- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
Með heimajarðgerð má umbreyta lífúrgangi í verðmæt næringarefni og spara umhverfisálag sem verður vegna söfnunar, flutning og annarrar meðhöndlunar úrgangs, auk þess að lækka kostnað við meðhöndlun.
Samkvæmt 10 gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 er heimajarðgerð heimil þó skylda sé að safna lífúrgangi við heimili og vinnustaði. Til skoðunar er hvernig sveitarfélög geta umbunað íbúum sem stunda heimajarðgerð til dæmis með lækkun gjalda við meðhöndlun úrgangs.
Í þessum leiðarvísi notum við orðið hráefni fyrir það sem oft er kallað matarleifar, skræl, garða- eða lífrænn úrgangur. Allt eru þetta verðmæt og næringarrík hráefni sem verða einungis að úrgangi þegar við meðhöndlum þau sem slík. Við þurfum að koma í veg fyrir að verðmæti verði að úrgangi. Þegar við sjáum verðmætið í lífrænu hráefnunum opnast möguleikar til að nýta það til bættrar jarðvegsheilsu, ræktunar, uppgræðslu, í skógrækt, endurheimt vistkerfa og svo mætti lengi telja.
Niðurbrot lífrænna efna gerist nokkuð hægt í náttúrunni en ferlinu má hins vegar flýta með því að skapa kjöraðstæður fyrir örverur og skordýr, eins og einmitt er leitast við í jarðgerð. Til eru þó nokkrar aðferðir til að jarðgera lífrænt hráefni og hér munum við fyrst fjalla almennt um jarðgerð og eftir það um þrjár aðferðir, loftháða jarðgerð, ormamoltu og bokashi jarðgerð (sjá sérstakar undirsíður hér til hægri).
Jarðgerð er ferli þar sem lífrænu hráefni er breytt í moltu. Til eru ýmsar aðferðir til að jarðgerða en allar fela þær í sér að skapa kjöraðstæður fyrir örverur sem sjá um niðurbrot lífrænna hráefna. Þetta gera þær með því að „klippa“ langar efnasambandskeðjur niður í smærri einingar sem verða aftur að næringarefnum, ekki ósvipað og gerist í meltingarvegi dýra og manna. Það er einmitt margt líkt með jarðveginum og meltingarveginum og rétt eins og það er mikilvægt að borða holla og góða fæðu er mikilvægt fyrir moldina að fá næringarríka moltu til að halda heilsu.
Moldin er ein mikilvægasta auðlind okkar á jörðinni. Plönturnar sem úr henni vaxa fæða okkur og klæða og hún bindur einnig mikið kolefni. Það er því brýnt að við gætum öll vel að henni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, takmarka áhrif loftslagsbreytinga og halda við og endurheimta vistkerfi. Jarðgerð er gagnlegt verkfæri í þessari vinnu. Jarðgerð stuðlar að nýtingu matarleifa og dregur úr myndun gróðurhúsalofttegunda og moltan nærir og gerir jarðveginn frjósamari.
Þegar lífrænu hráefni er hent og það ratar í urðun er um línulegt ferli að ræða. Á urðunarstöðum myndast mikið magn af metangasi þar sem lífrænt hráefni brotnar niður í óæskilegum loftfirrtum aðstæðum. Metangas er gróðurhúsalofttegund sem hefur 25x hlýnunarstuðul koltvísýrings. Að meðaltali verða til 1,9 kg af koltvísýringsígildum fyrir hvert 1 kg af lífrænu hráefni sem ratar í urðun. Það er ekki einungis losun gróðurhúsalofttegunda sem gerir urðunina að óumhverfisvænni leið til að meðhöndla lífrænt hráefni, heldur töpum við líka tækifærinu til að halda næringarefnum í hringrás með að nýta sem jarðvegsbæti í ýmiskonar ræktun og landgræðslu.
Í jarðgerð komum við þeim næringarefnum sem finnast í lífrænu hráefni aftur inn í náttúrulega hringrás vistkerfisins. Við ræktum matinn í jarðveginum, borðum hann, jarðgerum það sem eftir verður og komum moltunni aftur út í mold þar sem ferlið hefst á ný. Með aukinni notkun á moltu sem áburð getum við ennfremur dregið úr notkun tilbúins áburðar sem hefur í för með sér töluverða losun gróðurhúsalofttegunda.
Þegar lokaafurðin, moltan, er tilbúin, hvort sem lífræna hráefnið hefur brotnað niður í ferli ormamoltu, bokashi- eða loftháðrar jarðgerðar, er tímabært að koma henni í nýtingu. Sjálft jarðgerðarferlið dregur vissulega úr losun gróðurhúsalofttegunda en ferlinu er ekki lokið við niðurbrot. Til þess að viðhalda hringrás næringarefna þarf að koma moltunni í nýtingu og þar gildir einu hvort hún rati í grænmetisrækt, skógrækt, blómabeð eða landgræðslu. Það sem öllu máli skiptir er að hún sé nýtt.
Tilbúin molta inniheldur oft það mikið af næringarefnunum fosfór og köfnunarefni að ráðlagt er að þynna hana út með því að blanda henni til helminga við gróðurmold eða dreifa henni í þunnu lagi (1-2 cm) yfir moldarbeð. Þá er ekki ráðlagt að nota hreina moltu við sáningu.
