Umhverfisstofnun og auglýsingastofan TVIST hafa hlotið tilnefningu til auglýsingaverðlaunanna Lúðursins. Tilnefningin er í flokki PR – almannatengsla fyrir íslenska úrgangsfjallið.
Íslenska úrgangsfjallið var sett upp á viðburði til þess að vekja athygli á verkefninu Allan hringinn.
Ísland er í sjöunda sæti yfir þær þjóðir innan Evrópu sem henda mestu magni af heimilisúrgangi á hverju ári eða að meðaltali um 667 kg á hvern Íslending. Að því tilefni var íslenska úrgangsfjallið reist, táknræn 667 kg ruslahrúga inni í Góða hirðinum. Markmiðið með úrgangsfjallinu var að sýna hve mikilvægt það er að draga úr óþarfa neyslu, endurnýta meira og urða minna.
Allan hringinn er samstarfsverkefni á vegum stofnana, sveitarfélaga, rekstraraðila í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu. Markmiðið með Allan hringinn er að kynna breytingar í úrgangsmálum árið 2023 í kjölfar gildistöku nýrra laga og hvetja landsmenn alla til að taka þátt í að mynda hringrásarhagkerfi á Íslandi af fullum krafti.