- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- uos@uos.is
- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar er unninn á grunni aðgerða sem tilgreindar eru í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum – „Í átt að hringrásarhagkerfi“, sem gefin var út árið 2021 og byggir á 5. gr. laga 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.
Í handbókinni er fjallað um leiðir að markvissri og bættri úrgangsstjórnun sveitarfélaga í samræmi við markmið sem sett hafa verið í tengslum við innleiðingu hringrásarhagkerfis. Farið er yfir skyldur sveitarfélaga í málaflokknum og ýmis úrræði sem þau hafa heimild til að beita. Jafnframt eru leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um gerð svæðisáætlana hluti af handbókinni og umfjöllun um hvernig sveitarfélög geta í auknum mæli nýtt svæðisáætlanagerð til að skapa sýn og taka ákvarðanir sem tryggja virka úrgangsstjórnun.
Úrgangur kemur fyrir víða í íslenskri löggjöf en segja má að meginlöggjöfin sé lög um meðhöndlun úrgangs, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um úrvinnslugjald sem og reglugerðir sem á þeim byggja. Að auki eru mikilvæg ákvæði um úrgang í reglugerðum um tilteknar vörur, t.d. reglugerð um aukaafurðir dýra og byggingarreglugerð. Yfirlit yfir helstu lög og reglugerðir eru í viðauka 4.
Handbókin byggir á ákvæðum laga og reglugerða, þ.m.t. þeim umfangsmiklu lagabreytingum sem samþykktar voru á Alþingi í júní 2021, sbr. breytingalög nr. 103/2021. Þessar breytingar koma flestar til framkvæmda hinn 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.
Í handbókinni eru sett fram dæmi um aðgerðir sem sveitarfélög geta farið í til að bæta úrgangsmeðhöndlun og/eða bregðast við áskorunum sem upp koma. Aðgerðirnar geta verið hluti af svæðisáætlun.
Skilgreiningar eru í samræmi við breytingar eða nýjar skilgreiningar sem taka gildi 1. janúar 2023 í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sbr. breytingalög nr. 103/2021.
Almennur úrgangur: Úrgangur annar en spilliefni.
Afskekkt byggð: Landsvæði þar sem íbúar í hverju sveitarfélagi eða byggð eru ekki fleiri en 500 og íbúar á ferkílómetra ekki fleiri en fimm og fjarlægð til næsta þéttbýlisstaðar, þar sem íbúar eru minnst 250 á ferkílómetra, er ekki undir 50 kílómetrum eða þar sem vegasamgöngur til næsta þéttbýlisstaðar eru torveldar hluta ársins sakir erfiðra veðurskilyrða.
Borgað þegar hent er: Innheimtufyrirkomulag fyrir söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs sem er sem næst raunkostnaði sérhvers úrgangshafa. Miðað er við magn og tegund úrgangs í stað þess að innheimta fast gjald á hverja fasteign eða hvert ílát.
Byggingar- og niðurrifsúrgangur: Allur sá úrgangur sem til kemur vegna byggingar- og niðurrifsstarfsemi, þar á meðal vegna viðhalds og breytinga á líftíma mannvirkja, og niðurrifs þeirra. Skilgreining þessi tekur jafnframt til úrgangs sem stafar frá minni háttar byggingar- og niðurrifsstarfsemi almennings á einkaheimilum.
Endurnotkun: Hvers kyns aðgerð þar sem vörur og íhlutir, sem ekki er úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
Endurnýting: Aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eða hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notað í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu. Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.
Endurvinnsla: Hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi, undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
Flokkun: Aðgreining úrgangsefna til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.
Fylling: Sérhver endurnýtingaraðgerð þar sem hentugur úrgangur, sem ekki er spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni, henta í áðurnefndum tilgangi og takmarkast við það magn sem er nauðsynlegt til að ná þessum tilgangi
Förgun: Hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
Handhafi úrgangs: Framleiðandi úrgangs eða einstaklingur eða lögaðili sem hefur hann í vörslu sinni.
Heimilisúrgangur: Úrgangur sem flokkast sem:
Heimilisúrgangur fellur ekki eingöngu til á heimilum. Eðli málsins samkvæmt telst úrgangur frá heimilum vera heimilisúrgangur en samskonar úrgangur sem fellur til hjá fyrirtækjum og stofnunum telst einnig til heimilisúrgangs, t.d. eldhúsúrgangur frá mötuneytum og kaffistofum.
Hringrásarhagkerfi: Efnahagslegt kerfi þar sem vöruhönnun, framleiðsla, dreifing, neysla og meðhöndlun úrgangs mynda því sem næst lokaða auðlindahringrás.
Lífrænn úrgangur: Úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkju- úrgangur, pappír, pappi og seyra.
Lífúrgangur: Lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.
Lífúrgangur er nýlegt hugtak og nær yfir garðaúrgang, matar- og eldhúsúrgang frá heimilum og fyrirtækjum og sambærilegan úrgang frá vinnslustöðvum matvæla.
Lífrænn úrgangur er samheiti fyrir lífúrgang og úrgang frá rekstraraðilum, s.s. sláturúrgang, fiskúrgang, ölgerðarhrat, húsdýraúrgang, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgang, pappír og pappa og seyru.
Meðhöndlun úrgangs: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.
Móttökustöð: Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla förgunarstaðir.
Óvirkur úrgangur: Úrgangur sem breytist ekki verulega, líf-, efna- eða eðlisfræðilega. Sem dæmi um þetta er sandur, möl, grjót og steypubrot.
Rekstrarúrgangur: Úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilisúrgangur.
Sérstök söfnun: Söfnun þar sem úrgangsflokkun er haldið aðskildum eftir tegundum og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu.
Spilliefni: Úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni, sbr. reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.
Söfnun: Það að safna úrgangi saman, þ.m.t. forflokkun og bráðabirgðageymsla úrgangs fyrir flutning á móttökustöð.
Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva.
Undirbúningur fyrir endurnotkun: Hvers kyns aðgerðir, sem felast í skoðun, hreinsun eða viðgerð, þar sem vörur eða íhlutir þeirra, sem eru orðin að úrgangi, eru útbúin þannig að þau megi endurnota án annarrar forvinnslu.
Urðun: Varsla úrgangs á eða í landi sem ekki felur í sér frekari vinnslu hans eða nýtingu um fyrirsjáanlega framtíð.
Úrgangsforvarnir: Ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efnisviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr:
Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.
Við meðhöndlun úrgangs skal eftirfarandi forgangsröðun lögð til grundvallar: úrgangsforvarnir, undirbúningur fyrir endurnotkun, endurvinnsla, önnur endurnýting, t.d. orkuvinnsla og förgun. Oft er talað um úrgangsþríhyrninginn sem sýnir myndrænt hvaða leið er efst í forgangi.
Við forgangsröðun í meðhöndlun úrgangs skal leitast við að velja þá kosti sem skila bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið. Heimilt er að tilteknir straumar úrgangs víki frá forgangsröðuninni þegar slíkt er réttlætanlegt út frá sjónarmiðum um áhrif alls vistferilsins á myndun og stjórnun slíks úrgangs. Við nánari útfærslu í stefnu sveitarfélags, svæðisáætlunum og ákvörðunum um fyrirkomulag við meðhöndlun úrgangs skal hafa að leiðarljósi sjónarmið um að gætt sé varúðar til að umhverfið verði ekki fyrir skaða að teknu tilliti til tæknilegrar framkvæmdar og hagkvæmni.
Sveitarfélög gegna lykilhlutverki við meðhöndlun úrgangs og hafa tilteknar skyldur.
Sérstök söfnun heimilisúrgangs: Sveitarfélög bera ábyrgð á söfnun og flutningi heimilisúrgangs hvort sem hann fellur til á heimilum eða hjá rekstraraðilum. Þjónustan er útfærð af hverju sveitarfélagi og fellur ábyrgðin ekki niður þó að sveitarfélagið ákveði að bjóða þjónustuna út og henni sé sinnt af þjónustuaðila. Það er hlutverk rekstraraðila, sem rekstrarúrgangur fellur til hjá, að sjá um flutning úrgangsins til meðhöndlunar.
Móttöku- og söfnunarstöðvar: Sveitarfélög bera ábyrgð á að starfsræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu. Stöðvarnar eru ýmist reknar af sveitarfélaginu sjálfu eða í gegnum þjónustusamning við einkaaðila. Rekstur stöðvanna getur verið í samstarfi við önnur sveitarfélög.
Farvegir fyrir úrgang: Sveitarfélagi ber að hafa tiltækan farveg fyrir allan úrgang sem fellur til hjá einstaklingum og lögaðilum innan sveitarfélagsins en þeir farvegir þurfa ekki allir að vera staðsettir innan sveitarfélagsins sjálfs. Í einhverjum tilfellum eru þó dæmi um að rekstraraðilar sjái sjálfir um meðhöndlun sérstaks úrgangs sem fellur til hjá þeim, enda geta þeir verið í slíkum tilfellum best til þess fallnir.
Markmið um endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu: Sveitarfélag hefur skyldur varðandi það að ná markmiðum sem sett eru um aukna endurvinnslu og aðra endurnýtingu heimilisúrgangs og lífræns úrgangs. Einnig að stuðlað verði að endurnotkun og að dregið verði úr urðun heimilisúrgangs. Yfirlit yfir markmið er í kafla 3.1.
Svæðisáætlun: Sveitarfélög skulu leggja fram áætlanir um hvernig markmiðum verði náð og vinna svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs til 12 ára í senn. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs: Sveitarfélög skulu skilgreina réttindi og skyldur íbúa og rekstraraðila með því að setja sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
Gjaldtaka: Sveitarfélög skulu innheimta gjald af einstaklingum og rekstraraðilum fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Fræðsla og upplýsingagjöf: Sveitarfélög skulu gera upplýsingaefni og fræða almenning, rekstraraðila og aðra handhafa úrgangs um úrgangsforvarnir og úrgangsmál. Sveitarfélög deila þessari ábyrgð með Úrvinnslusjóði, Endurvinnslunni og Umhverfisstofnun.
Hreinsun á opnum svæðum: Hreinsun rusls á víðavangi og uppsetning á ruslastömpum er í höndum sveitarfélaga. Úrvinnslusjóður tekur þátt í greiðslu kostnaðar sem hlýst af hreinsun.
Úrgangur er margskonar og aðferðir við nýtingu, förgun og aðra meðhöndlun eru háðar eðli og umfangi hans. Einfölduð mynd af ferlinu er þannig að úrgangi er safnað við heimili, á grenndarstöðvum og söfnunarstöðvum og er ekið þaðan á móttökustöð. Frá móttökustöð er úrgangur sendur í endurvinnslu, aðra endurnýtingu eða förgun. Í sumum tilfellum er úrgangi ekið beint á móttökustöð sem er förgunarstaður, t.d. urðun. Rekstraraðilar semja alla jafna beint við þjónustuaðila um hirðu úrgangs eða fara sjálfir beint á söfnunar- eða móttökustöð með sinn úrgang. Hafa þarf í huga að hluti þess úrgangs sem fellur til hjá rekstraraðilum fellur undir skilgreininguna heimilisúrgangur. Jarðefni og óvirkur úrgangur geta farið beint á svæði til landmótunar.
Í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, eru sett markmið fyrir ólíkar úrgangstegundir. Annars vegar eru markmið sem hvert sveitarfélag skal ná innan síns svæðis og hins vegar landsmarkmið, þar sem sveitarfélög hafa tiltekið hlutverk.
Markmið sveitarfélaga
Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná settum tölulegum markmiðum fyrir endurvinnslu og urðun heimilisúrgangs sem og lífræns úrgangs frá heimilum annars vegar og rekstraraðilum hins vegar. Sveitarfélög skulu sjálf setja sér markmið varðandi úrgangsforvarnir.
Endurvinnsla heimilisúrgangs: Markmið fyrir árið 2020 var 50% endurvinnsluhlutfall. Það fer svo hækkandi í þrepum og er 55% árið 2025, 60% árið 2030 og 65% árið 2035. Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná markmiðunum innan síns svæðis. Urðun heimilisúrgangs: Sett er markmið um að urðað verði að hámarki 10% af heimilisúrgangi árið 2035. Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná markmiðinu innan síns svæðis.
Úrgangsforvarnir: Sveitarfélög skulu setja sér markmið hvað varðar samdrátt í myndun úrgangs og meðhöndlun úrgangs sem fellur til, einkum heimilisúrgangs sem fer til förgunar eða er nýttur til orkuvinnslu. Þannig skulu sveitarfélög sjálf ákveða hvaða markmið þau setja og hvernig þau hyggjast ná þeim. Í stefnu ráðherra eru tilteknir úrgangsflokkar settir eru í forgang til tveggja ára í senn.
Lífrænn úrgangur: Markmið er að lífrænn úrgangur sem berst til urðunarstaða minnki niður í 35% af heildarmagni þess magns sem féll til árið 1995 innan hvers sveitarfélags, annars vegar fyrir heimilisúrgang og hins vegar rekstrarúrgang.
Þegar lög um meðhöndlun úrgangs voru sett árið 2003 kom fram markmið um að magn lífræns úrgangs sem berst til urðunarstaða skuli árið 2020 vera að hámarki 35% af því magni sem féll til árið 1995. Ef því var ekki náð árið 2020 skal í svæðisáætlun gera grein fyrir því hvernig sveitarfélag hyggst ná markmiðinu svo fljótt sem verða má. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á að markmiðum sem sett eru um lífrænan úrgang sé náð á þeirra svæði og markmiðið á við um allan lífrænan úrgang, bæði heimilisúrgang og rekstrarúrgang. Nánari umfjöllun um markmiðin eru í viðauka 7.
Landsmarkmið
Sveitarfélög hafa hlutverk varðandi markmið um úrgang sem er á ábyrgð Úrvinnslusjóðs með því að bera ábyrgð á söfnun og móttöku úrgangsins en Úrvinnslusjóður greiðir fyrir kostnað í samræmi við framlengda framleiðendaábyrgð. Fyrir byggingar- og niðurrifsúrgang er markmið fyrir landið í heild og sveitarfélög skulu tryggja að til staðar sé aðstaða til söfnunar og farvegir séu til staðar um meðhöndlun þess sem safnast.
Byggingar- og niðurrifsúrgangur: Landsmarkmið frá og með árinu 2020 er að 70% úrgangsins sé flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar, sjá gr. 15.2.4 í byggingarreglugerð. Það er á ábyrgð sveitarfélaga að til staðar sé aðstaða til að safna flokkuðum byggingar- og niðurrifsúrgangi þannig að hann geti farið til endurnýtingar frekar en förgunar. Hann skal flokkaður í a.m.k. spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
Rafhlöðu– og rafgeymaúrgangur, raf– og rafeindatækjaúrgangur: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu í samræmi við framlengda framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að til staðar sé aðstaða til að safna þessu úrgangsflokki sérstaklega.
Ökutæki: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu ökutækja í samræmi við framlengda framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að útvega aðstöðu eða útvista móttöku á úr sér gengnum ökutækjum.
Umbúðaúrgangur: Söfnun umbúðaúrgangs sem fellur til á heimilum er á ábyrgð sveitarfélaga. Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan bera ábyrgð á að ná landsmarkmiðum fyrir umbúðaúrgang, samkvæmt framlengdri framleiðendaábyrgð. Þannig bera nokkrir aðilar ábyrgð.
Markmið fyrir endurnýtingu umbúðaúrgangs er 60%. Sett er markmið um 65% endurvinnslu árið 2025 og 70% endurvinnslu árið 2030. Til viðbótar eru sérstök markmið fyrir ólíkar tegundir umbúða, þ.e. plast, gler, pappír, pappi, málma og viðarumbúðir.
Ábyrgð á að ná markmiðum varðandi umbúðaúrgang skiptist þannig:
Kjarninn í svæðisáætlun eru markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu og hvaða leiðir verða farnar til að ná markmiðum. Að lágmarki skal ná markmiðum sem fram koma í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, þar með talin eru töluleg markmið varðandi heimilisúrgang og úrgangsforvarnir.
Talsverðar breytingar hafa orðið á hlutverki svæðisáætlana um meðhöndlun úrgangs síðastliðinn áratug. Svæðisáætlanir hafa fengið aukið hlutverk, sem áður var í landsáætlun, meðal annars skulu sveitarfélög gera grein fyrir hvernig þau hyggjast ná tilteknum markmiðum sem þau bera ábyrgð á að ná.
Svæðisáætlun getur verið samvinnuverkefni nokkurra sveitarfélaga. Ef sú leið er farin er hvatt til þess að nýta samlegðaráhrif á sem flestum sviðum og samræma flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs sem og upplýsingagjöf og notkun grenndar-, söfnunar-, móttöku- og endurnýtingarstöðva og annarra innviða. Sveitarfélög geta unnið sameiginlega samþykkt um meðhöndlun úrgangs þar sem þessi atriði væru samræmd á öllu svæðinu.
