Áreiðanleg gögn lykilatriði við úrgangsstjórnun

 

Úrgangstölfræði er mikilvægur hlekkur í úrgangsstjórnun á Íslandi, en úrgangsstjórnun og markmiðasetning verður markvissari ef hún byggir á góðum gögnum. Þannig er hægt að fylgjsat með hversu mikið af úrgangi fellur til, frá hvaða sveitarfélagi hann kemur, hversu mikið skilar sér í endurvinnslu eða endurnýtingu og margt fleira.

Mikilvægi úrgangstölfræðinnar:

  • Umhverfislegt mikilvægi: Það er mjög mikilvægt að geta fylgst með mismunandi úrgangsstraumum, bæði magni og meðhöndlun, til að sjá hvar er hægt að draga úr myndun úrgangs, hvar og á hvaða úrgangsflokkum er hægt að bæta endurvinnsluhlutfallið, hvar er hægt að draga úr urðun og margt fleira. 
  • Loftslagslegt mikilvægi: Þegar kolefnislosun á Íslandi er reiknuð, er að hluta til stuðst við úrgangstölfræðina, þar sem það hefur áhrif hversu mikið af úrgangi er meðhöndlaður innanlands og hversu mikið er flutt út til meðhöndlunar.
  • Lagalegt mikilvægi: Það eru ýmis lagaleg ákvæði sem Íslandi ber að fylgja, eins og lög og reglugerðir um meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög bera ábyrgð á meðhöndlun innan síns sveitarfélags, og að það séu til farvegir fyrir hvers kyns úrgang sem myndast. Lagalegu ákvæðin eru tilkomin vegna evrópskrar löggjafar, en þar eru ýmis ákvæði um endurvinnsluhlutföll úrgangsflokka og urðun sem Evrópuríkjum ber að fylgja. Úrgangstölfræðin er því mikilvægt tól til að fylgjast með hvernig Ísland stendur sig gagnvart íslenskri og evrópskri löggjöf. 
  • Sveitastjórnunarlegt mikilvægi: Úrgangstölfræðin ber að geyma mikilvægar upplýsingar fyrir sveitastjórnir, svo þau geti fylgst með úrgangsmyndun í sínu sveitarfélagi og hvort úrgangsflokkar séu að fá viðeigandi meðhöndlun.

Hagnýtar upplýsingar

Úrgangstölfræði er safnað í gegnum gagnagátt Umhverfisstofnunar. Heildarmagn og ráðstöfun úrgangs er birt á mælaborði úrgangstölfræðinnar, allt aftur til ársins 2014. Einnig má þar sjá tölfræði ýmissa úrgangsflokka og markmið endurvinnslu og endurnýtingar.  

Hagstofan notar gögn frá Umhverfisstofnun og birtir á vefsíðu sinni

Áskoranir tengdar skráningu og aðgengi

Áskorun hefur falist í því að fá áreiðanleg gögn um uppruna úrgangs. Eins og er, safnar Umhverfisstofnun magntölum úrgangs frá öllum lokameðhöndlunaraðilum. Það eru þeir aðilar sem sjá um lokameðhöndlun á úrganginum, eins og hvort að úrgangurinn sé endurunninn eða er nýttur sem fyllingarefni til að nefna sem dæmi. Úrgangstölfræði Íslands hefur því góð gögn um hversu mikið endar í lokameðhöndlun, og þá hvers konar meðhöndlun. Upp á vantar þó, að fá magntölur úrgangs frá þeim aðilum sem safna úrganginum og þeim sem meðhöndla úrganginn áður en hann fer í lokameðhöndlun, þ.e. það vantar gögn frá fyrstu- og millimeðhöndlunaraðilum. Með öðrum orðum, það vantar nákvæmari gögn yfir hversu mikið af úrgangi verður til, hvar hann verður til og hvaða leið hann fer þar til hann endar í lokameðhöndlun. Gögnin verða alltaf ófullnægjandi varðandi þessi atriði, þar til fyrstu- og millimeðhöndlunaraðilar byrja að skila magntölum úrgangs. 

Stöðugar umbætur

Umhverfisstofnun vinnur markvisst að því að bæta úrgangstölfræðina, sem stendur eru eftirfarandi umbætur sem ber helst að nefna: 

  • Notendaviðmót meðhöndlunaraðila í gagnagátt Umhverfisstofnunar:
    • Umhverfisstofnun vill auðvelda meðhöndlunaraðilum skilaferlið eins og hægt er. Gagnagáttin á að vera skýr, einföld í notkun og þægileg að vinna með. Það á að vera skýrt hvaða upplýsingar er beðið um og hvernig á að skila þeim. Ef þú hefur ábendingar hvernig við getum bætt okkar notendaviðmót við skil úrgangsgagna, þá hvetjum við þig til að senda þína ábendingu á sérfræðinginn okkar í úrgangstölfræði, petur.gunnarsson@umhverfisstofnun.is. 
  • Söfnun nákvæmari og ítarlegri gagna sem fylgja magntölum úrgangs:
    • Því meiri og ítarlegri gögn, því betra. Umhverfisstofnun vinnur að því að meta hvaða viðbótargögn væru gagnleg, hvort að vinnan við að bæta þeim við gagnasöfnunina borgi sig og þá hvernig þeim gögnum mun vera safnað. 
  • Söfnun magntalna úrgangs frá öllum aðilum í virðiskeðju úrgangs:
    • Með því að fá magntölur úrgangs frá fyrstu-, milli- og lokameðhöndlunaraðilum úrgangs, væri hægt að fylgjast með líftíma úrgangs frá því að hann verður til og þar til hann fer í lokameðhöndlun. Einnig væri hægt að sjá hvar úrgangurinn verður til (í hvaða sveitarfélagi) með mun meiri nákvæmni en er í boði í dag, og í hvaða sveitarfélagi hann fer í lokameðhöndlun. Fleiri kosti sem þessi bæting myndi hafa í för með sér er betra mat á heildarmagni úrgangs sem fellur til á hverju ári og hægt verður að notast við nýjustu reiknireglur frá ESB/EES við útreikning á endurvinnsluhlutfalli.