1. blandaður úrgangur frá heimilum og úrgangur frá heimilum sem er sérstaklega safnað, þ.m.t. pappír og pappi, gler, málmar, plast, lífúrgangur, timbur, textíll, umbúðir, raf- og rafeindatækjaúrgangur, notaðar rafhlöður og rafgeymar og rúmfrekur úrgangur, þ.m.t. dýnur og húsgögn,

  2. blandaður úrgangur af öðrum uppruna og úrgangur af öðrum uppruna sem er sérstaklega safnað og er svipaður að eðli og samsetningu úrgangi frá heimilum,

  3.  en þó ekki úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum,
     rotþróm, fráveitukerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur.

Enska heiti þess er municipal waste.
Athugið! Heimilisúrgangur fellur ekki eingöngu til á heimilum. Eðli málsins samkvæmt telst úrgangur frá heimilum vera heimilisúrgangur en samskonar úrgangur sem fellur til hjá fyrirtækjum og stofnunum, t.d. eldhúsúrgangur frá mötuneytum og kaffistofum, telst einnig til heimilisúrgangs.

Hringrásarhagkerfi: Efnahagslegt kerfi þar sem vöruhönnun, framleiðsla, dreifing, neysla og meðhöndlun úrgangs mynda því sem næst lokaða auðlindahringrás.

Lífrænn úrgangur1: Úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgangur, pappír,pappi og seyra.

Lífúrgangur er innan stærra mengis lífræns úrgangs. Allur lífúrgangur er lífrænn úrgangur en ekki allur lífrænn úrgangur er lífúrgangur.

Lífúrgangur1: Lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla. Enska heiti þess er bio-waste.

Meðhöndlun úrgangs: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.

Móttökustöð: Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla förgunarstaðir. 

Óvirkur úrgangur: Úrgangur sem breytist ekki verulega, líf,- efna- eða eðlisfræðilega.

Rekstrarúrgangur: Úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilisúrgangur. 

Sérstök söfnun: Söfnun þar sem úrgangsflokkun er haldið aðskildri eftir tegundum og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu. 

Spilliefni: Úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni, sbr. reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.

Söfnun: Það að safna úrgangi saman, þ.m.t. forflokkun og bráðabirgðageymsla úrgangs fyrir flutning á móttökustöð.

Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva. 

Undirbúningur fyrir endurnotkun: Hvers kyns aðgerðir, sem felast í skoðun, hreinsun eða viðgerð, þar sem vörur eða íhlutir þeirra, sem eru orðin að úrgangi, eru útbúin þannig að þau megi endurnota án annarrar forvinnslu.

Urðun: Varsla úrgangs á eða í landi sem ekki felur í sér frekari vinnslu hans eða nýtingu um fyrirsjáanlega framtíð. 

Úrgangsforvarnir: Ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efnisviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr: 

  1. magni úrgangs, þ.m.t. með endurnotkun vara eða framlengingu á notkunartíma vara,
     
  2. neikvæðum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna vegna úrgangs sem hefur myndast, eða
     
  3. innihaldi skaðlegra efna. 


Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við. Enska heiti þess er waste.

Samheiti yfir úrgang í daglegu tali er t.d. sorp, rusl, drasl en þessi orð eru ekki eins bundin í lög og orðið úrgangur og eru almennt ekki notuð í stjórnsýslunni. Allt sem á ekki að losa sig við auk þess sem í daglegu tali er talað um sem úrgang en er undan skilið í úrgangslögunum er ekki úrgangur. Það sem fer í fráveituna, kúkur og piss, er ekki úrgangur því um hana gilda önnur lög. Því er úrgangur eitt og fráveita annað í stjórnsýslunni.


 Breytingar eða nýjar skilgreiningar sem taka gildi hinn 1. janúar 2023 í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sbr. fyrrgreind breytingalög nr. 103/2021.