Áætlunin er gerð til tólf ára í senn, en meta skal á a.m.k. sex ára fresti hvort þörf sé á endurskoðun. Áætlunina skal auglýsa til umsagnar og birta skal samþykkta áætlun. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett að hafa samráð um gerð áætlunar við íbúa og hagaðila á fundum, kynningum eða með öðrum hætti sem hentar á hverjum stað. Þó er skylt að auglýsa umhverfisskýrslu svæðisáætlunar til umsagnar. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með að svæðisáætlanir séu gerðar og leggur faglegt mat á efni þeirra.
Svæðisáætlun skal taka tillit til landfræðilegra aðstæðna og umfangs svæðisins. Áskoranir eru ólíkar eftir því hvort um er að ræða þéttbýlissvæði, dreifðar byggðir, landfræðilega stór svæði, erfiða fjallvegi eða greiðfærar götur. Umfang orlofsbyggða innan svæðisins hefur sömuleiðis mikið að segja. Þá þarf að taka mið af atvinnustarfsemi á svæðinu, svo sem hvort um er að ræða landbúnað, ferðaþjónustu eða iðnað. Verkefnin sem tiltekin eru í svæðisáætlun taka mið af þeim árangri sem sveitarfélögin, íbúar og atvinnulíf hafa þegar náð varðandi lágmörkun úrgangs og bætta flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Jafnframt þarf að horfa til þeirra innviða sem eru á svæðinu og skoða þörf á fjárfestingu í auknum innviðum.
Við gerð svæðisáætlunar þarf að byrja á að greina stöðu úrgangsmála á viðkomandi svæði og þróun til framtíðar. Greiningin snýr að tæknilegum atriðum eins og aðstöðu sem til staðar er fyrir flokkun, móttöku og aðra meðhöndlun úrgangs, hvaða fyrirkomulag er á söfnun úrgangs og hvernig tölfræðigögnum um úrgang er safnað. Þegar núverandi staða hefur verið teiknuð upp þarf að skoða hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað til að uppfylla kröfur og ná settum markmiðum og hvaða þörf er á uppbyggingu innviða. Niðurstaða þessarar skoðunar endurspeglast síðan í aðgerðum sem settar eru fram til að bæta endurvinnslu og aðra endurnýtingu og förgun og lágmarka myndun úrgangs.
Auk þess sem hér hefur verið rakið skal, eftir því sem við á, fjalla um önnur atriði eins og skipulag úrgangsmála, fræðslu og kynningarmál og stjórntæki til að takast á við áskoranir. Hér er einkum átt við hagræn stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs og er í því sambandi vísað til lista sem settur er fram í tilskipun Evrópusambandsins, sjá kafla 3.6. Sniðmát fyrir svæðisáætlun sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs er í viðauka 1.
„Grundvallaratriði til þess að mögulegt sé að endurvinna úrgangsstraum er að hann sé tiltölulega hreinn, þ.e. að mestu laus við óhreinindi og aðskotahluti og sé ekki blandaður öðrum úrgangsflokkum. Sérstök söfnun úrgangsflokka er lykilatriði til að tryggja þetta og stuðla að því að hver úrgangsstraumur henti sem hráefni í hágæða endurvinnslu. Það er jafnframt mikilvægt að það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir handhafa úrgangs að skila úrganginum flokkuðum til endurvinnslu, fremur en að skila honum með blönduðum úrgangi sem síðan endar í brennslu eða urðun.“
– Stefna ráðherra í úrgangsmálum – Í átt að hringrásarhagkerfi, 2021
Samþykkt um meðhöndlun úrgangs er mikilvægt stjórntæki sem sveitarfélag hefur til úrgangsstjórnunar. Þar er mögulegt að skýra réttindi og skyldur íbúa og rekstraraðila varðandi hirðu og aðra þjónustu við meðhöndlun alls úrgangs í sveitarfélaginu, hvort sem þjónustan er veitt af sveitarfélaginu eða öðrum aðilum og hvort sem um er að ræða heimilis- eða rekstrarúrgang. Sveitarfélag hefur heimild til að gefa fyrirmæli sem það telur nauðsynlegt um flokkun og aðra meðhöndlun úrgangs sem fellur til innan sveitarfélagsins til þess að uppfylla skyldur sínar. Þetta á við sérstaka söfnun við heimili og rekstraraðilum í þéttbýli, á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðum.
Í samþykkt sveitarstjórnar um meðhöndlun úrgangs má tilgreina fyrirkomulag hirðu úrgangs, skyldur einstaklinga og rekstraraðila til að flokka úrgang og ákvarða stærð, gerð, staðsetningu og merkingu íláta undir úrgang. Samþykkt getur kveðið á um til hvaða meðhöndlunar úrgangur skal færður, annaðhvort beint til endurnýtingar eða fyrst á söfnunar- eða móttökustöð og þaðan til endurnýtingar eða förgunar. Hægt er að tilgreina í samþykktinni verklag við innheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs og hvaða aðgerða skal grípa til ef notendur fara ekki eftir ákvæðum um t.d. flokkun og skil til endurnotkunar og endurvinnslu.
Útfæra skal fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykktinni. Samþykktin er réttur vettvangur til að útfæra kröfur til lausna sem krefjast sérstaks búnaðar og aðkomuleiða við hirðu s.s. gáma á yfirborði eða djúpgáma. Einnig ef sveitarfélag ákveður að setja kröfur um staðsetningu íláta á lóðum íbúa í ákveðinni hámarksfjarlægð frá hirðubíl eða hafna losun íláta þegar ekki er rétt flokkað.
Tvö eða fleiri sveitarfélög geta gert sameiginlega samþykkt, m.a. í tengslum við sameiginlega svæðisáætlun. Þannig er stutt við að samlegðaráhrif náist á sem flestum sviðum með samræmdri móttöku og annarri meðhöndlun úrgangs sem fylgt er eftir í samþykkt um samræmda flokkun úrgangs, merkingar og skyldur íbúa og lögaðila.
Sniðmát fyrir samþykkt um meðhöndlun úrgangs er í viðauka 2.
Í svæðisáætlun er sett stefna og áherslur til framtíðar og verkefnum er forgangsraðað. Samþykktir eru tæki til að útfæra fyrirkomulag á hirðu úrgangs og þjónustustig ásamt því að skilgreina réttindi og skyldur einstaklinga og rekstraraðila. Sveitarfélög sem vinna sameiginlega svæðisáætlun geta unnið sameiginlega samþykkt í kjölfarið, en geta einnig gert það hvert fyrir sig. Ef þessum tveimur tækjum er beitt samhliða, má útfæra úrgangsstjórnun sveitarfélaga með skilvirkum hætti.
Þegar svæðisáætlun hefur verið gerð og samþykkt liggur fyrir er hægt að skilgreina þörf á fjárfestingum og útfæra þjónustu sveitarfélagsins, hvort sem sveitarfélagið sinnir þjónustunni á eigin vegum eða býður verkefnin út til þjónustuaðila. Útboðsgögn og samningar byggja á svæðisáætlun og samþykktum.
Til að framkvæmd úrgangsstjórnunar gangi vel fyrir sig er æskilegt að ákvarða hvaða aðilar innan sveitarfélagsins beri ábyrgð á framkvæmd eða eftirliti með verkefnum eins og söfnun úrgangs, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva, framkvæmd útboða og verðfyrirspurna, gerð samninga við þjónustuaðila og ráðstöfunaraðila. Æskilegt er að skilgreina hver hefur eftirlit með framkvæmd verkefna og gæðum. Einnig þarf að ákveða hvernig framfylgd með árangri aðgerða er háttað og því hvort markmið náist, hvaða eining innan stjórnsýslunnar fylgist með því og hvernig skuli fara með mál ef eitthvað gengur ekki eins og til er ætlast og þörf er á inngripi.
Dæmi um aðgerðir er varða hagkvæma, góða og gagnsæja þjónustu við íbúa og fyrirtæki
Hagkvæm og góð þjónusta: Útbúa þjónustuviðmið um söfnun og meðhöndlun úrgangs og innleiða með bættu verklagi stofnana sveitarfélagsins og ákvæða í innkaupasamningum um hirðu úrgangs við heimili og stofnanir, bæði fyrir þéttbýli og dreifbýli.
Visthæfari hirðubílar: Skipta út hirðubílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrir hreinorkubifreiðar.
Hreinsun opinna svæða: Ráðast í vorhreinsun á hverju ári í samstarfi við skóla, íþróttafélög og aðra, samhliða vitundarvakningu um að ganga vel um umhverfið og opin svæði í sveitarfélaginu. Vorhreinsunin nær einnig yfir strandlengju sveitarfélagsins. Kannaðir verða möguleikar á þátttöku Úrvinnslusjóðs í verkefninu.
Hreinni götur og torg: Gera þarfagreiningu á ruslabiðum í sveitarfélaginu, vinna úrbótaáætlun um bætta staðsetningu og fjölga þar sem borið hefur verið á rusli á víðavangi. Kannaðir verða möguleikar á þátttöku Úrvinnslusjóðs í verkefninu.
Innheimta skal gjald af einstaklingum og rekstraraðilum fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Mengunarbótareglan er ein af meginreglum umhverfisréttarins en inntak hennar er að sá borgi sem mengar eða sem hefur með höndum umsvif sem hafa áhrif á umhverfið. Það er því handhafi úrgangs sem jafnan skal standa straum af kostnaði við meðhöndlun úrgangs sem hann losar sig við.
Meginreglur um innheimtu sveitarfélaga eru:
Nokkrar útfærslur eru til af kerfum sem eru byggð á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir. Útfærslan gerir kröfu um þrennt: að auðkenna framleiðanda úrgangsins, að mæla magn og tegund úrgangs sem fellur til og að innheimtan sé eftir magni og tegund úrgangsins. Hvað varðar mælingu á magni úrgangsins þá er annars vegar hægt að miða við rúmmál og hins vegar þyngd. Það er háð aðstæðum í hverju sveitarfélagi hvaða útfærsla hentar best og nýta má fleiri en eina leið á hverju svæði við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs.
Nýta má hefðbundin tæki og búnað og innheimta eftir rúmmáli þannig að miðað sé við stærð og fjölda íláta og/eða losunartíðni. Þannig greiðir notandinn fyrir það rúmmál sem hann hefur til umráða til að láta frá sér úrgang. Notandinn skal hafa möguleika á að auka eða minnka það rúmmál sem hann hefur til umráða eftir því sem honum hentar og kostnaður viðkomandi breytist samkvæmt því. Dæmi eru um að miðað sé við vikulítra við gjaldheimtu fyrir hvern úrgangsflokk, þ.e. hversu marga lítra af úrgangi viðkomandi getur losað sig við af úrgangi í hverri viku.
Hægt er að fjárfesta í innviðum og hugbúnaði og innheimta eftir þyngd og til dæmis vigta ílát á lóðum íbúa þegar þau eru losuð eða vigta á grenndar-, söfnunar- og/eða móttökustöðum úrgangs. Á dreifbýlis- svæðum og í stórum frístundabyggðum getur hentað að koma upp miðlægum söfnunarstöðvum sem eru aðgangsstýrðar með aðgangslyklum eða korti. Stöðvarnar geta verið mannaðar á tilteknum tímum.
Aðlaga þarf skráningu kostnaðar fyrir meðhöndlun úrgangs að breytingum sem gerðar eru til að tryggja gagnsæi í gjaldskrám því kostnaður er ólíkur eftir tegund úrgangs. Í bókhaldskerfum sveitarfélaga eru bókhaldslyklar fyrir kostnað tengdir meðhöndlun úrgangs. Við gerð ársreikninga sveitarfélaga og árlegum skilum þeirra til Hagstofu Íslands þarf að yfirfæra gögnin á ákveðna bókhaldslykla, samanber reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015. Kostnaður við meðhöndlun úrgangs fellur undir málaflokk 08 Hreinlætismál og flokkinn 08 – 2 Sorphreinsun og sorpeyðing. Mörg sveitarfélög miða kostnaðarfærslur sínar við þessa flokka. Slík skipting gagnast síður þegar kemur að því að innleiða „Borgað þegar hent er“ kerfi við innheimtu. Dæmið hér að neðan sýnir um hvernig bókfæra má kostnað vegna úrgangsmála til að tryggja gagnsæi.
Við gjaldskrárgerð velja flest sveitarfélög að birta gjaldskrá árlega þar sem fram koma fjárhæðir sem sveitarstjórn hefur samþykkt fyrir það ár. Þannig er hægt að koma að hluta til í veg fyrir að gjöldin séu hærri en sem nemur kostnaði við veitta þjónustu þar sem árleg endurskoðun tekur mið af raunkostnaði nýliðins árs. Gjaldskrár byggja á áætlun t.d. um magn úrgangs og fjölda íbúa og því verður einhver munur á raunkostnaði annars vegar og tekjum hins vegar. Það ætti að vera stefna hvers sveitarfélags að þessi munur sé sem minnstur. Fordæmi eru fyrir að hægt sé að miða við meðalkostnað á þriggja ára tímabili, sbr. úrskurð þess efnis (sjá viðauka 5).
Í sumum úrgangsstraumum eru vörur eða umbúðir sem falla undir framlengda framleiðendaábyrgð og greitt er úrvinnslugjald við framleiðslu eða innflutning. Gjaldið á að standa undir kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun þessara hluta (sjá kafla 4.7). Þetta á við um t.d. umbúðir og spilliefni. Þannig myndast hagrænn hvati fyrir flokkun og skil því sveitarfélög geta lækkað gjaldheimtu til íbúa.
Í útboðum á hirðu og annarri meðhöndlun úrgangs má gera kröfu um upplýsingaflæði, bæði til sveitarfélagsins og til íbúanna sjálfra. Það auðveldar að setja gagnsæja gjaldskrá fyrir hvern úrgangsstraum fyrir sig í samræmi við „Borgað þegar hent er“. Notendur njóta þess að gjaldskrár verði gagnsærri og endurspegli raunkostnað sem hvetur til virkari þátttöku í vegferð í átt að lágmörkun úrgangs, aukinnar endurnotkunar og endurvinnslu. Áreiðanlegar upplýsingar um kostnað og magn gera það kleift að fylgjast með stöðu sveitarfélagsins gagnvart markmiðum sem eru í gildi og að byggja ákvarðanir í úrgangsstjórnun á góðum gögnum. Nánari upplýsingar um „Borgað þegar hent er“ eru í skýrslu sem unnin var fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga í janúar 20221.
Fáar vörur og umbúðir sem eru lífúrgangur (matarleifar) falla undir framlengda framleiðendaábyrgð. Til að skapa hvata fyrir flokkun og skil gæti sveitarfélag nýtt sér heimild til að færa kostnað við meðhöndlun lífúrgangs yfir á blandaðan úrgang. Gæta þarf að því að ef tilteknir úrgangsstraumar eru alveg gjaldfrjálsir þá getur röng flokkun og óhreinindi aukist, ef brögð verða að því að notendur setji úrgang sem greiða þarf fyrir í gjaldfrjálsa flokka. Slíkt getur torveldað endurvinnslu og aukið kostnað.
Dæmi um aðgerðir sem tengjast gjaldskrá og innheimtu
Innleiðing virkrar mengunarbótareglu: Tryggja að gjaldtaka fyrir meðhöndlun úrgangs standi að fullu undir kostnaði við hana og innleiða „Borgað þegar hent er“ kerfi við innheimtu.
Hagrænir hvatar: Hagrænir hvatar notaðir með því að nýta heimild í lögum til að færa innheimtu hluta raunkostnaðar við hirðu á lífúrgangi yfir á innheimtu fyrir blandaðan úrgang.
Regluleg upplýsingagjöf um kostnað vegna meðhöndlunar úrgangs: Birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði.
Kostir framlengdrar framleiðendaábyrgðar nýttir: Við innkaup á úrgangsþjónustu verður tryggt sérstaklega að kostnaðarþátttaka framleiðenda og innflytjenda í gegnum starfsemi Úrvinnslusjóðs sé virk í samræmi við lög um úrvinnslugjald.
Áreiðanlegri innheimta: Fjárfesta í bílavogum og sjálfsafgreiðslukerfi á söfnunar- og móttökustöðvum sem verði undirstaða gjaldheimtu inn á stöðvarnar í samræmi við „Borgað þegar hent er“.
Sveitarfélög geta metið gagnsemi þess að nota hagræn stjórntæki og önnur stjórntæki til að takast á við ýmis vandamál er varða úrgang og ráðstafanir sem nýta má til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs. Vísað er til lista sem settur er fram í tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) 2018/851.
Allur úrgangur skal færður til viðeigandi meðhöndlunar, annað hvort beint til endurnýtingar eða í söfnunar- eða móttökustöð, og þaðan til endurnýtingar eða förgunar. Almennt skal við meðhöndlun úrgangs stuðlað að endurnotkun á vörum og hafa hliðsjón af forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs að eins miklu leyti og unnt er.