Mörgum þykir gott að sigta moltuna áður en hún er nýtt og setja stærri og grófari bitana aftur inn í jarðgerðarferlið. Þú þarft þó ekki að hafa áhyggjur af því að stærri bitar fylgi með þar sem moltunni er dreift þar sem plöntum og þeim örverum sem lifa í jarðveginum er nokkuð sama um útlit næringarinnar. Niðurbrot lífræna hráefnisins heldur áfram eftir að búið er að dreifa moltunni og það er einmitt talið vera einn af meginkostum jarðgerðar, enda losna næringarefnin hægt úr moltunni. Þannig endist næringargeta moltu mun lengur en tilbúins áburðar.
Almennt er gott að hafa aðgengi að garði þegar hafist er handa við hverskonar jarðgerð en það þarf þó ekki að hafa úrslitaáhrif á hvort þú getur farið út í jarðgerð eða ekki. Ormamolta krefst ekki mikils garðpláss og það má komast af með að stunda bokashi án garðs ef maður hefur aðgengi að svölum eða bílskúr/kjallara. Auk þess er alltaf hægt að athuga hvort samstarf milli nágranna sé möguleiki enda geta báðir notið góðs af moltunni sem til verður.
Búir þú að garði og miklu brúnu hráefni (s.s. trjákurl og greinar) er loftháð jarðgerð tilvalin. Í hana má setja flest allt matarkyns þó gott geti verið að halda kjöti og fisk í lágmarki. Gæta þarf að C:N hlutfalli jarðgerðarinnar sem á að vera um 30:1 í góðri moltu, þetta er gert með því að passa jafnvægi af grænu- og brúnu hráefni í jarðgerðinni.
Bokashi jarðgerð er gerjunarferli sem á sér stað í loftfirrtum lokuðum ílátum við stofuhita. Í hana má setja flest allt matarkyns og getur því verið hentug ef t.d. þarf að jarðgera kjöt og fisk. Ferlið er lyktarlítið og hraðskreitt og eigir þú mikið af pottaplöntum getur aðferðin verið hentug þar sem aukaafurð ferlisins er næringarríkur vökvi sem nýta má sem áburð.
Ormamolta er einstaklega hentug fyrir þá sem búa þröngt og þar sem ekki fellur mikið til að lífrænu hráefni. Ormunum líður best í jöfnum hita, myrkri og við gott rakastig og þarfnast ekki mikillar athygli eftir að þeir hafa komið sér fyrir. Brúnt hráefni er óæskilegt í ormajarðgerð og ormarnir kunna ekki að meta mjög próteinríkt hráefni (t.d. kjöt, fisk, tofu og baunir) eða súran mat (t.d. lauk, chilli, hvítlauk, sítrusávexti eða engifer).
Það sem allar aðferðirnar eiga sameiginlegt er að það er alltaf gott ráð að skera hráefnið svolítið niður áður en það fer í jarðgerð. Þar að auki er óæskilegt að setja stór bein, hunda- og kattasand og mikla olíu í loftháða jarðgerð, bokashi og ormamoltu.
Síðastliðin ár hafa mikið af vörum komið á markað sem gerðar eru úr lífplasti (PLA-plast) og merkt eru „compostable“ eða jarðgeranleg. Þetta eru til að mynda maíspokar, kaffihylki, hnífapör, djúsglös og annarskonar einnota vörur. Þrátt fyrir merkinguna er lífplast ekki niðurbrjótanlegt í heimajarðgerð af neinu tagi heldur einungis í miðlægri iðnaðarjarðgerð. Í sumum tilfellum eru þó þunnir maíspokar (eða aðrir sterkjupokar) notaðir utan um lífræn hráefni og geta þeir í vissum tilfellum brotnað niður.
Fyrsta og besta ráðið í jarðgerð er að passa að lágmarka matasóun heimilisins. Þetta má til að mynda gera með því að skipuleggja matarinnkaup heimilisins, kynna sér þýðingu geymsluþolsmerkinga, frysta eða kæla matarafganga til að borða seinna, elda nýja rétti úr afgöngum eða búa til kraft úr skræli og afgöngum. Allt ofantalið er bæði gott fyrir veskið og jörðina.
Búir þú í fjölbýli eða átt nágranna getur verið góð hugmynd að sameinast um jarðgerðina. Það er algjör óþarfi að vera með tvær jarðgerðartunnur úti í garði þó fleiri en ein íbúð séu í húsinu. Þá má einnig samnýta bokashi tunnur og ormamoltu milli íbúða með því að geyma þær frammi á stigagangi þar sem fleiri geta tekið þátt.
Búi börn á heimilinu er jarðgerðin frábært tól til að fræðast um loftslagsmál, neysluvenjur, líffræði og náttúrulega hringrás næringarefna í vistkerfinu okkar. Svo nýttu tækifærið og fáðu þau og örverurnar í lið með þér í þágu loftslagsins.
Nokkur hugtök sem gott er að þekkja fyrir árangursríka jarðgerð:
Grænt hráefni er ríkt af nitri (N), t.d. matarleifar, laufblöð og nýslegið gras
Brúnt hráefni er ríkt af kolefnum (C), t.d. pappír, pappi, trjákurl, niðurklipptir runnar og strá
C:N hlutfall er hlutfall kolefnis- og niturríks hráefnis í jarðgerð. Það er einkum mikilvægt að gæta að því í loftháðri jarðgerð
Gott rakastig er mikilvægt svo að örverur þrífist vel í jarðgerðinni
Súrefni er mikilvægt fyrir sumar örverur til að brjóta niður hráefnið á meðan aðrar njóta sín best í loftfirrtum aðstæðum, það fer allt eftir jarðgerðaraðferðinni sem þú velur.