Handbók sveitarfélaga um úrgangsmál hefur verið uppfærð inni á úrgangur.is. Breytingar frá fyrri útgáfu taka mið af uppfærðu laga- og reglugerðaumhverfi, uppfærðum stefnumiðum stjórnvalda, þau mál sem hafa valdið erfiðleikum í úrgangsmálum eru skýrð nánar og viðaukum hefur verið bætt við handbókina. Finna má handbókina undir flipanum „Sveitarfélög og atvinnulíf.“
Þeir viðaukar sem bættust við handbókina innihalda sniðmát til notkunar í útboðsgerð á ýmissi úrgangsþjónustu, upplýsingar um hvernig meðhöndla beri úrgang frá skipum og flugvélum í alþjóðasiglingum auk þess sem kafla hefur verið bætt við í handbókinni um úrgangsmál í höfnum.
Meðal vafamála sem fjallað hefur verið um með skýrari hætti eru ábyrgð sveitarstjórna á tölulegum markmiðum sem varða byggingar- og niðurrifsúrgang og skyldur sveitarfélaga þegar kemur að meðhöndlun úrgangs sem inniheldur aukaafurðir dýra.
Handbókin var kynnt fyrir sveitarstjórnum á fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga þriðjudaginn 18. mars. Til stendur að halda handbókinni uppfærðri sem lifandi skjali en efst í handbókinni má sjá hvenær hún var síðast uppfærð. Til stendur að skrifa kafla um mengaðan jarðveg og útvíkka viðaukann um dómafordæmi. Allar ábendingar eru vel þegnar á netfangið johannes.bjarki.tomasson@uos.is.