Úrgangur frá heimilum telst vera heimilisúrgangur, með fáeinum undantekningum þó, t.d. seyra, úr sér gengin ökutæki og byggingar- og niðurrifsúrgangur. Heimilisúrgangur fellur ekki eingöngu til á heimilum því að sams konar úrgangur getur fallið til hjá fyrirtækjum og stofnunum, t.d. eldhúsúrgangur frá mötuneytum.
Sveitarfélög ákveða í samþykktum fyrirkomulag á söfnun og annarri meðhöndlun alls úrgangs sem fellur til í sveitarfélaginu, þ.m.t. heimilisúrgangs. Þau bera ábyrgð á hirðu úrgangs með reglulegri tæmingu íláta undir úrgang og flutningi (sérstakri söfnun) alls heimilisúrgangs innan sveitarfélagsins óháð því hvar hann fellur til. Heimilt er að útfæra sérstaka söfnun í dreifbýli á annan hátt en í þéttbýli.
Á grenndar-, söfnunar– eða móttökustöð sem íbúar og rekstraraðilar hafa aðgang að skal taka við úrgangsflokkum sem ekki er safnað með hirðu á lóðum íbúa eða rekstraraðila. Skylda sveitarfélaga til að ákvarða fyrirkomulag sérstakrar söfnunar og flutning nær einnig til heimilisúrgangs frá rekstraraðilum. Hérlendis hefur þó útfærslan oftast verið sú að rekstraraðilar semja beint við þjónustuaðila um flutning úrgangsins til móttökustöðva.
Til að ná markmiðum í málaflokknum þarf þó að tryggja að til staðar séu leiðir fyrir úrgang sem ekki verður endurnotaður eða endurunnin. Dæmi um slíkan úrgang er ryksugupokar, einnota grímur og samsettar umbúðir sem ekki er hægt að ná í sundur. Sé þjónusta við blandaðan úrgang og endurvinnsluefni á sama stað verður síður hvati til að spilla endurvinnslustraumum með úrgangi sem ekki er endurvinnanlegur eða til að setja endurvinnsluefni með blönduðum úrgangi, því notendur hafa tilhneigingu til að nýta þau ílát sem til staðar eru. Mælt er því með því að öll ílát undir úrgang séu staðsett á sama stað á lóðum íbúa og rekstraraðila.
Sérstök söfnun er undirstaða þess að úrgangur sé endurnýttur í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Óheimilt er að blanda úrgangi sem hefur verið safnað sérstaklega við annan úrgang síðar í ferlinu.
Skylt er að safna með sérstakri söfnun pappír og pappa, plasti, málmum, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum á eftirfarandi hátt:
Í samþykkt um meðhöndlun úrgangs skal útfæra hvernig sérstök söfnun fer fram og skilgreina réttindi og skyldur einstaklinga og rekstraraðila er varðar flokkun úrgangs, ílát undir úrgang, staðsetningu þjónustu, merkingar og nánara fyrirkomulag. Í henni er einnig hefð fyrir að útfæra gjaldheimtu sveitarfélags og hvaða aðgerðir er ráðist er í til að fylgja eftir að rétt sé flokkað.
Í reglum og samþykktum sveitarfélags þarf að koma fram að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á viðeigandi staði, þ.e. ílát undir úrgang og grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þó er heimilt að setja lífrænan úrgang í heimajarðgerð á vegum íbúa eða annarra notenda. Við flutning og geymslu úrgangs skal handhafi úrgangs gæta þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi. Opin brennsla úrgangs er óheimil, að undanskildum skipulögðum brennum með starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti.
Við meðhöndlun úrgangs skal nota samræmdar merkingar fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. FENÚR (Fagráð um endurnýtingu og úrgang) hefur staðfært danskar merkingar og gefið út leiðbeiningar um samræmdar merkingar fyrir söfnun úrgangs á Íslandi.
Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum um sérstaka söfnun ef blönduð söfnun tiltekinna tegunda úrgangs hefur ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar, sambærileg gæði úrgangsins eru tryggð og sérstök söfnun skilar ekki bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, er ekki tæknilega möguleg eða hefur í för með sér óhóflegan kostnað.
Sérstök söfnun er meginreglan og reikna má með að undanþágur verði túlkaðar þröngt. Undanþágur eru hugsaðar fyrir undantekningatilfelli þegar aðstæður eru með þeim hætti að sérstök söfnun er ekki besta leiðin eða er ekki möguleg. Hver undanþágubeiðni verður metin sérstaklega og þarf að rökstyðja þær með tilliti til aðstæðna og skilyrða sem koma fram í lögunum. Undanþágur eru ekki hugsaðar til að gefa tímabundið svigrúm til að koma upp sérstakri söfnun. Í undirbúningi er reglugerð sem byggir m.a. á leiðbeiningum ESB frá 2020 og líklegt að litið verði m.a. til þess hvort fyrir liggi lífsferilsgreiningar eða kostnaðar- og ábatagreiningar sem styðji undanþágubeiðni.
Dæmi um aðgerðir til að bæta söfnun og meðhöndlun heimilisúrgangs og koma á sérstakri söfnun úrgangs
Bætt söfnun á pappír og pappa, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi: Koma upp ílátum fyrir flokkaðan úrgang við íbúðarhús og hjá rekstraraðilum í þéttbýli. Þar sem við á verður sameiginleg söfnun fyrir aðliggjandi lóðir.
Góð og árangursrík söfnun lífúrgangs: Pappírspokar undir lífúrgang frá heimilum gerðir aðgengilegir án endurgjalds á mönnuðum söfnunarstöðvum og leitað verður eftir samstarfi við verslanir á svæðinu til að dreifa pokunum.
Söfnun á gleri, málmum, textíl og skilagjaldsumbúðum: Setja upp grenndarstöðvar á aðgengilegum stöðum og verður staðsetning þeirra auglýst á vefsíðu sveitarfélaga.
Enn betri söfnun spilliefna: Bæta aðstöðu við móttöku á spilliefnum á söfnunarstöðvum og bjóða upp á spilliefnasöfnun í sérstökum spilliefnabíl tvisvar á ári á völdum stöðum.
Góð og hagkvæm nýting lífúrgangs í dreifbýli: Heimili í dreifbýli styrkt til kaupa á íláti til heimajarðgerðar og bjóða á fræðslu um heimajarðgerð og nýtingu moltu.Hreinleiki endurvinnslustrauma tryggður: Átak um hreinni endurvinnslustrauma þar sem hirðuaðilar munu upplýsa íbúa ef þeir verða varir við ranga flokkun úrgangs í ílát undir endurvinnsluefni eða að endurvinnsluefni rata í ílát undir blandaðan úrgang.
Það er hlutverk sveitarstjórnar að ákveða fyrirkomulag á söfnun rekstrarúrgangs innan sveitarfélags og að hafa tiltæka farvegi fyrir úrgang sem fellur til innan sveitarfélagsins. Skylda sveitarfélaga til að taka ákvarðanir um fyrirkomulag hirðu og tryggja flutning (sérstaka söfnun) heimilisúrgangs nær einnig til heimilisúrgangs frá rekstraraðilum, en heimilisúrgangur getur fallið til hjá fyrirtækjum, stofnunum og öðrum lögaðilum ef úrgangurinn er samskonar og úrgangur frá heimilum. Í flestum tilfellum hefur framkvæmdin verið þannig að það hefur fallið í hlut hvers og eins rekstraraðila að sjá um flutning eigin úrgangs til meðhöndlunar eða að gera samning við þjónustuaðila um hirðu.
Sveitarstjórn getur gefið fyrirmæli í samþykkt um meðhöndlun úrgangs sem tekur til úrgangs sem fellur til hjá lögaðilum ekki síður en hjá heimilum.
Rekstrarúrgangur getur verið mjög mismunandi að eðli og samsetningu. Sem dæmi má nefna úrgang sem fellur til í landbúnaði, byggingar- og niðurrifsúrgang og úrgang sem fellur til í sérhæfðum iðnaði. Í sumum sveitarfélögum eru straumar rekstrarúrgangs margir og smáir en í öðrum tilfellum eru þeir fáir og stórir. Sveitarfélög hafa tiltekið forræði yfir rekstrarúrgangi og geta nýtt það til að úrgangsmeðhöndlun sé í samræmi við lög og stefnur stjórnvalda.
Dýraafurðir sem eru ekki hæfar til manneldis flokkast sem áhættuúrgangur, t.d. sláturúrgangur og dýrahræ. Um þær gilda sérstakar reglur sem lesa má um í viðauka 3.
Sett eru landsmarkmið um flokkun 70% byggingar- og niðurrifsúrgangs og sveitarfélög skulu tryggja að til staðar sé aðstaða til söfnunar. Hann skal flokkaður í a.m.k. þessa sjö flokka: spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs. Í Vegvísi um vistvænni mannvirkjagerð eru tillaga um markmið fyrir árið 2030 þannig að 95% byggingar- og niðurrifsúrgangs fari í endurnýtingu og 5% í förgun. Einnig er tillaga um markmið um 30% samdrátt á byggingar- og niðurrifsúrgangi sem fellur til á hvern byggðan fermetra.
Byggingaraðilar skulu gera áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs í framkvæmdum. Þar skulu koma fram upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun úrgangs2. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf út leiðbeiningar um meðhöndlun úrgangs í samráði við Grænni byggð sem vísa má umsóknaraðilum um byggingarleyfi á. Áætlun þessari skal skila til sveitarfélaga með umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdir yfir ákveðinni stærð:
Sveitarfélög eru misstór og misjafnlega í stakk búin til að sjá um að tiltækir séu farvegir fyrir mjög sértækan rekstrarúrgang. Rekstraraðilar eru í sumum tilfellum sjálfir best til þess fallnir að sjá um ráðstöfun eigin úrgangs, enda getur þurft sérhæfða meðhöndlun. Þannig hefur það í reynd verið til langs tíma hér á landi og er það í samræmi við mengunarbótareglu umhverfisréttar. Í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, er sett fram aðgerð sem snýr að því að athuga þörf á breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs í þeim tilgangi að tryggja að lögin kveði á um með nægjanlega skýrum hætti hvaða rekstrarúrgangur það er sem fellur undir ábyrgð sveitarfélaga (aðgerð 26 í kafla 3.4.8).
Dæmi um aðgerðir til að bæta söfnun og meðhöndlun rekstrarúrgangs
Bætt móttaka byggingar- og niðurrifsúrgangs: Bætt aðstaða til að safna flokkuðum byggingar- og niðurrifsúrgangi í spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
Bætt skráning á byggingar- og niðurrifsúrgangi: Verkferlar vegna umsókna um byggingarleyfi verði yfirfarnir til að tryggja að áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs verði skilað fyrir allar framkvæmdir þar sem það á við.
Endurnotkun byggingarefna: Styðja við markað með byggingarhluta og byggingarefni til endurnotkunar, sérstaklega byggingarefni, jarðefni og óvirkan úrgang.Áætlanir um endurnýtingu: Áður en farið er í niðurrif á byggingum á vegum sveitarfélagsins, skal gera endurnýtingaráætlun til að endurnota og endurnýta eins mikið af byggingarefni og- hlutum og hægt er.
Bætt þjónusta við söfnun heyrúlluplasts: Sérstakt átak í söfnun heyrúlluplasts í samstarfi við bændur á svæðinu og verklag staðlað við frágang plastsins með það að markmiði að lágmarka flutningskostnað og auka möguleika á endurvinnslu plastsins.
Bætt meðhöndlun úrgangs frá skipum: Útbúin verða viðmið um móttöku úrgangs frá skipum í samráði við hafnir og Umhverfisstofnun. Tryggt verður að söfnun á veiðarfæraúrgangi sé aðgengileg notendum og kostnaður vegna söfnunar og meðhöndlunar á veiðarfæraúrgangi verði greiddur af þeim sem bera framlengda framleiðendaábyrgð á þeim úrgangi.
Tryggari meðhöndlun áhættuúrgangs: Endurskoðun á fyrirkomulagi söfnunar og meðhöndlunar áhættuúrgangs, þá sér í lagi dýrahræja. Tilraunaverkefni verður sett af stað með vaktaðar söfnunarstöðvar á völdum stöðum í sveitarfélaginu.
Sveitarfélög skulu hafa tiltækan farveg fyrir allan úrgang sem fellur til innan sveitarfélagsins. Farvegirnir þurfa ekki allir að vera staðsettir innan sveitarfélagsins sjálfs, heldur mega vera staðsettir annars staðar. Sveitarfélög eiga að sjá til þess að starfsræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu sem ekki er skylt að safna innan lóðarmarka. Rekstur slíkra stöðva má vera í samstarfi við önnur sveitarfélög og getur reksturinn hvort sem er verið í höndum sveitarfélagsins eða útvistað í gegnum þjónustusamning við einkaaðila. Ábyrgð sveitarfélagsins á rekstrinum er til staðar hvor leiðin sem er farin.
Grenndarstöðvar eru staðsettar í nærumhverfi íbúa og þjóna sem söfnun fyrir flokkaðan úrgang sem ekki er safnað á lóðum íbúa eða rekstraraðila. Nýta má grenndarstöðvar fyrir sérstaka söfnun á gleri, málmi og textíl. Hefð er fyrir því að þar séu einnig staðsett ílát undir drykkjarumbúðir með skilagjaldi. Grenndarstöðvar eru oftast ómannaðar stöðvar staðsettar á landi sveitarfélaga.
Á söfnunarstöð er tekið á móti meira magni af úrgangi en á lóðum og á grenndarstöðvum frá bæði íbúum og fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar, endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar eða er fluttur á móttökustöð.
Á móttökustöð er tekið við úrgangi til geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Inn á móttökustöð kemur úrgangur frá þeim sem sinna sérstakri söfnun á lóðum íbúa eða rekstraraðila, frá söfnunarstöðvum og stærri farmar frá fyrirtækjum. Úrgangurinn fer þaðan til endurnýtingar eða förgunar innanlands eða erlendis. Urðunarstaðir og jarðefnamóttaka falla undir skilgreiningu á móttökustöð.
Söfnunarstöðvar, móttökustöðvar fyrir úrgang og endurnýtingarstöðvar skulu hafa gilt starfsleyfi. Í samþykkt sveitarfélagsins ætti að tilgreina hlutverk mismunandi stöðva og hvert íbúar og rekstraraðilar skuli fara með mismunandi tegundir úrgangs. Endurnýtingarstöðvar eru t.d. jarðgerðar- og gasgerðarstöðvar þar sem meðhöndlun á lífrænum úrgangi fer fram. Til að draga úr álagi á umhverfið skal beita bestu aðgengilegu tækni við meðhöndlun úrgangs, í samræmi við BAT (Best Available Techniques) skýrslur sem gefnar eru út af Evrópusambandinu.
Dæmi um aðgerðir til að bæta þjónustu grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva
Bætt umgengni á ómönnuðum stöðvum: Koma upp myndavélakerfi á ómönnuðum grenndar- og söfnunarstöðvum þar sem borið hefur á slæmri umgengni.
Aukin endurnotkun: Koma upp nytjagámum á söfnunarstöðvum sveitarfélagsins.
Bætt söfnun spilliefna: Bjóða upp á söfnun á spilliefnum á tilteknum stöðum í sveitarfélaginu tvisvar á ári. Skoðað verður hvort samhliða megi safna raftækjum.
Bætt aðgengi að móttöku skilagjaldsumbúða: Leita eftir samstarfi við Endurvinnsluna hf. um að koma upp móttöku á drykkjarumbúðum með skilagjaldi á svæðinu. Leita eftir samstarfi við Samband íslenskra skáta, björgunarsveitirnar, íþróttafélög eða aðra aðila við að koma upp söfnun á drykkjarumbúðum með skilagjaldi á grenndar- og söfnunarstöðvum í sveitarfélaginu
Aðgengi að móttöku textíl bætt: Leita eftir samstarfi við Rauða krossinn, Hertex og sambærilega aðila um söfnun á textíl á öllum grenndar- og söfnunarstöðvum í sveitarfélaginu.
Aðstaða bætt: Söfnunar- og móttökustöðvar stækkaðar með tilliti til móttöku á fleiri úrgangsflokkum og með hliðsjón af bættu og öruggara aðgengi viðskiptavina og losunaraðila.
Minna magn blandaðs úrgangs: Leiðbeiningar á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum bættar til að lágmarka úrgang sem fer í blandaðan úrgangsflokk og gert skylt að úrgangur sé annað hvort laus eða í glærum pokum .
Borgað þegar hent er: Innleiða stafrænar og snjallar lausnir við innheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs á söfnunar- og móttökustöðvum í sveitarfélaginu.
