- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- uos@uos.is
- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
Árið 2021 kom út ný heildarstefna í úrgangsmálum á Íslandi sem ber heitið Í átt að hringrásarhagkerfi. Stefnan spannar allan úrgangsþríhyrninginn og miðar að því að styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi. Stefnan skiptist í tvo meginhluta, stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, og stefnu um meðhöndlun úrgangs.
Í Saman gegn sóun er lögð áhersla á að draga úr úrgangsmyndun og viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Stefnan var eitt fyrsta skrefið í innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Umhverfisstofnun fer með umsjón Saman gegn sóun og heldur úti heimasíðu, Facebook síðu og Instagram síðu þar sem upplýsingum um hringrásarhagkerfið er miðlað til samfélagsins.
Stefna um meðhöndlun úrgangs kom í stað Landsáætlunar um úrgang 2013-2024. Stefnan hefur þrjú meginmarkmið:
1. Draga úr losun frá meðhöndlun úrgangs
2. Stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu með því að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs
3. Að sá úrgangur sem fellur til fái viðeigandi meðhöndlun svo hann skapi ekki hættu fyrir heilbrigði manna og dýra eða valdi skaða á umhverfinu
Breytingar á löggjöf úrgangsmála sem styður við stefnuna boða m.a. skyldu til flokkunar á heimilisúrgangi, samræmdar merkingar og bann við urðun á flokkuðum úrgangi. Einnig er komið á auknu hvatakerfi við meðhöndlun úrgangs með álagningu úrvinnslugjalds á fleiri vöruflokka og með nýju og sanngjarnara innheimtukerfi sveitarfélaganna við meðhöndlun úrgangs sem kallast Borgað þegar hent er. Í heild sinni boðar stefnan 27 aðgerðir sem munu leiða til jákvæðra breytinga í úrgangsmálum á Íslandi sem miðar að aukinni nýtingu, aukinni endurnotkun og endurvinnslu og samdrátt í urðun úrgangs.
Heildarstefna í úrgangsmálum tekur saman mikilvægar aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum sem allar styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi.
Hingað til hefur ekki verið sett fram stefna um visthönnun, þ.e.a.s. stefna sem miðar í auknum mæli að því að setja fram hönnunarforsendur sem tryggja að hugað sé að hringrásinni strax í upphafi. Til dæmis að skoða hvernig hægt er að auka eftirspurn eftir notuðum og endurunnum efnum í framleiðslu og auka hlut endurframleiðslu. Einnig hvernig beita má enn frekar hagrænum hvötum til þess að styðja við viðgerðamenningu og deilihagkerfið. Fyrstu skrefin af þessu eru tekin í heildarstefnu í úrgangsmálum, en á vissum sviðum er líklega þörf fyrir frekari stefnumótun.