- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- uos@uos.is
- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
Úrgangur verður til þegar handhafi efna eða hluta ákveður að losa sig við þá, ætlar að losa sig við þá eða er gert að losa sig við þá. Eðli málsins samkvæmt getur hver sem er verið handhafi úrgangs, s.s. einstaklingar, einkafyrirtæki, opinber fyrirtæki eða stofnanir.
Handhafa úrgangs er skylt að færa úrganginn til viðeigandi meðhöndlunar, annað hvort beint til endurnýtingar eða í söfnunar- eða móttökustöð. Þessi skylda gildir hvort sem handhafi er sá sem úrgangurinn fellur til hjá eða sá sem hefur hann undir höndum.
Við flutning og geymslu úrgangsins skal handhafi gæta þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi. Það er jafnframt hlutverk handhafa að gæta þess að úrgangurinn frá honum uppfylli settar kröfur, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar.
Ráðherra fer með yfirstjórn málaflokksins og á vegum ráðuneytisins eru unnin lagafrumvörp og reglugerðir um úrgangsmál. Ráðherra gefur út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Almenn stefna um meðhöndlun úrgangs sem gildir til ársins 2032 er sett fram í stefnu ráðherra í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi, sem var gefin út í júní 2021.
Umhverfisstofnun hefur fjölþætt hlutverk í úrgangsstjórnun. Hlutverk Umhverfisstofnunar er m.a. að:
Sveitarstjórn gegnir lykilhlutverki í stjórnsýslu úrgangsmála á Íslandi. Sveitarstjórn ákveður hvaða fyrirkomulag skuli vera á söfnun heimilisúrgangs og rekstrarúrgangs innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn ber að hafa tiltækan farveg fyrir allan úrgang sem fellur til hjá einstaklingum og lögaðilum innan sveitarfélagsins og að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang frá sveitarfélaginu. Rekstur móttöku- og söfnunarstöðva má vera í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir eða í höndum einkaaðila og þær mega vera staðsettar utan sveitarfélagsins. Fyrirkomulag og markmið í málaflokknum skal útfært í svæðisáætlunum og samþykktum sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.
Sveitarstjórn er heimilt að leita hagstæðustu lausna við sorphirðu og útvista verkefninu til einkaaðila en ábyrgðin á að þjónustan verði veitt er eftir sem áður sveitarstjórnarinnar. Ef einhverjum úrgangsflokkum er ekki safnað með sorphirðu er það skylda sveitarstjórnar að tryggja að tekið sé við þeim úrgangi á söfnunar- eða móttökustöð sem íbúar hafa aðgang að.
Sveitarfélög reka heilbrigðiseftirlit undir stjórn heilbrigðisnefnda. Heilbrigðisnefndir annast eftirlit með meðhöndlun á úrgangi, hafa eftirlit með og veita starfsleyfi fyrir rekstur sérstakrar söfnunar á lóðum íbúa og lögaðila og aðrar móttökustöðvar en förgunarstaði og aðra meðferð úrgangs. Þær veita einnig umsagnir við gjaldskrár og samþykktir fyrir meðhöndlun úrgangs.
Framleiðendur og innflytjendur vara og umbúða sem falla undir framlengda framleiðendaábyrgð skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun vöru sem er orðin að úrgangi.
Framlengd framleiðendaábyrgð er hluti af mengunarbótareglunni (e. Polluter Pays Principle) sem kveður á um að sá sem veldur mengun skuli að jafnaði bera kostnað af því að draga úr henni eða koma í veg fyrir áhrif hennar. Slík kerfi hafa í mörgum tilfellum reynst vel við að tryggja hagræna hvata til lágmörkunar úrgangs og bættrar úrgangsstjórnunar.
Á Íslandi er framlengd framleiðendaábyrgð útfærð að mestu leyti með úrvinnslugjaldi og skilagjaldi. Gjaldið er lagt á viðkomandi vöru við innflutning eða við innlenda framleiðslu. Skatturinn innheimtir úrvinnslugjald af innfluttum vörum eftir tollskrárnúmerum, óháð því hvort viðkomandi vara ber toll.
Úrvinnslugjald á vörur skal almennt vera þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu og innihalds hættulegra efna. Með því móti greiða framleiðendur og innflytjendur mishátt gjald sem skapar fjárhagslegan hvata til að breyta hönnun og framleiðslu þannig að auðveldara sé að endurnota eða endurvinna vörurnar.
Úrvinnslusjóður sér um umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjaldsins og ber þannig ábyrgð á að uppfylla skilyrði um framlengda framleiðendaábyrgð. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærari auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu. Endurvinnslan hf. sér um móttöku allra einnota drykkjarvöruumbúða hérlendis, greiðir út skilagjald, undirbýr til útflutnings og selur til endurvinnslu.
Heimili eru ábyrg fyrir því að flokka úrgang eftir úrgangstegundum,a.m.k. í pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Heimili sjá til þess að úrgangur rati í réttan farveg, hvort sem það er í flokkunartunnur við heimili, grenndarstöðvar eða móttökustöðvar. Heimili verða einnig að fylgja samþykktum sinna sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.
Úrgangur frá fyrirtækjum og stofnunum getur verið tvenns konar, heimilisúrgangur og rekstrarúrgangur. Úrgangur flestra fyrirtækja er einungis heimilisúrgangur en rekstrarúrgangur er sérhæfður úrgangur sem tengist starfsemi fyrirtækja, t.d. úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri þar sem fellur oft til mikið magn einsleits úrgangs. Sömu kröfur gilda um heimilisúrgang sem fellur til hjá fyrirtækjum og stofnunum og á heimilum og skal því safna sérstaklega pappír og pappa, málmum, plasti, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Þeim er skylt að flokka rekstrarúrgang á sinni lóð með sama hætti og heimili.
Fyrirtæki og stofnanir sjá sjálf um flutning úrgangs til söfnunar- eða móttökustöðva eða semja við þjónustuaðila um framkvæmdina. Úrgangur frá fyrirtækjarekstri, t.d. iðnaðarúrgangur, getur verið mjög sértækur og eru fyrirtæki oft best til þess fallin að sjá um meðhöndlun úrgangsins og er það í samræmi við mengunarbótareglu umhverfisréttarins.
Aðilar sem meðhöndla úrgang skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun eftir eðli meðhöndlunar. Þjónustuaðilar, endurvinnslufyrirtæki og endurnýtingaraðilar sem bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs skila skýrslu til Umhverfisstofnunar um úrgang sem þeir meðhöndla, með upplýsingum um tegundir úrgangsins og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun hverrar tegundar.
Aðilar sem bjóða út úrgangsþjónustu er fjölbreyttur hópur verktaka og rekstraraðila. Sumir sérhæfa sig á tilteknu sviði og hafa starfsleyfi fyrir móttöku, flutning úrgangs eða aðra meðhöndlun tiltekinnar tegundar úrgangs. Aðrir taka að sér úrgangsþjónustu á breiðu sviði fyrir nær allar gerðir úrgangs. Þjónustuaðilar eiga viðskipti sín á milli og eru fjölmörg dæmi um að úrgangur sé framseldur á milli aðila.
Sjálfboðaliðar geta einnig tekið að sér vissa þjónustu, líkt og Rauði krossinn og Hertex sem safna fötum og textíl og íþróttafélög, björgunarsveitir og Bandalag íslenskra skáta sem safna einnota drykkjarumbúðum með skilagjaldi.