Sveitarfélög skulu ein og sér, eða í samstarfi við aðra, stuðla að úrgangsforvörnum hjá stofnunum sínum og hjá íbúum með markvissum aðgerðum. Gera skal grein fyrir aðgerðum á þessu sviði í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög skulu gera upplýsingaefni um úrgangsforvarnir.
Úrgangsforvarnir miða að því að efni og vörur verði ekki að úrgangi og skaðleg áhrif af úrgangi minnki. Sveitarfélög geta á virkan hátt stuðlað að úrgangsforvörnum með breytingum í úrgangsstjórnun sem færir úrgangsstrauma frá endurnýtingu og förgun yfir í endurnotkun. Mikil gróska hefur verið hjá einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og sveitarfélögum þegar kemur að verkefnum sem snúa að því að efni og vörur fái nýtt líf. Nefna má skiptimarkaði með föt og hluti, átak í viðgerðum, áhersla á margnota í stað einnota og aðrar aðgerðir til að auka nýtni og minnka sóun.
Í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, er sett fram stefna um úrgangsforvarnir 2016 – 2027 sem hefur að markmiði að draga úr myndun úrgangs, bæta nýtingu auðlinda og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hráefnisnotkun og minnka dreifingu hættulegra efna. Tímabilinu er skipt upp og tiltekinn úrgangsflokkur er settur í forgang á hverjum tíma. Raftæki, byggingar og pappír verða í forgangi 2022 – 2027 og hver flokkur tvö ár í senn. Drykkjarumbúðir, aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks og úrgangur frá stóriðju eru í forgangi allt tímabilið. Sveitarfélög geta nýtt sér efni og áhersluverkefni Umhverfisstofnunar undir formerkjum Saman gegn sóun í eigin vinnu við úrgangsforvarnir.
Aðgerðaáætlun gegn matarsóun, minni matarsóun, var gefin út 20213 og aðgerðaáætlun í plastmálefnum, úr viðjum platsins, var gefin úr 20204. Sveitarfélög hafa hlutverk í mörgum aðgerða sem þar eru settar fram geta hvert og eitt lagt sitt af mörkum.
Dæmi um aðgerðir sem stuðla að úrgangsforvörnum, s.s. leiðir til að auka endurnotkun
Átaksverkefni hjá stofnunum sveitarfélaga: Skólar, leikskólar, bókasöfn og hjúkrunarheimili skoði leiðir til að auka endurnotkun efnis svo það verði ekki að úrgangi, í samræmi við úrgangsforvarnarstefnu.Áætlun um úrgangsforvarnir: Sveitarfélög leggja fram áætlun fyrir sitt svæði um átak meðal íbúa og rekstraraðila um hvernig megi lágmarka myndun úrgangs og gera aðgengilega á sameiginlegri vefsíðu sem heldur utan um verkefni tengd svæðisáætlun.
Upplýsingamiðlun um góðar úrgangsforvarnir: Sveitarfélög miðla upplýsingum um góð dæmi í nærsamfélaginu þar sem komið hefur verið í veg fyrir myndun úrgangs með árangursríkum og hagkvæmum hætti sem eru öðrum til eftirbreytni og hvatningar.
Hringrásarmiðstöðvar eða félagsheimili: Sveitarfélög leggja til svæði eða húsnæði undir aðstöðu sem einstaklingar, félagasamtök og aðrir geta nýtt fyrir skiptimarkaði, viðgerðarþjónustu, fræðslu, viðburði eða annað sem tengist hringrásarhagkerfinu.
Átak gegn matarsóun: Sveitarfélög stofna sameiginlegan stýrihóp um lágmörkun matarsóunar sem mun skila kostnaðarmetnum tillögum um minni matarsóun á öllu svæðinu, hvort sem er hjá íbúum, rekstraraðilum eða hjá stofnunum.
Vitundarvakning: Sveitarfélög taka virkan þátt í árlegri Nýtniviku (European week for waste reduction – EWWR) og vitundarvakningu á borð við Plastlausan september.
Sveitarfélög hafa ákveðnar skyldur varðandi gerð upplýsingaefnis og fræðslu um úrgangsmál. Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hf. hafa einnig fræðsluhlutverk og til að tryggja sem bestan árangur er æskilegt að samvinna sé milli aðila. Þjónustuaðilar, sjálfboðaliðasamtök og aðrir sem koma að málaflokknum kynna einnig sína starfsemi og þjónustu.
Skylda sveitarfélaga varðandi fræðslu og kynningu er fyrst og fremst að gefa upplýsingar um söfnun og aðra úrgangsstjórnun á viðkomandi svæði svo að almenningur, rekstraraðilar og aðrir handhafar úrgangs þekki skyldur sínar, t.d. um losunartíðni íláta við heimili og staðsetningar grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva. Góð upplýsingagjöf er forsenda þess að úrgangsstjórnun gangi vel fyrir sig í sveitarfélaginu. Sveitarfélög skulu einnig gera upplýsingaefni um úrgangsforvarnir. Sveitarfélög geta starfað saman að fræðslu og upplýsingagjöf.
FENÚR hefur gefið út handbók um samræmdar merkingar fyrir flokkun úrgangs. Að lágmarki skal nota samræmdar merkingar fyrir pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Mælt er með því að nota samræmdar merkingar fyrir alla flokka úrgangs, til að landsmenn eigi auðveldara með að tileinka sér rétta flokkun.
Umhverfisstofnun hefur hlutverk við gerð almenns fræðsluefnis sem upplýsir og færðir almenning um úrgangsforvarnir og meðhöndlun úrgangs. Fræðslan skal mótuð í samvinnu við sveitarfélög, Úrvinnslusjóð og Endurvinnsluna, rekstraraðila og aðra. Huga skal að plastvörum, möguleikum margnota í stað einnota vara, áhrif plastvara á umhverfið og áhrif þess að fleygja rusli á víðavangi.
Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hafa fræðsluhlutverk varðandi vörur og úrgangsflokka sem þau bera ábyrgð á, meðal annars um áhrif þess að fleygja rusli á víðavangi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar varanna þegar þær eru orðnar að úrgangi, einkum áhrif þeirra á sjávarumhverfi. Jafnframt ber þeim að fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sem er til komið vegna þessara vara, ásamt flutningi þess og annarri meðhöndlun.
Dæmi um aðgerðir til að bæta upplýsingagjöf og gera meðhöndlun úrgangs betri fyrir umhverfið
Auka upplýsingagjöf til íbúa og rekstraraðila: Koma upp og reka vefsíðu þar sem íbúar og rekstraraðilar á svæðinu geta nálgast upplýsingar um rétta flokkun og skil úrgangs, hirðudagatal og staðsetningar á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum.Koma á samræmdum merkingum: Innleiða samræmdar merkingar í söfnun úrgangs við heimili og á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöðvum. Samræmdar merkingar verða fyrir a.m.k. pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni.
Gera leiðbeiningar um flokkun: Gefa út flokkunarleiðbeiningar með áherslu á að skýra hvernig endurvinnslustraumum er haldið hreinum.
Samræma hirðu stofnana og heimila: Flokkun hjá stofnunum og skólum sveitarfélagsins sé eins og á heimilum til að gera íbúum auðveldara að skilja kerfin og auðvelda upplýsingagjöf.
Auka vitund með bættri fræðslu: Sameiginlegt fræðsluátak í samstarfi við Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóð og Endurvinnsluna á meðal stofnana, íbúa og rekstraraðila til að lágmarka myndun úrgangs. Einnig til að bæta flokkun og skil til endurnotkunar og endurvinnslu svo hreinleiki endurvinnsluefna haldi sér þannig að hægt sé að tryggja hámarks nýtingu hráefna.
Bæta árangur í úrgangsmeðhöndlun: Bæta upplýsingagjöf í samstarfi við Umhverfisstofnun og þjónustuaðila um stöðu úrgangsmeðhöndlunar í sveitarfélaginu með hliðsjón af markmiðum sem eru í gildi. Leitast við að nálgast sem áreiðanlegust gögn hverju sinni um magn úrgangs og meðhöndlun hans. Tilgreina kröfur um reglulega upplýsingagjöf þjónustuaðila til sveitarfélagsins í innkaupasamningum.
Ráðherra umhverfis-, orku-, og loftlagsmála fer með yfirstjórn málaflokksins og á vegum ráðuneytisins eru unnin lagafrumvörp og reglugerðir um úrgangsmál.
Ráðherra gefur út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Almenn stefna um meðhöndlun úrgangs sem gildir til ársins 2032 er sett fram í stefnu ráðherra í úrgangsmálum – Í átt að hringrásarhagkerfi sem var gefið út í júní 2021. Í stefnunni koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu og hlutverk stjórnvalda og einkaaðila við meðhöndlun úrgangs. Sett er fram stefna til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og fram koma markmið um úrgangsforvarnir, lýsing á þeim ráðstöfunum sem þegar eru fyrir hendi til að minnka úrgang og mat á gagnsemi tiltekinna ráðstafana.
Umhverfisstofnun hefur fjölþætt hlutverk í úrgangsstjórnun, hefur yfirsýn yfir málaflokkinn og ber meginþungann af eftirliti með framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs og með reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Umhverfisstofnun heldur utan um tölfræði úrgangsmála, tekur á móti upplýsingum frá aðilum sem meðhöndla úrgang og birtir tölulegar upplýsingar fyrir landið í heild5. Stofnunin annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs eftir sveitarfélögum. Sendar eru upplýsingar til Eurostat í samræmi við evrópskar reglur um upplýsingagjöf um úrgangsmál.
Umhverfisstofnun vinnur tillögur að stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir og leggur fyrir ráðherra. Tillögurnar skulu unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila eftir því sem við á.
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með og veitir starfsleyfi fyrir förgunarstaði úrgangs og fyrir söfnunar- og móttökustöðvar ef þær eru reknar í nánum landfræðilegum tengslum við förgunarstaði, sem og fyrir meðhöndlun spilliefna, staði fyrir námuúrgang, endurvinnslustöðvar og endurvinnslu skipa yfir 500 brúttótonn. Eins er stofnunin ábyrg fyrir leyfisveitingum vegna flutnings úrgangs milli landa og eftirliti með flutningi úrgangs. Umhverfisstofnun getur sett ákvæði í starfsleyfi sem heimilar rekstraraðilum förgun á eigin úrgangi á framleiðslustað.
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með að svæðisáætlanir séu gerðar og leggur faglegt mat á efni þeirra.
Umhverfisstofnun veitir ráðgefandi álit um það hvort úrgangur hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, sbr. reglugerð um endurnýtingu úrgangs. Þar með gefst aðilum, sem framleiða afurðir með því að endurnýta úrgang, tækifæri til þess að markaðssetja afurð sína sem vöru. Með þessu opnast leið til að breyta úrgangi aftur í vöru, með endurnýtingaraðgerð, jafnvel þótt ekki liggi fyrir sérstök viðmið um lok úrgangsfasa.
Umhverfisstofnun skal sjá um gerð almenns fræðsluefnis og upplýsa og fræða almenning um meðhöndlun úrgangs. Fræðslustarf
Umhverfisstofnunar skal unnið í samvinnu við sveitarfélög og Úrvinnslusjóð. Dæmi um fræðsluverkefni er verkefnið Saman gegn sóun6 þar sem meðal annars er fjallað um matarsóun.
Heilbrigðisnefndir annast eftirlit með meðhöndlun á úrgangi, þ.m.t. hvort einstaklingar og lögaðilar færi úrgang til meðhöndlunar og hvort hann sé skilinn eftir á víðavangi.
Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með og veita starfsleyfi fyrir rekstur sérstakrar söfnunar á lóðum íbúa og lögaðila og aðrar móttökustöðvar en förgunarstaði og aðra meðferð úrgangs. Þær veita einnig umsagnir við gjaldskrár fyrir meðhöndlun úrgangs og samþykktir fyrir meðhöndlun úrgangs.
Einkareknir þjónustuaðilar er fjölbreyttur hópur verktaka og rekstraraðila sem bjóða úrgangsþjónustu. Sumir sérhæfa sig á tilteknu sviði og hafa starfsleyfi fyrir móttöku, flutning úrgangs eða aðra meðhöndlun tiltekinnar tegundar úrgangs. Aðrir taka að sér úrgangsþjónustu á breiðu sviði fyrir nær allar gerðir úrgangs. Þjónustuaðilar eiga viðskipti sín á milli og eru fjölmörg dæmi um að úrgangur sé framseldur á milli aðila.
Sveitarfélög geta gert samninga við þjónustuaðila með opinberum innkaupum vegna þeirra krafna sem gerðar eru til þeirra um meðhöndlun úrgangs í viðkomandi sveitarfélagi og einnig vegna reksturs eigin stofnana. Ólíkt er á milli sveitarfélaga hvaða þættir eru á hendi sveitarfélagsins og hvað er boðið út. Ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun úrgangs fellur ekki niður þó að hluta þjónustunnar sé útvistað og sinnt af einkareknum þjónustuaðilum.
Sjálfboðaliðar geta tekið að sér vissa þjónustu, líkt og Rauði krossinn og Hertex sem safna fötum og textíl og íþróttafélög, björgunarsveitir og Bandalag íslenskra skáta sem safna einnota drykkjarumbúðum með skilagjaldi.
Aðilar sem meðhöndla úrgang skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun eftir því hvers eðlis meðhöndlunin er. Beita skal bestu aðgengilegu tækni við meðhöndlun úrgangs, þar sem slíkt hefur verið skilgreint, til að draga úr álagi á umhverfið.
Þjónustuaðilar, endurvinnslufyrirtæki og endurnýtingaraðilar sem bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs skila skýrslu til Umhverfisstofnunar um úrgang sem þeir meðhöndla, með upplýsingum um tegundir úrgangsins og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun hverrar tegundar. Framleiðendur úrgangs sem farga eigin úrgangi á framleiðslustað eða flytja utan eigin úrgang til meðhöndlunar skila sambærilegri skýrslu. Umhverfisstofnun hefur því yfirlit yfir úrgang sem skráður er á hvert og eitt sveitarfélag bæði sem snýr að heimilum og lögaðilum.
Hjá rekstraraðilum fellur til annars vegar rekstrarúrgangur og hins vegar heimilisúrgangur, til dæmis eldhúsúrgangur frá mötuneyti. Sveitarfélag ákveður fyrirkomulag á söfnun rekstrarúrgangs en rekstraraðilar sjá sjálfir um flutning úrgangsins til söfnunar- eða móttökustöðva eða semja við þjónustuaðila um framkvæmdina. Sveitarfélög geta gefið fyrirmæli í samþykkt um meðhöndlun úrgangs sem tekur til rekstrarúrgangs.
Rekstraraðilum er skylt að flokka rekstrarúrgang á sinni lóð með sama hætti og íbúar. Flokkun skal taka mið af að úrgangur skal meðhöndlaður í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, að eins miklu leyti og unnt er. Byggingar- og niðurrifsúrgangur skal flokkaður í a.m.k. spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs. Sömu kröfur gilda um heimilisúrgang sem fellur til hjá rekstraraðilum og á heimilum og skal því safna sérstaklega pappír, plasti og lífúrgangi.
Úrgangur frá rekstraraðilum getur verið mjög sértækur og viðkomandi rekstraraðilar geta í slíkum tilfellum sjálfir verið best til þess fallnir að sjá um meðhöndlun úrgangsins og er það í samræmi við mengunarbótareglu umhverfisréttarins. Dæmi um þetta fyrirkomulag er sértækur iðnaðarúrgangur.
Rekstraraðilar sem farga eigin úrgangi á framleiðslustað eða flytja utan eigin úrgang til meðhöndlunar skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um úrgang sem þeir meðhöndla, með upplýsingum um tegundir úrgangsins og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun hverrar tegundar.
Framleiðendur og innflytjendur vara og umbúða sem falla undir framlengda framleiðendaábyrgð skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun vöru sem er orðin að úrgangi. Segja má að kostnaður við meðhöndlun vörunnar og umbúða hennar sé innifalin í vöruverðinu en greiðist ekki eftir á. Kostnaður vegna endurnotkunar, endurnýtingar og förgunar úrgangs sem um ræðir er í raun hluti af framleiðslukostnaði. Segja má að framlengd framleiðendaábyrgð sé hluti af mengunarbótareglunni (e. Polluter Pays Principle) sem kveður á um að sá sem veldur mengun skuli að jafnaði bera kostnað af því að draga úr henni eða koma í veg fyrir áhrif hennar. Slík kerfi hafa í mörgum tilfellum reynst vel við að tryggja hagræna hvata til lágmörkunar úrgangs og bættrar úrgangsstjórnunar. Úrvinnslugjald á vörur skal almennt vera þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu og innihalds hættulegra efna. Með því móti greiða framleiðendur og innflytjendur mishátt gjald sem skapar fjárhagslegan hvata til að breyta hönnun og framleiðslu þannig að auðveldara sé að endurnota eða endurvinna vörurnar.
Á Íslandi er framlengd framleiðendaábyrgð útfærð að mestu leyti með úrvinnslugjaldi og skilagjaldi. Gjaldið er lagt á viðkomandi vöru við innflutning eða á innlenda framleiðslu. Skatturinn innheimtir úrvinnslugjald af innfluttum vörum eftir tollskrárnúmerum, óháð því hvort viðkomandi vara ber toll.
Úrvinnslusjóður heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og sér um umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjaldsins og ber þannig ábyrgð á að uppfylla skilyrði um framlengda framleiðendaábyrgð. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærari auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu.
Til staðar eru heimildir til niðurfellingar úrvinnslugjalds. Á það við þegar fluttar eru inn vörur til innlendrar framleiðslu sem að framleiðsluferli loknu eru fluttar úr landi og koma því ekki til úrvinnslu hér á landi. Dæmi um þetta eru t.d. öskjur vegna fiskútflutnings. Jafnframt er heimilt er að gera sérstaka samninga um undanþágur frá úrvinnslugjaldi gegn því að viðkomandi atvinnurekendur eða samtök þeirra annist meðhöndlun og ráðstöfun viðkomandi úrgangsflokks. Slíkur samningur hefur verið í gildi hérlendis um árabil varðandi veiðarfæraúrgang. Með samningi Úrvinnslusjóðs og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tekur SFS á sig ábyrgð á söfnun og meðhöndlun veiðarfæraúrgangs og kostnað sem af því hlýst í stað þess að greitt sé úrvinnslugjald af veiðarfærum sem sett eru á markað.
Úrvinnslusjóður gerir samninga við þjónustuaðila um meðhöndlun úrgangs sem fellur undir kerfið. Sveitarfélög geta verið þjónustuaðilar með þeim réttindum og skyldum sem fylgja. Skilmála fyrir þjónustuaðila er að finna á vefsíðu Úrvinnslusjóðs. Sjóðurinn greiðir þjónustuaðilum endurgjald til að standa undir kostnaði við meðhöndlunina auk flutningsjöfnunar sem á að jafna kostnað vegna flutninga um landið. Þjónustuaðilar gera samninga við ráðstöfunaraðila um endanlega ráðstöfun. Úrvinnslusjóður þarf að samþykkja viðkomandi ráðstöfunaraðila.
Þjónustuaðilar fá greitt úr sjóðnum með því að framvísa skilagrein og staðfestingu ráðstöfunaraðila á mótteknu magni. Sveitarfélag getur ákveðið hvort greiðslur sjóðsins vegna úrgangs sem sveitarfélagið ber ábyrgð á rennur til þjónustuaðila sem það hefur gert samning við eða að sveitarfélagið verði sjálft þjónustuaðili og fái greiðslurnar beint til sín. Tilgreina ætti í þjónustusamningum sveitarfélags við þjónustuaðila hvort fyrirkomulagið er og hvernig kostnaður sveitarfélags verður ef þjónustuaðili fær tekjur frá Úrvinnslusjóði til viðbótar við greiðslur sveitarfélagsins.
Vöruflokkar sem falla undir Úrvinnslusjóð eru pappírs- og pappaumbúðir, plastumbúðir, glerumbúðir, viðarumbúðir, málmumbúðir, drifrafhlöður, rafhlöður og rafgeymar, raf- og rafeindatæki, hjólbarðar, ökutæki, olíuvörur, lífræn leysiefni og klórbundin efnasambönd, málning, prentlitir, kvikasilfursvörur, vörur í ljósmyndaiðnaði, varnarefni, kælimiðlar og veiðarfæri úr gerviefnum.
Úrvinnslugjaldið skal a.m.k. standa straum af kostnaði við:
Móttaka úr sér genginna ökutækja er á ábyrgð sveitarfélaga. Sveitarfélög útvega aðstöðu eða útvista móttöku á ökutækjum með samning við undirverktaka, t.d. bílaverkstæði. Við skráningar á ökutækjum skal nota sérstök leyfisnúmer sveitarfélaga til að tryggja rekjanleika. Úrvinnslusjóður greiðir til sveitarfélags sem getur látið greiðslur fljóta áfram til undirverktaka. Nokkrir þjónustuaðilar eru skráðir beint hjá Úrvinnslusjóði og sækja greiðslur þangað beint.
Einnota drykkjarumbúðir sem falla undir skilagjaldskerfið eru í umsjón Endurvinnslunnar hf. Endurvinnslan sér um móttöku einnota drykkjarumbúða, greiðir út skilagjald, undirbýr umbúðirnar til útflutnings og selur til endurvinnslu. Alls rekur Endurvinnslan um 60 starfsstöðvar um allt land.
Sveitarfélög sjá að stærstum hluta um þá förgun úrgangs sem fram fer hér á landi, þ.e. með rekstri urðunarstaða eða brennslustöðva fyrir úrgang. Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir förgunarstaði úrgangs. Í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs eru ákvæði um rekstur og vöktun urðunarstaða á meðan þeir eru í rekstri og einnig um lokun urðunarstaða og eftirlit með aflögðum urðunarstöðum.
Rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um er að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. uppsetningu og rekstri viðkomandi förgunarstaðar. Þar sem úrgangur er urðaður skal gjaldið einnig að svo miklu leyti sem unnt er standa undir kostnaði sem fylgir því að setja fjárhagslega tryggingu eða jafngildi hennar, áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegu eftirliti í kjölfar lokunar í 30 ár.
Dæmi um aðgerðir sem snerta förgunarstaði og lokun starfandi stöðva
Bætt nýting hauggass á urðunarstað: Kanna áhuga fyrirtækja á uppbyggingu starfsemi sem nýtir metan úr hauggasi á urðunarstað svæðisins.
Lokun urðunarstaðar fyrir óvirkan úrgang: Urðunarstað fyrir óvirkan úrgang lokað og unnið eftir fyrirmælum Umhverfisstofnunar um frágang og vöktun aflagðra urðunarstaða í því ferli.
Stefnt að orkuendurnýtingu í stað urðunar: Gildandi starfsleyfi fyrir urðunarstað sveitarfélagsins ekki endurnýjað og úrgangur sem þarf að farga fari til orkuendurnýtingar í samstarfi við fleiri sveitarfélög á svæðinu.
Orðin endurvinnsla og endurnýting flækjast fyrir mörgum. Munurinn á endurvinnslu og endurnýtingu er sá að í endurvinnslu er efnið unnið í nýjar vörur en endurnýting er samheiti yfir endurvinnslu, orkuvinnslu úr úrgangi og vinnslu í fylliefni.
Í endurvinnslu fer efni í hringrás, t.d. þegar pappi er aftur unnin í pappa eða málmur endurbræddur í nýja málmhluti. Jarðgerð fellur undir endurvinnslu þar sem lífrænu efni er skilað aftur í lífræna hringrás. Í einhverjum tilfellum rýrna gæði hráefna við endurvinnslu sem takmarkar þá hversu oft er hægt að endurvinna efnið. Þetta á m.a. við um pappa en málma má endurvinna oft án þess að gæðin rýrni.
Endurnýting er samheiti yfir endurvinnslu og ferli þar sem efni er notað til orkuvinnslu eða til fyllingar. Orkuvinnsla og nýting sem fylliefni er endastöð efnisins og er því ekki hluti af hringrás. Þess vegna er orkuvinnsla neðar í forgangsröðun um úrgangsmeðhöndlun en endurvinnsla. Þessar aðferðir henta vel fyrir úrgangsefni sem eru erfið eða óhæf til endurvinnslu af einhverjum ástæðum.
Algengast er að einkaaðilar reki endurvinnslustöðvar. Hérlendis er sem dæmi endurvinnsla á málmum í málmbræðslum, endurvinnsla á plasti, einkum heyrúlluplasti, leysiefni eru endurunnin í einhverjum mæli og endurvinnsla er á lífrænum úrgangi með jarðgerð. Endurvinnsla á úrgangi frá Íslandi fer þó að mestu fram utan landsteinanna.
Dæmi eru um að sveitarfélög reki jarðgerðarstöðvar í samstarfi með öðrum eða ein og sér. Lífrænn úrgangur er auðlind sem hægt er að skila aftur í hringrás jarðvegs og getur haft mikilvægt hlutverk sem áburðargjafi. Hreinleiki moltu hefur verið vandamál í einhverjum tilfellum, því allt sem fer inn í jarðgerðarstöð skilar sér í moltuna. Erfitt er t.d. að hreinsa plast, gler og aðskotahluti úr moltunni eftir á. Því er lykilatriði að vanda til verka og fræða öll þau sem skila lífrænum úrgangi sem fer í jarðgerð um mikilvægi góðrar flokkunar. Jarðgerðarstöðvar fá starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og stofnunin veitir einnig ráðgefandi álit í tengslum við markaðssetningu á moltunni. Matvælastofnun sinnir síðan eftirliti með áburði, heldur skrá yfir framleiðendur og fylgist með niðurstöðum efnamælinga.
Svæði til landmótunar með óvirkum úrgangi (jarðvegstippar) taka við jarðefnum og steinefnum sem helst falla til við byggingarframkvæmdir. Æskilegt er að jarðvegstippar séu þannig staðsettir að gott aðgengi sé að þeim og akstursleiðir ekki of langar frá byggingarsvæðum til að lágmarka kostnað og umhverfisáhrif af flutningum. Á nokkrum stöðum hafa verið skoðaðar leiðir til að nýta jarðefni sem falla til á byggingarsvæðum á öðrum stöðum í byggð og vera með einskonar markað fyrir jarðefni sem byggingaraðilar geti nýtt sér, svo takmarka megi flutninga á jarðvegstippa. Jarðvegur úr uppgreftri telst til úrgangs og aðilar sem meðhöndla slíkan úrgang eiga að skila skýrslum til Umhverfisstofnunar með upplýsingum um tegund og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun.
Dæmi um aðgerðir endurvinnslu- og nýtingarstöðva
Aukin jarðgerð: Jarðgerðarstöð stækkuð með hliðsjón af aukinni söfnun lífúrgangs hjá íbúum og rekstraraðilum.
Aukin nýting moltu til landbóta: Næringarrík molta sem verður til við meðhöndlun lífúrgangs nýtt til uppgræðslu og landbóta á afréttum á svæðinu í samstarfi við landeigendur, Landgræðsluna og aðra haghafa.
Móttaka jarðefna: Sótt um áframhaldandi starfsleyfi fyrir jarðefni á gamla námusvæðinu og unnið að vegabótum að jarðvegstipp til að tryggja gott aðgengi.
Bætt umgengni með jarðefnamóttöku: Hlið sett upp við móttökustöðvar fyrir jarðefni á vegum sveitarfélagsins og komið á mönnuðum opnunartímum eftir því sem talin er þörf á.
Endurnýting jarðefna: Stutt við markað með hráefni til endurnotkunar, sérstaklega fyrir jarðefni og óvirkan úrgang.
Breytingar og þróun í úrgangsmálum og ný viðhorf til hringrásarhagkerfis hafa áhrif á skipulag og hönnun í byggðu umhverfi. Samhliða þéttingu byggðar þarf að tryggja aukna flokkun úrgangs og skil til endurnotkunar og endurvinnslu sem skapar nýjar áskoranir.
Í deiliskipulagi hverfa með þéttri byggð þarf að huga sérstaklega að því að söfnun úrgangs verður flóknari, úrgangsflokkum fjölgar og taka þarf frá pláss fyrir grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þetta getur verið áskorun þar sem landrými er af skornum skammti og land verðmætt. Huga þarf að því hvernig heildarsöfnun á stærra svæði er samsett, hverju skal safna við íbúðarhús og á lóðum lögaðila og hvaða úrgangi skal koma á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöðva.
Við skipulag nýrra hverfa þarf að gera ráð fyrir hönnun úrgangslausna frá upphafi þannig að losun sé hugsuð heildstætt, ásamt lausnum fyrir fyrirtæki og grenndar- og söfnunarstöðvar. Úrgangslausnir í gróinni byggð ættu að taka mið af byggðamynstri, arkitektúr og góðri hönnun byggðar. Í blandaðri byggð þar sem íbúðabyggð og atvinnustarfsemi eru innan sömu lóðar þarf að gera ráð fyrir aðskildum úrgangslausnum í deiliskipulagi.
Heimilt er að staðsetja sérstaka söfnun fyrir íbúa og rekstraraðila miðlægt á aðliggjandi lóðum að því gefnu að söfnun allra úrgangsflokka, þ.m.t. blandaðs úrgangs, færist þangað og að möguleiki sé til staðar til að innleiða „Borgað þegar hent er“ kerfi. Þetta má útfæra með sameiginlegum geymslum, gerði fyrir úrgangsílát og djúpgámum. Hafa þarf í huga að slíkar lausnir samrýmist vel kerfi fyrir sérstakri söfnun í sveitarfélaginu.
Huga ætti að útfærslu á sérstakri söfnun og aðgengi við hirðu úrgangs sem fyrst í skipulagsferlinu til þess að tryggja megi að þessi þjónusta sé skilvirk og uppfylli kröfur. Nýta ætti kosti þess að staðsetja ílát undir úrgang sem næst lóðarmörkum og í sumum sveitarfélögum er krafa um lágmarks fjarlægð. Mikilvægt er að hafa gott aðgengi að þeim stöðum sem sérstök söfnun úrgangs fer fram, enda stuðlar það að hagkvæmari og betri þjónustu. Aðgengi hirðuaðila úrgangs gæti verið kortlagt í skipulagsferlinu með sambærilegum hætti og aðgengi viðbragðsaðila.
Hönnuðir bygginga og lóða bera ábyrgð á að kröfur sem snúa að hönnun séu uppfylltar, s.s. er varða geymslu úrgangs, aðgengi íbúa og hirðuaðila og fjölda íláta. Smekkleg og falleg hönnun getur haft þau áhrif að fólk gangi betur um en annars og því er mikilvægt að vanda til verka. Við hönnun á rýmum fyrir söfnun úrgangs þarf að huga að lýsingu, að auðvelt sé að halda þeim hreinum og að aðkoma sé auðveld. Gæta þarf að því að öryggi starfsfólks sem tæmir ílátin sé tryggt, vinnuumhverfið sé öruggt og nægilegt pláss sé fyrir fólk og tæki til athafna. Aðgengi starfsfólks og ökutækja sem koma að hirðu úrgangs þarf að vera greið, s.s. aðkoma og staðsetning hirðubíls við losun.
Til eru margar mismunandi lausnir fyrir söfnun úrgangs. Stærð íláta fyrir hverja úrgangstegund þarf að taka mið af umfangi og gerð úrgangsins. Algengast er að nota 240 lítra ílát við sérbýli og lítil fjölbýli. Í einhverjum sveitarfélögum eru í boði 120 lítra tunnur, sem stundum eru kallaðar spartunnur. Hægt er að setja upp tvískiptar og jafnvel fjórskiptar 240 lítra tunnur sem aðskilja tvo eða fleiri úrgangsflokka eða hengja minni tunnu fyrir lífúrgang inn í 240 lítra tunnu. Við stærri fjölbýlishús eru gjarnan 660 lítra ker og henta þau þar sem fara þarf um stuttan veg við hirðu og aðgengi er gott. Færst hefur í auka að nota gáma á yfirborði og djúpgáma sem felldir eru niður í yfirborðið. Losun og hífing gáma þarf að vera sem auðveldust og öruggust hætti, bæði fyrir hirðuaðila og almenning á svæðinu. Sveitarfélög geta sett sérstakar kröfur um fyrirkomulag söfnunar á lífúrgangi, s.s. um poka sem brotna niður í jarðgerðarstöð.
Við val og útfærslu á ílátum skal taka mið af tilmælum Vinnueftirlits ríkisins um að starfsfólk sem sinnir hirðu úrgangs komist í sem minnsta snertingu við úrganginn og burður á ílátum verði lágmarkaður.
Við útreikninga á gólffleti þar sem ílát undir úrgang eru staðsett þarf að taka tillit til rýmis sem þarf að vera á milli þeirra og fyrir aftan þau og einnig þarf að tryggja nægjanlegt athafnasvæði til að draga megi ílátin út án þess að hreyfa önnur ílát.
Lóðarhafar bera ábyrgð á aðstöðu fyrir söfnun úrgangs á sinni lóð, utan og innan bygginga, sem og að flokkun og skil úrgangs sé í samræmi við gildandi reglur í sveitarfélaginu hverju sinni. Þeir bera ábyrgð á viðeigandi aðstöðusköpun, þrifum á aðstöðu og ílátum og að aðgengi íbúa og hirðuaðila sé gott, s.s. með snjómokstri og hálkuvörnum.
Ef miðlægar úrgangslausnir eru staðsettar á lóð sveitarfélagsins þá er almenna reglan að sveitarfélagið ber ábyrgð á þessum þáttum en er skylt að leggja á gjöld til að standa straum af þeim kostnaði. Þá getur sveitarfélag útbúið sérstakar lóðir undir miðlægar lausnir og þinglýst þeim á þær lóðir sem ætlað er að nýta svæðið.
Dæmi um aðgerðir til að bæta skipulag og hönnun
Gott aðgengi hirðuaðila að ílátum: Gerðar leiðbeiningar um skipulag og hönnun nýrra og endurgerðra mannvirkja sem og varðandi reglur um aðgengi að losun íláta á lóðum og á grenndar- og endurvinnslustöðvum. Miðað við að ílát þurfi ekki að draga lengra en 10 metra að hirðubíl á jafnsléttu.
Aðgengi hirðuaðila: Akstursleiðir hirðuaðila úrgangs skilgreindar í deiliskipulagsuppdráttum eða þeim lýst með sambærilegum hætti og akstursleiðum viðbragðsaðila.
Sveitarfélög taka ákvörðun um hvort þau sinna sjálf verkefnum um meðhöndlun úrgangs eða útvista þeim. Verkefnum getur verið útvistað að hluta eða í heild, sem dæmi sérstök söfnun við heimili, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva, meðhöndlun úrgangs eftir söfnun, kaup á vörum og búnaði, sem og samningar um framkvæmdir tengdar úrgangsstjórnun sveitarfélagsins.
Framkvæmd innkaupa, útboða og samninga um verkefnin eru mikilvægir hlekkir í að ná markmiðum í úrgangsmálum og tryggja að rekstur og þjónusta sé eins og sveitarfélag ákveður. Í gegnum innkaup og útboð má ná fram hagkvæmni í opinberum rekstri og nýta kosti virkrar samkeppni. Sveitarfélög gætu þó haft hag af því að skilgreina innviði sem þurfa að vera til staðar á vegum sveitarfélagsins til að tryggja virka samkeppni á markaði.
Útboðsgögn og samninga þarf að vinna í takti við áherslur sveitarfélags og þá ábyrgð sem það ber samkvæmt lögum, m.a. varðandi sérstaka söfnun við heimili og rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva. Útboðsgögn og innkaupasamningar þurfa að taka mið af gildandi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, samþykkt um meðhöndlun úrgangs, gjaldskrám og innheimtukerfi. Segja má að sveitarfélag sé að uppfylla skyldur sínar í gegnum samninga við verktaka og því þarf að vera skýrt hvaða verkefni þeim er ætlað að leysa, hvernig tekið verði á breytingum sem verða á samningstíma og hvaða gögnum verktaki skuli skila til sveitarfélagsins á gildistíma samningsins. Gögn þurfa að vera áreiðanleg og gagnsæ til að sveitarfélag geti sannreynt endanlega ráðstöfun úrgangs, magn og tegundir og skilgreint sundurliðun kostnaðar. Góð og skiljanleg gögn auðvelda eftirfylgni og eftirlit með samningum og minnkar áhættu á svikum.
Greiðslur Úrvinnslusjóðs vegna úrgangs sem sveitarfélagið ber ábyrgð á fara til þjónustuaðila og gera þarf ráð fyrir því í samningum. Sveitarfélag getur gerst þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Útfæra þarf í samningum hvernig greiðslum milli verktaka og sveitarfélags er háttað vegna úrvinnslugjalds og flutningsjöfnunar.
Ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs sem taka gildi í byrjun árs 2023 gera meiri kröfur en áður til sveitarfélaga. Þetta þarf að endurspeglast í innkaupagreiningu fyrir útboðs. Taka þarf mið af grunninnviðum sem til staðar eru, kröfum um sérstaka söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs og af fyrirkomulagi innheimtu. Gera ætti þjónustuaðilum á markaði viðvart um umfangsmiklar breytingar á þjónustu þegar þær liggja fyrir svo að þeir hafi tíma til að undirbúa þær.
Nokkur góð ráð um útboð sveitarfélaga á úrgangsþjónustu eru í viðauka 6.
Til að unnt sé að greina og fylgjast með stöðu úrgangsmála þurfa að liggja fyrir upplýsingar um úrgangsstrauma. Til að geta fylgt eftir gildandi markmiðum, sem sveitarfélaginu er skylt að ná, þarf sveitarfélagið að hafa upplýsingar um magn og tegund heimilis- og rekstrarúrgangs sem fellur til á svæðinu. Umhverfisstofnun annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs eftir sveitarfélögum. Gögnin koma til stofnunarinnar frá þjónustuaðilum og ráðstöfunaraðilum úrgangs. Til að tryggja gæði gagna er mikilvægt að þeim sé skilað í samræmi við kröfur og getur sveitarfélagið sett fram kröfur um þetta í útboðsgögn og innkaupasamninga á þeirra vegum. Að lágmarki ætti að halda utan um upplýsingar varðandi:
Með tegund og uppruna úrgangs er átt við allan þann úrgang sem til fellur á svæðinu. Þetta er óháð því hvaða aðili sér um sérstaka söfnun, meðhöndlun eða flutning úrgangsins til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar eða förgunar. Þannig er reynt að ná utan um úrgang sem er safnað við heimili, úrgang frá atvinnurekstri og efni sem kemur á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þeir aðilar sem koma að söfnun og meðhöndlun geta verið sveitarfélögin sjálf, þjónustuaðilar sem eru með samning við sveitarfélög, sem og smærri aðilar eins og Rauði krossinn og fleiri sem safnar textíl eða Endurvinnslan, íþróttafélög, björgunarsveitir og Bandalag íslenskra skáta o.fl. sem safna einnota drykkjarumbúðum með skilagjaldi.
Mælt er með því að skrá upplýsingar um að lágmarki eftirfarandi úrgangsflokka, í ljósi markmiða sem ná skal í úrgangsmeðhöndlun.
Hringrásarhagkerfið er sett fram sem arftaki hins hefðbundna línulega hagkerfis, þar sem efni og vörur eru framleiddar og notaðar þar til þeim er fargað. Í hringrásarhagkerfi er leitast við að koma í veg fyrir úrgangsmyndun þannig að efni og auðlindum er viðhaldið í notkun eins lengi og mögulegt er. Efniviður ætti allra helst að vera í stöðugri hringrás og eiga sér enga lokastöð. Aðferðir hringrásarhagkerfisins eru fjölbreyttar og geta falist í því að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. Allt miðar þetta að því að halda auðlindum í hringrásinni til að draga úr raski og umhverfisáhrifum af vinnslu nýrra hráefna. Í upphafi skal endinn skoða og mestir möguleikar til að halda efnum í hringrás eru fólgnir í því að hanna vörur og þjónustu með þetta í huga.
Framundan er ærið verkefni þar sem stefnt er því koma í veg fyrir förgun auðlinda – hugsa hagkerfið þess í stað sem hringráshringrás. Framtíðarsýn í stefnu ráðherra í úrgangsmálum er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.
Markmiðið er að hringrásarhagkerfi verði virkt, dregið verði verulega úr myndun úrgangs, endurvinnsla aukin og urðun hætt.
Um sniðmátið
Sniðmát fyrir svæðisáætlun sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs er unnið samhliða vinnu við gerð handbókar um framkvæmd úrgangsstjórnunar. Sniðmátið er sett upp þannig að tekið er tillit til ákvæða laga og reglugerða sem tekið hafa gildi. Auk þess eru tekin inn atriði úr Evróputilskipun sem hefur verið innleidd í íslensk lög sem taka gildi hérlendis í byrjun árs 2023.
Lagt er til að fylgt sé almennt viðurkenndum aðferðum við stefnumótun og áætlanagerð og helstu skref við vinnuna eru þá eftirfarandi:
Hér er lagt til að framsetning svæðisáætlunar sé þannig að stefna, markmið og yfirlit aðgerða séu í forgrunni. Stöðugreining, ítarleg aðgerðaáætlun og umhverfismat séu í fylgiskjölum.
Þegar fleiri en eitt sveitarfélag vinnur sameiginlega svæðisáætlun þarf að draga fram þá þætti sem þau vinna saman. Hluti aðgerða getur verið á hendi hvers sveitarfélags fyrir sig, t.d. aðgerðir í úrgangsforvörnum, og þá er æskilegt að vísa til þess, frekar en að draga fram margar ólíkar áætlanir inn í sameiginlega áætlun.
Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs er unnin á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og stefnu ráðherra í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi, og 9. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003.
Í svæðisáætlun er gerð grein fyrir markmiðum sveitarfélaga um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Settar eru fram leiðir sem farnar verða til að ná markmiðum. Núverandi staða er kortlögð og þannig lagður grunnur að aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að ná markmiðum.
Svæðisáætlun er sett upp í eftirfarandi skrefum:
Skref 1. Stefna varðandi úrgangsstjórnun.
Skref 2. Markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu og lágmarka förgun.
Skref 3. Aðgerðir til að bæta flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs, sem og aðgerðir í úrgangsforvörnum til að draga úr myndun úrgangs.
Skref 4. Vöktun, eftirlit, skipulag úrgangsmála, fræðsla og kynningarmál.
Í fylgiskjölum er stöðugreining sem liggur til grundvallar, aðgerðaáætlun og umhverfismat áætlunar.
Í stefnunni er sett fram framtíðarsýn sveitarfélaga, tilgangur stefnunnar og hvernig úrgangsmál og málefni hringrásarhagkerfis horfa við landssvæðinu. Farið er yfir hvaða tækni og aðferðum fyrirhugað er að beita á gildistíma áætlunarinnar. Lagt er mat á hvernig áætlunin mun styðja við innleiðingu á markmiðum um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Fjallað er um hvernig sérstakri söfnun úrgangs verði komið á og um stefnu vegna úrgangs sem erfitt hefur reynst að koma í meðhöndlun og þarfnast sérstakrar meðhöndlunar vegna sértækra reglna, líkt og aukaafurðir dýra eða spilliefni.
Ef sveitarfélög sameinast um gerð svæðisáætlunar er skýrt frá ástæðum og kostum þess að farið er í sameiginlega áætlunargerð, t.d. hagræðing í aðgerðum, einföldun eða hagstæðari staða við kaup á þjónustu. Sameiginleg stefna byggir á samræmingu og samvinnu á milli sveitarfélaga í úrgangsstjórnun.
Dæmi um stefnu fyrir sveitarfélög:
Dæmi um stefnu fyrir sveitarfélög:
Sveitarfélögin stefna á að vera til fyrirmyndar í úrgangsmálum með því að draga markvisst úr myndun úrgangs á svæðinu og auka hlut úrgangs sem fer til endurnýtingar.Sveitarfélögunum er umhugað um að þjónusta við heimili og rekstraraðila vegna meðhöndlunar úrgangs sé til fyrirmyndar og sveitarfélögin leitast við að meðhöndlun úrgangs eftir að söfnun lýkur sé ávallt forgangsraðað í samræmi við forgangsröðun um meðhöndlun úrgangs, úrgangsþríhyrningnum.
Sveitarfélögin vilja leggja sitt af mörkum til að efla hringrásarhagkerfi í rekstri sínum með því að virkja íbúa og fyrirtæki til þátttöku. Unnið verður með stofnunum, skólum og vinnustöðum til að auka þekkingu á flokkun úrgangs og annarri úrgangsstjórnun og málefnum hringrásarhagkerfis.
Áhersluþættir:
- Að setja upp grenndarstöðvar í nálægð við heimili þar sem íbúar geta skilað gleri, málmum, textíl og drykkjarumbúðum með skilagjaldi.
- Að setja upp markvissar merkingar og leiðbeiningar til að tryggja hreinleika úrgangsstrauma sem koma til grenndar- og söfnunarstöðva.
- Að söfnun og önnur meðhöndlun á lífúrgangi verði bætt og á gildistíma áætlunarinnar verði unnið að uppbyggingu innviða til að vinna lífúrgang á svæðinu, ef það reynist hagkvæmt.
- Að sett verði ákvæði í samninga við verktaka um gæði þjónustu og upplýsingagjöf.
- Að komið verði á „Borgað þegar hent er“ kerfi í sveitarfélaginu bæði á úrgangi frá heimilum og rekstraraðilum.
Eðli málsins samkvæmt getur hver sem er verið handhafi úrgangs, s.s. einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir. Sú skylda hvílir á handhafa úrgangs, hvort sem það er sá sem úrgangurinn fellur til hjá eða sá sem hefur hann í sinni vörslu, að færa úrganginn til viðeigandi meðhöndlunar, annað hvort beint til endurnýtingar eða í söfnunar– eða móttökustöð. Einstaklingum og rekstraraðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við reglur um sérstaka söfnun.
Gæta skal þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi og að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru og við eiga, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar.
Til að undirstrika ábyrgð handhafa úrgangs á því að færa úrgang til viðeigandi meðhöndlunar getur lögregla sektað fyrir ólögmæta losun, svo sem ef úrgangur er losaður annars staðar en í ílát undir úrgang eða á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöð. Einnig ef úrgangur er skilinn eftir, fluttur, dreift eða geymdur á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Að fleygja rusli á víðavangi er dæmi um slíkt brot.
Handhafi úrgangs skal standa straum af raunkostnaði, eða því sem næst, við meðhöndlun úrgangsins sem hann losar sig við, í samræmi við mengunarbótaregluna. Inntak mengunarbótareglunnar er að sá sem er ábyrgur fyrir mengun og umhverfisspjöllum skal greiða kostnaðinn sem hlýst af því að laga eða koma í veg fyrir skaðann.
Sveitarfélag getur útfært frekara verklag þegar handhafi úrgangs ber sig ekki rétt að við flokkun og skil úrgangs til meðhöndlunar, bæði í samþykkt um meðhöndlun úrgangs og lögreglusamþykkt.
Lóðarhafar bera ábyrgð á aðstöðu fyrir söfnun úrgangs á sinni lóð, hvort sem er í eða við viðkomandi byggingu og að flokkun og skil úrgangs sé í samræmi við gildandi reglur í sveitarfélaginu. Þeir bera ábyrgð á aðstöðusköpun, þrifum á aðstöðu og ílátum og að aðgengi íbúa og hirðuaðila að ílátum sé gott, s.s. með snjómokstri og hálkuvörnum.
Sveitarfélög setja sér markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Eins og lög segja til um eru að lágmarki sett markmið sem byggja á stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs. Annars vegar eru markmið sem sveitarfélög skulu ná á sínu svæði og hins vegar eru markmið sem ná skal á landsvísu. Greining á stöðu úrgangsmála sem birt er í fylgiskjali A, leiðir í ljós hversu langt frá markmiðum núverandi staða er og hvaða markmið hafa nú þegar verið uppfyllt.
Markmið í samræmi við stefnu ráðherra eru eftirfarandi:
Dæmi um markmið fyrir sveitarfélög:
Sveitarfélögin setja sér markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu.Markmið sem byggja á stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs eru eftirfarandi:
- Endurvinnsla og urðun heimilisúrgangs: Árið 2035 verði urðað að hámarki 10% af heimilisúrgangi. Endurvinnsla heimilisúrgangs verði 50% árið 2023 og aukist í skrefum í 65% árið 2035.
- Lífrænn úrgangur: Dregið verður úr urðun lífræns úrgangs þannig að það sem berst til urðunarstaða hafi minnkað niður í 35% miðað við það sem féll til árið 1995.
Sérstök markmið sveitarfélags eru eftirfarandi:
- Yfir 90% íbúa í þéttbýli hafi aðgang að grenndarstöð í innan við 500 m fjarlægð frá heimili árið 2025.
- Úrgangsforvarnir: Úrgangur sem fellur til hjá í stofnunum og skólum sveitarfélagsins minnki um 50% á milli áranna 2023 til 2032.
- Visthæfari hirðubílar: Helmingur hirðubíla verði visthæf ökutæki árið 2028.
Aðgerðir sem lagðar eru til taka mið af greiningu á stöðunni sem unnin er samkvæmt fylgiskjali A og af markmiðum og stefnu sveitarfélaga. Sveitarfélög setja fram aðgerðir sem þau telja að verði til þess að markmið áætlunar náist á gildistíma hennar, m.a. eftirfarandi aðgerðir, nema greining leiði í ljós að ekki sé þörf á þeim:
Dæmi um aðgerðir fyrir sveitarfélög:
Greining á stöðu úrgangsmála (fylgiskjal A) sýnir að bæta þarf meðhöndlun á lífúrgangi og pappírs- og plastefnum. Unnið verður að auknum gæðum endurvinnsluefnis sem safnað er á svæðinu og bættri þjónustu. Sveitarfélögin telja að aðgerðir sem hér eru tilgreindar verði til þess að markmið svæðisáætlunarinnar náist á gildistíma hennar.
Í fylgiskjali B er að finna tímasetta áætlun og upplýsingar um ábyrgðaraðila verkefna.
Aðgerðir sem stuðla að úrgangsforvörnum, s.s. leiðir til að auka endurnotkun
Átaksverkefni hjá stofnunum sveitarfélaganna: Fundnar verða leiðir til að auka endurnotkun efnis svo það verði ekki að úrgangi, í samræmi við úrgangsforvarnarstefnu.
Átak í betri nýtingu matar: Sveitarfélögin munu stofna sameiginlegan stýrihóp um lágmörkun matarsóunar sem mun skila kostnaðarmetnum tillögum um betri matarnýtni á öllu svæðinu, hvort sem er hjá íbúum, rekstraraðilum eða hjá stofnunum.
Aðgerðir til að bæta söfnunarkerfi og innleiða ný kerfi fyrir sérstaka söfnun úrgangs
Aukin upplýsingagjöf til íbúa og rekstraraðila: Sveitarfélögin koma upp og reka sameiginega vefsíðu þar sem íbúar og rekstraraðilar á svæðinu geta nálgast upplýsingar um rétta flokkun úrgangs, hirðudagatal í hverju sveitarfélagi og staðsetningar á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum.
Bætt söfnun á pappír og pappa, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi: Við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli verður komið upp ílátum fyrir flokkaðan úrgang. Þar sem við á verður sameiginleg söfnun fyrir aðliggjandi lóðir.
Góð og árangursrík söfnun lífúrgangs: Pappírspokar undir lífúrgang frá heimilum verða aðgengilegir án endurgjalds á mönnuðum söfnunarstöðvum sveitarfélaganna og leitað verður eftir samstarfi við verslanir á svæðinu til að dreifa pokunum.
Söfnun á gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum: Settar verða upp grenndarstöðvar á aðgengilegum stöðum.
Innleiðing virkrar mengunarbótareglu: Innheimta fyrir meðhöndlun úrgangs standi að fullu undir kostnaði við hana auk þess sem innleitt verður Borgað-þegar-hent-er kerfi við innheimtu.
Aðgerðir til að meðhöndlun úrgangs verði umhverfislega betri
Hreinleiki endurvinnslustrauma tryggðir: Átaki um hreinni endurvinnslustrauma verður hrint af stað þar sem hirðuaðilar munu upplýsa íbúa ef þeir verða varir við ranga flokkun úrgangs í ílát undir endurvinnsluefni eða að endurvinnsluefni rata í ílát undir blandaðan úrgang.
Visthæfari hirðubílar: Skipt verður út hirðubílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrir visthæfar bifreiðar í gegnum innkaup sveitarfélaganna.
Aðgerðir í samræmi við mat á þörf fyrir nýtt fyrirkomulag endurvinnslu- og nýtingarstöðva og förgunarstaða, lokun starfandi stöðva og fjárfestingar í tengslum við það
Unnið verður að uppbyggingu innviða fyrir sérstaka söfnun og aðra meðhöndlun, þ.m.t. fyrir lífúrgang og umbúðaúrgang. Vísað er til greiningar um þörf á aðstöðu fyrir endurnýtingu lífúrgangs.
Gott aðgengi íbúa og rekstraraðila að flokkun og skilum á úrgangi til endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar: Stofnaður verður stýrihópur með fulltrúum allra sveitarfélaganna sem mun leggja drög að framtíðar staðsetningu grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva á svæðinu ásamt áætluðum kostnaði við uppbyggingu. Miðað verður við að 90% íbúa í þéttbýli hafi aðgang að grenndarstöð í 500 m fjarlægð frá heimili sínu eða minna.
Í sumarbústaðabyggð verður komið upp aðgangsstýrðri söfnunarstöð. Eigendur munu standa straum af uppbyggingunni og innheimt verður eftir „Borgað þegar hent er“ kerfi á stöðinni.
Áreiðanlegri innheimta: Fjárfest verður í bílavogum og sjálfsafgreiðslukerfi á söfnunarstöðvum sem undirstaða gjaldheimtu inn á stöðvarnar.
Aðgerðir er varða hagkvæma, góða og gegnsæja þjónustu við íbúa og fyrirtæki
Hagkvæm og góð þjónusta: Útbúin verða þjónustuviðmið um söfnun og meðhöndlun úrgangs sem verða innleidd í gegnum bætt verklag stofnanna sveitarfélaganna og nýrra ákvæða í innkaupasamningum um hirðu úrgangs við heimili og stofnanir sveitarfélaganna, bæði fyrir þéttbýli og dreifbýli.
Regluleg upplýsingagjöf um kostnað vegna meðhöndlunar úrgangs: Sveitarfélögin munu birta á vefsíðum sínum upplýsingar um kostnað um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.
Fjalla skal um eftirfarandi í svæðisáætlun eftir því sem við á. Mælt er með því að þessi atriði séu sett fram í svæðisáætlun til að skýra verklag við framkvæmd, eftirlit og skipulag.
Dæmi um vöktun, skipulag og fræðslu fyrir sveitarfélög:
Sveitarstjórnir í samstarfi við umhverfis- og skipulagsnefndir, bera ábyrgð á stefnu og markmiðum í úrgangsmálum.Dagleg umsýsla er í höndum sviðsstjóra umhverfis- og úrgangsmála sem sjá um samskipti vegna úrgangsmeðhöndlunar og eftirlit með innkaupasamningum, tekur við ábendingum og athugasemdum frá íbúum og fer með eftirfylgni gagnvart aðgerðaáætlun.
Sveitarfélögin setja fram hvert fyrir sig áætlanir um fræðslu- og kynningarmál í aðgerðaáætlun í fylgiskjali B. Hún snýr að starfsmönnum stofnana sveitarfélagsins, skólum, íbúum og rekstraraðilum.
Magn úrgangs
Unnin er greining á fyrirliggjandi upplýsingum um úrgangsstrauma á svæðinu og lagt mat á þróun til framtíðar. Umhverfisstofnun annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs eftir sveitarfélögum og getur liðsinnt við greininguna. Greiningin gefur upplýsingar um eftirfarandi þætti:
Með tegundum og uppruna úrgangs er átt við allan þann úrgang sem til fellur á svæðinu. Þetta er óháð því hjá hvaða aðila úrgangurinn fellur til eða hver sér um söfnun, meðhöndlun eða flutning úrgangsins til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar eða förgunar. Þannig er reynt að ná utan um úrgang sem er safnað við heimili, úrgang frá atvinnurekstri og efni sem kemur á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þeir aðilar sem koma að söfnun og meðhöndlun geta verið sveitarfélögin sjálf, rekstraraðilar sem eru með samning við sveitarfélög, sem og fyrirtæki og samtök sem safna textíl eða einnota drykkjarumbúðum.
Farið er yfir greininguna og metið hvort markmið hafi náðst og hver árangur núverandi kerfis er. Mælt er með því að greina að lágmarki eftirfarandi úrgangsflokka, í ljósi markmiða sem ná skal.
Meðhöndlun úrgangs
Hér er lýst fyrirkomulagi meðhöndlunar úrgangs þar sem fram kemur eftirfarandi:
Með söfnunarkerfum er átt við hvernig úrgangi er safnað frá heimilum. Skýrt er frá því hvaða úrgangur er sóttur heim og hvaða úrgangi er safnað á grenndar- og söfnunarstöðvum. Skoðað er hvernig fyrirkomulagið er fyrir sérstaka söfnun og hvort í gildi sé undanþága frá sérstakri söfnun.
Gerð er grein fyrir úrgangsstraumum sem sveitarfélög bera ábyrgð á, annars vegar heimilisúrgangi og hins vegar rekstrarúrgangi.
Með heimilisúrgangi er átt við blandaðan og sérsafnaðan úrgang frá heimilum, sem og blandaðan úrgang og sérsafnaðan úrgang af öðrum uppruna, t.d. frá rekstraraðilum, sem er svipaður að eðli og samsetningu úrgangs frá heimilum. Þetta þýðir að heimilisúrgangur fellur ekki eingöngu til á heimilum. Samskonar úrgangur getur fallið til hjá fyrirtækjum og stofnunum, t.d. eldhúsúrgangur frá kaffistofum og mötuneytum.
Rekstrarúrgangur er úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun, landbúnaði, skógrækt, fiskvinnslu, rotþróm, fráveitukerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur.
Skylt er að safna með sérstakri söfnun pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum á eftirfarandi hátt:
Gerð er grein fyrir hvernig ólíkum söfnunarleiðum er beitt landfræðilega, þ.e. í þéttbýli, í dreifbýli, við fjölbýlishús, við orlofshús o.s.frv., auk þess sem lýst er öðrum fjölbreytileika í söfnunarkerfum. Kortlagt er hvernig ílát eru algengust í hverju tilviki, t.d. tunnur, gámar eða djúpgámar. Kortlagt er hvað verður um úrgang sem fellur til á svæðinu, hvaða urðunarstaðir og brennslustöðvar eru notaðar, hvernig óvirkum úrgangi er fyrir komið og hverjir taka á móti flokkuðum úrgangi sem fer í endurvinnslu og endurnýtingu. Sérstök áhersla er lögð á að kortleggja förgun, endurnýtingu og endurvinnslu hérlendis. Kortlagningin byggir á bestu fyrirliggjandi upplýsingum um afdrif úrgangsins.
Úrgangur sem sérstakar reglur gilda um eru til dæmis olíuúrgangur, spilliefni, áhættuúrgangur (dýraleifar) og úrgangur sem inniheldur efni sem eru af skornum skammti, t.d. góðmálmar (e. critical raw materials). Gerð er grein fyrir hvernig hver ber ábyrgð á söfnun hans, hvar honum er safnað og hvernig staðið er að því. Mat er lagt á hvort söfnunin uppfylli kröfur sem gerðar eru.
Gerð er grein fyrir þeim ráðstöfunum sem gera skal til að koma í veg fyrir rusl á víðavangi og til að tryggja fullnægjandi hreinsun þess.
Þörf á innviðum
Lagt er fram mat á þörf fyrir nýtt fyrirkomulag endurvinnslu- og nýtingarstöðva og förgunarstaða, lokun starfandi stöðva og fjárfestingar í tengslum við það. Byggt er á kortlagningu á stöðu úrgangsmála og mati á þróun á straumum úrgangs í framtíðinni og höfð hliðsjón af markmiðum sem skal ná. Lagðar eru fram upplýsingar um hvaða rök liggja að baki ákvörðun um staðsetningu mikilvægra stöðva og hvaða afkastagetu þarf til framtíðar. Við mat þetta skal tryggja að flokkaður úrgangur úr sérstakri söfnun eða annar úrgangur sem óheimilt er að urða fari til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar. Lýsa má innviðum fyrir innheimtu, einkum í ljós krafna „Borgað þegar hent er“ og hvernig sveitarfélagið hyggst uppfylla þær.
Hagræn stjórntæki og aðrar ráðstafanir
Í svæðisáætlun geta sveitarfélög metið gagnsemi þess að nota hagræn stjórntæki og önnur stjórntæki til að takast á við ýmis vandamál er varða úrgang. Hér er gerð grein fyrir hvaða hagrænu stjórntæki og aðrar ráðstafanir sveitarfélögin nýta til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs. Vísað er til lista sem settur er fram í tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) 2018/851.
Tafla með tímasettri aðgerðaáætlun og ábyrgðaraðila þar sem meðal annars er gerð grein fyrir eftirfarandi:
Umhverfismat svæðisáætlunar er unnið samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Æskilegt er að vinna umhverfismat samhliða áætlanagerðinni, til að upplýsingar úr umhverfismati svæðisáætlunar nýtist sem best til að aðlaga áætlunina að niðurstöðum umhverfismatsins. Helstu þættir umhverfismats eru eftirfarandi:
Sveitarstjórn setur sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu þar sem tilgreind eru atriði umfram það sem greinir í lögum og reglugerðum. Í samþykkt er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og rekstraraðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði. Sveitarfélög skulu útfæra nánara fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
Samþykkt getur kveðið á um til hvaða meðhöndlunar úrgangur skal færður, annaðhvort beint til endurnýtingar eða í söfnunar- eða móttökustöð, og þaðan til endurnýtingar eða förgunar.
Sniðmátið er sett þannig fram að fyrst er dæmi um einfalda uppsetningu á samþykkt og hvaða efnisgreinar geta verið í henni. Síðan fylgir listi af atriðum sem geta verið í samþykktinni og fer það eftir aðstæðum og ákvörðunum sveitarfélagsins hvað á við á hverjum stað.
Sniðmátið er dæmi um framsetningu samþykktar en ekki það sem er skylda að komi fram í samþykktum. Rauður texti eru atriði sem setja þarf inn miðað við aðstæður hverju sinni.
SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs – dæmi um framsetningu
1. gr. Markmið
Markmið samþykktar þessarar er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu xxx valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðla að endurnotkun og endurnýtingu og góða þjónustu við íbúa. Horft verður til úrgangsþríhyrningsins í meðhöndlun úrgangs, áhersla lögð á úrgangsforvarnir og mengunarbótareglan höfð að leiðarljósi við ákvörðun gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs.
2. gr. Gildissvið
Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs í sveitarfélaginu xxx.
3. gr. Umsjón og eftirlit
[Það svið sem sér um úrgangsmál sveitarfélagsins] fer með ákvörðunarvald í málefnum er varða meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar. Sviðið fer með daglega yfirstjórn mála þessara samkvæmt samþykkt þessari.
Heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins xxx hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs skv. 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 með síðari breytingum og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum og að farið sé að samþykkt þessari.
4. gr. Almenn ákvæði
Meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu xxx skal vera samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Sveitarfélagið ber ábyrgð á sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á sínu svæði og samskiptum við þá aðila sem tengjast þeim viðfangsefnum. Sveitarfélagið getur sinnt sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á eigin vegum og er heimilt að fela öðrum framkvæmd söfnunar á úrgangi, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva og förgun úrgangs. Rekstraraðilar skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti eða Umhverfisstofnun eftir því sem við á.
Gæta skal þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi og að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru og við eiga, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar.
5. gr. Skilgreiningar
Í samþykkt þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir: Listi yfir skilgreiningar
6. gr. Söfnun heimilisúrgangs
Hér er lýst hvernig söfnun fer fram, hvaða réttindi íbúar hafa og hvaða skyldur þeir hafa varðandi aðbúnað og frágang og annað sem máli skiptir. Eftir því sem við á er fjallað um söfnun við heimili, grenndar-, söfmimar- og/eða móttökustöðvar, klippikort, dreifbýli, frístundahús, lögbýli og fleira.
7. gr. Rekstrarúrgangur
Rekstraraðilar skulu sjálfir sjá um að koma úrgangi sem fellur til við reksturinn í viðeigandi meðhöndlun. Rekstraraðilar skulu fylgja kröfum sem gerðar eru um flokkun tiltekinna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og eftir því sem við á kröfum um sorpgerði og geymslur. Óheimilt er að geyma rekstrarúrgang á lóðum lengur en nauðsyn getur talið.
Önnur atriði er varða rekstraraðila, t.d. um byggingar- og niðurrifsúrgang,, hvaða réttindi rekstraraðilar hafa og hvaða skyldur þeir hafa varðandi aðbúnað og frágang og annað sem máli skiptir.
8. gr. Flokkun úrgangs
Sú skylda hvílir á handhafa úrgangs, hvort sem það er sá sem úrgangurinn fellur til hjá eða sá sem hefur hann undir höndum, að færa úrganginn til viðeigandi meðhöndlunar, annað hvort beint til endurnýtingar eða á grenndar-, söfnunar– eða móttökustöð. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilis og rekstrarúrgang í samræmi við reglur um sérsaka söfnun.
Hér koma nánari ákvæði um fyrirkomulag sérstakrar söfnunar og heimildir sem sveitarfélagið ákveður að nýta þegar ekki er rétt flokkað.
9. gr. Geymslur og gerði fyrir söfnun úrgangs
Sveitarfélagið leggur til ílát undir úrgang við heimili. Ganga skal þannig frá ílátum, geymslum og -gerðum að þau valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þau hreinsuð reglulega. Geymslur og -gerði má eingöngu nota til geymslu úrgangs.
Hér koma nánari ákvæði um ílát og staðsetningu þeirra, úrgangsgeymslur og -gáma, gáma á yfirborði, djúpgáma.
10. gr. Grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar
Grenndarstöðvar taka á móti flokkuðum úrgangi frá íbúum. Rekstraraðilar geta farið með sinn úrgang á söfnunar- og móttökustöðvar gegn gjaldi.
Hér koma nánari ákvæði um grenndar-, söfnunar og móttökustöðvar, hvernig rekstri er háttað og fleira sem máli skiptir.
11. gr. Umgengni á almannafæri
Óheimilt er að skilja úrgang eftir á víðavangi, götum eða gangstéttum eða opnum svæðum. Sama á við um númerslausa bíla, úr sér gengin ökutæki og sambærilega hluti.
12. gr. Heimildir til undanþágu
Hér koma heimildir til að sækja um undanþágur ef við á, í hvaða ferli þær fara og hvaða takmarkanir eiga við.
13. gr. Gjaldtaka
Hér koma ákvæði um gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs.
14. gr. Kvartanir, ábendingar og kærur
Hér koma upplýsingar um í hvaða ferli kvartanir, kærur og ábendingar skulu fara.
15. gr. Viðurlög
Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 68. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
16. gr. Gildistaka
Samþykkt þessi er samþykkt af sveitarstjórn xxx og staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. xxx, um meðhöndlun úrgangs í
Áhættuúrgangur er dýraafurðir sem ekki eru hæfar til manneldis. Ástæður þess að dýraafurð er ekki hæf til manneldis geta verið margar, þar með talið að afurðin sjálf henti ekki, eins og bein og skinn, eða að reglugerðir heimili ekki slíka notkun. Það getur líka verið að afurðin sé upphaflega hentug til manneldis, en að valið sé að nota ekki vöruna.
Aukaafurðir úr dýrum eru settar í þrjá áhættuflokka. Hér er farið yfir þá sem sveitarfélög þurfa helst að hafa afskipti af, en fullnægjandi upptalningu má finna á heimasíðu Matvælastofnunar undir upplýsingum um reglugerð nr. 674/2017 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.
Áhættuflokkur 1
Áhættuflokkur 1 er hæsti áhættuflokkurinn og inniheldur efni sem talið er mikilvægt að halda frá fæðukeðjunni. Helst eru það dýr eða hlutar dýra sem grunur leikur á um að sé smitað af heilahrörnun (TSE) eða mengað af bönnuðum efnum. Einnig má nefna gæludýr, tilraunadýr, villt dýr sem grunur leikur á að séu smituð og eldhúsúrgangur frá flutningsfyrirtækjum í alþjóðaflutningum.
Efni í áhættuflokki 1
Sérstakt áhættuefni (SRM)
Dýraafurðir sem innihalda bönnuð efni og viss aukaefni sem eru yfir leyfilegum mörkum
Dýraafurðir sem safnað var við meðhöndlun skólps frá starfstöðvum sem vinna efni í áhættuflokki 1 og öðrum fyrirtækjum þar sem sérstakt áhættuefni er fjarlægt.
Eldhúsúrgangur frá flutningsfyrirtækjum í alþjóðaflutningum
Gæludýr, ásamt dýrum frá dýragörðum og sirkusum
Tilraunadýr
Reglur um förgun áhættuflokks 1
Helstu leiðir til förgunar á efni í 1. flokki er með brennslu, með vinnslu með þrýstisæfingu og urðun að því loknu á viðurkenndum urðunarstað eða að nota það sem brunaeldsneyti. Undantekning er eldhúsúrgangur frá alþjóðaflutningum sem heimilt er að urða á viðurkenndum urðunarstað.
Eftirfarandi leiðir eru tilteknar í reglugerð fyrir meðhöndlun, nýtingu og förgun á áhættuflokki 1 og þar má finna nánari skýringar og reglur sem gilda um markaðssetningu afurða.
Efni í áhættuflokki 1 – leiðir til meðhöndlunar og förgunar
a) farga sem úrgangi með brennslu:
i. beint án undangenginnar vinnslu eða
ii. að undangenginni vinnslu, með þrýstisæfingu ef lögbært yfirvald krefst þess, og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni,
b) endurheimta eða farga með sambrennslu, ef efnið í 1. flokki er úrgangur:
i. beint án undangenginnar vinnslu eða
ii. að undangenginni vinnslu, með þrýstisæfingu ef lögbært yfirvald krefst þess, og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni,
c) ef um er að ræða tiltekinn áhættuúrgang í 1. flokki, sjá reglugerð, farga með vinnslu með þrýstisæfingu, varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni og urðun á viðurkenndum urðunarstað,
d) ef um er að ræða eldhúsúrgang frá flutningsfyrirtækjum í alþjóðaflutningum, farga með urðun á viðurkenndum urðunarstað,
e) nota sem brunaeldsneyti með eða án undangenginnar vinnslu,
f) nota til framleiðslu á tilteknum afleiddum afurðum sem sérstaklega er fjallað um í reglugerð.
Áhættuflokkur 2
Efni í flokki 2 er talið áhættuefni og er meðal annars húsdýraúrgangur og dýraleifar sem innihalda lyfjaleifar eða mengandi efni eða aðskotaefni sem er yfir leyfilegum mörkum. Einnig dýr og hlutar dýra sem deyja á annan hátt en við slátrun til manneldis, þ.á.m. dýr sem eru aflífuð til að útrýma smitsjúkdómum.
Efni í áhættuflokki 2
Húsdýraúrgangur og innihald meltingarvegar.
Dýravefur sem safnað er við meðhöndlun skólps frá öðrum sláturhúsum en þeim sem fjarlægja sérstakt áhættuefni eða hjá vinnslustöðvum fyrir efni í flokki 2.
Aukaafurðir dýra sem innihalda lyfjaleifar eða mengandi efni sem er yfir leyfilegum mörkum.
Dýraafurðir sem eru lýstar óhæfar til manneldis vegna innihalds aðskotaefna.
Dýraafurðir, að undanskildum efnum í áhættuflokki 1, sem eru innfluttar frá þriðju ríkjum og sem uppfylla ekki kröfur dýralækna fyrir innflutning.
Dýr og hlutar dýra sem deyja á annan hátt en við slátrun til manneldis, þ.á.m. dýr sem eru aflífuð til að útrýma smitsjúkdómum.
Vörur skilgreindar sem óhæfar til manneldis á grundvelli aðskotaefna.
Reglur um förgun áhættuflokks 2
Eftirfarandi leiðir á meðhöndlun, nýtingu og förgunar á áhættuflokki 2 eru tilteknar í reglugerð og þar má finna nánari skýringar og reglur sem gilda um markaðssetningu afurða.
Efni í áhættuflokki 2 – leiðir til meðhöndlunar og förgunar
a) farga sem úrgangi með brennslu:
i. beint án undangenginnar vinnslu eða
ii. að undangenginni vinnslu, með þrýstisæfingu ef lögbært yfirvald krefst þess, og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni
b) endurheimta eða farga með sambrennslu, ef efnið í 1. flokki er úrgangur:
i. beint án undangenginnar vinnslu eða
ii. að undangenginni vinnslu, með þrýstisæfingu ef lögbært yfirvald krefst þess, og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni
c) farga á viðurkenndum urðunarstað að lokinni vinnslu með þrýstisæfingu og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni
d) nota til framleiðslu á lífrænum áburði eða jarðvegsbæti, að undangenginni vinnslu með þrýstisæfingu, ef við á, og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni
e) mylta eða ummynda í lífgas:
i. að undangenginni vinnslu með þrýstisæfingu og varanlegri merkingu efnisins sem kemur úr vinnslunni eða
ii. ef um er að ræða húsdýraáburð, meltingarveg og innihald hans, mjólk, afurðir sem eru að stofni til úr mjólk, brodd, egg og eggjaafurðir sem lögbært yfirvald telur ekki skapa áhættu á útbreiðslu neins alvarlegs smitsjúkdóms, að undangenginni vinnslu eða án hennar,
f) nota á land án vinnslu, ef um er að ræða húsdýraáburð, innihald meltingarvegar, sem hefur verið losað úr meltingarvegi, mjólk, afurðir, sem eru að stofni til úr mjólk, og brodd sem lögbært yfirvald telur ekki skapa áhættu á útbreiðslu neins alvarlegs smitsjúkdóms,
g) ef um er að ræða efni úr lagardýrum, verkað í sílói, mylt eða umbreyta í lífgas,
h) nota sem brunaeldsneyti með eða án undangenginnar vinnslu eða
i) nota til framleiðslu á tilteknum afleiddum afurðum sem um getur í reglugerð um aukaafurðir dýra
Áhættuflokkur 3
Efni í áhættuflokki 3 telst bera litla áhættu og er hægt er að nota í fóður fyrir dýr, enda einna helst afurðir sem teljast hæfar til manneldis en sem af viðskiptalegum ástæðum á ekki að nýta til manneldis.
Efni í áhættuflokki 3
Hlutar slátraðra dýra sem teljast óhæfir til manneldis en sýna ekki merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
Húðir og skinn, hófar/klaufir og horn, svíns burstar og fjaðrir frá dýrum sem er slátrað í sláturhúsum og teljast hæf til slátrunar til manneldis
Blóð frá öðrum dýrum en jórturdýrum sem er slátrað á sláturhúsum og teljast hæf til manneldis
Aukaafurðir dýra frá framleiðslu vara sem eru ætlaðar til neyslu, þ.á.m. fituhreinsuð bein og fitutólg
Vörur úr dýraríkinu eða matur úr dýraríkinu sem ekki er lengur talinn hæfur til manneldis af viðskiptalegum ástæðum
Gæludýrafóður og annað fóður úr dýraríkinu eða inniheldur aukaafurðir úr dýrum og er ekki lengur ætlað til fóðurs af viðskiptalegum ástæðum
Blóð, fylgjur, ull, fjaðri, hár, horn, hófar/klaufir og broddur frá dýrum sem ekki hafa sýnt nein merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
Sjávardýr og hlutar þeirra, að undanskildum sjávarspendýrum, sem ekki hafa sýnt merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
Aukaafurðir dýra frá sjávardýrum sem falla til á starfsstöðvum sem framleiða matvæli
Eldhúsúrgangur og matarafgangar frá heimilum og veisluþjónustum
Blöndun mismunandi áhættuflokka
Hlutar slátraðra dýra sem teljast óhæfir til manneldis en sýna ekki merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
Reglur um förgun áhættuflokks 3
Eftirfarandi leiðir fyrir meðhöndlun, nýtingu og förgun á áhættuflokki 3 eru tilteknar í reglugerð og þar má finna nánari skýringar og reglur sem gilda um markaðssetningu afurða.
Efni í áhættuflokki 3 – leiðir til meðhöndlunar og förgunar
a) farga sem úrgangi með brennslu, með eða án undangenginnar vinnslu
b) endurheimta eða farga með sambrennslu, með eða án undangenginnar vinnslu, ef efnið í 3. flokki er úrgangur
c) farga á viðurkenndum urðunarstað að undangenginni vinnslu
d) vinna, nema ef um er að ræða efni í 3. flokki sem hefur breyst vegna rotnunar eða skemmst þannig að af afurðinni stafar óviðunandi áhætta fyrir heilbrigði manna eða dýra, og nota:
i. til framleiðslu á fóðri fyrir alidýr önnur en loðdýr, sjá þó undantekningar í reglugerð,
ii. til framleiðslu á loðdýrafóðri,
iii. til framleiðslu á gæludýrafóðri
iv. til framleiðslu á lífrænum áburði eða jarðvegsbæti
e) nota til framleiðslu á hráu gæludýrafóðri
f) mylta eða ummynda í lífgas
g) ef um er að ræða efni úr lagardýrum, verka í sílói, mylta eða umbreyta í lífgas
h) ef um er að ræða skeljar af skelfiski, með tilteknum undantekningu, og eggjaskurn, nota við skilyrði sem lögbært yfirvald ákveður og sem koma í veg fyrir að áhætta skapist fyrir heilbrigði manna og dýra
i) nota sem brunaeldsneyti með eða án undangenginnar vinnslu
j) nota til framleiðslu á tilteknum afleiddum afurðum sem um getur í reglugerð
k) ef um er að ræða eldhúsúrgang, annan en frá alþjóðaumferð, vinna með þrýstisæfingu eða með tilteknum vinnsluaðferðum sem um getur í reglugerð eða mylta eða ummynda í lífgas
l) nota á land án vinnslu, ef um er að ræða hrámjólk, brodd og afleiddar afurðir úr þeim sem lögbært yfirvald telur ekki skapa áhættu á neinum sjúkdómi sem getur borist í menn eða dýr með þessum afurðum.
Yfirlit yfir helstu lög og reglugerðir um meðhöndlun úrgangs
Lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003
Lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002
Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998
Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989
Reglugerð um endurvinnslu skipa, nr. 777/2019
Reglugerð um raf- og rafeindatækjaúrgang, nr. 1061/2018
Reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit, nr. 550/2018
Reglugerð um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir, nr. 750/2017
Reglugerð um aukaafurðir úr dýrum, nr. 674/2017
Reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs, nr. 1040/2016
Reglugerð um endurnýtingu úrgangs, nr. 1078/2015
Reglugerð um lok úrgangsfasa, nr. 564/2014
Byggingarreglugerð nr. 112/2012
Reglugerð um rafhlöður og rafgeyma, nr. 1020/2011
Reglugerð um námuúrgangsstaði, nr. 1000/2011
Reglugerð um flutning úrgangs á milli landa, nr. 822/2010
Reglugerð um hreinsun og förgun PCB og staðgengilsefna þess, nr. 739/2009
Reglugerð um asbestúrgang, nr. 705/2009
Reglugerð um úrvinnslu ökutækja, nr. 303/2008
Reglugerð um úrvinnslugjald, nr. 1124/2005
Reglugerð um urðun úrgangs, nr. 738/2003
Reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 803/2023
Reglugerð um amalgam mengað vatn og amalgam mengaðan úrgang frá tannlæknastofum, nr. 860/2000
Reglugerð um olíuúrgang, nr. 809/1999
Reglugerð um spilliefni, nr. 806/1999
Reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs, nr. 609/1996
Helstu tilskipanir ESB um hringrásarhagkerfið sem voru gefnar út á árunum 2018 – 2019
Tilskipun 2018/851 sem breytir
Helstu úrskurðir varðandi úrgangsmál.
Dalabyggð 2021 – söfnun dýrahræja
Hvalfjarðarsveit 2018 – Rotþróargjald
Reykjavík 2015 – Lífrænn úrgangur
Ísafjarðarbær 2014 – Sorphirðugjald
Reykjavík 2015 – Sorphirða
Borgarbyggð 2012 – Sorphirðugjald
Gjaldskrá Grímsnes- og Grafningshrepps 2009 – Sumarhúsabyggðir
Húnaþing vestra 2007 – Rotþróargjald
Blönduósbær 2005 – Sorphirðugjald
Þekking innan sveitarfélags
Byggja þarf upp þekkingu á málaflokknum hjá starfsfólki sveitarfélags og gefa tíma til að sinna verkefninu. Algengur vandi varðandi útboð og rekstur sveitarfélaga á úrgangshirðu, grenndarstöðvum og söfnunarstöðvum er að starfsfólk sveitarfélaga hefur ekki nægilega þekkingu á málaflokknum eða tíma til að sinna verkefninu. Treyst er á þjónustuaðila varðandi upplýsingar og ekki fylgst vel með hvort framkvæmd verksins sé í samræmi við útboðsgögn og samning við verktaka.
Tímalengd útboðsferils
Útboðsferli taka tíma. Hafa þarf nægilega langan tíma fyrir útboðsferlið og taka mið að umfangi og eðli verkefnisins. Algengt er að tími sem verktaka er gefinn til að hefja umfangsmikið verk sé mjög stuttur. Þetta skapar óvissu hjá bjóðendum um hvort þau nái að útvega á réttum tíma flutningatæki, ílát og gáma sem óskað er eftir. Verktaki sem þegar er með verkið fær talsvert forskot. Tímapressa getur hækkað tilboð sem berast. Gott er að birta tímaáætlun í útboðsgögnum til að bjóðendur hafi skýra yfirsýn. Í tímaáætlun má einnig birta verk sem á að framkvæma á samningstíma, ef verkefnið hefst ekki allt á sama tíma.
Taka þarf tillit til aðstæðna á mörkuðum og hvort útboð séu unnin á tíma þar sem afhending á vörum er almennt langur vegna sérstakra aðstæðna, t.d. heimsfaraldurs eða stríðsátaka. Dæmi eru um að það geti tekið allt að 6 mánuði að útvega gáma og allt að ár að fá nýja söfnunarbíla.
Innviðir og verkferlar
Góðar upplýsingar frá sveitarfélaginu skila betri og raunhæfari tilboðum. Lýsa þarf verkefninu þannig að skýrt er hvað er verið að bjóða út, hvaða aðstöðu er sveitarfélagið að bjóða væntanlegum verktaka, hvaða tunnur og ílát þarf bjóðandi að hafa tiltæk á ákveðnum tíma, hver er losunartíðni íláta, hvar á að losa, fjöldi djúpgáma, sérstök tæki sem þarf, t.d. tæki til þjöppunar, tæki til að tæma djúpgáma, ílát undir sérstakan eða hættulegan úrgang og svo framvegis.
Það getur verið kostur að hafa sveigjanleika í fjölda gáma. Innviðir í eigu sveitarfélaga eru í mörgum tilfellum söfnunarstöð og ílát við heimili. Þá eru grenndargámar og stærri gámar á söfnunarstöð boðnir út. Með þessu móti er hægt að hafa sveigjanleika eftir árstíðum og verktakinn er ábyrgur fyrir að hafa gámana tiltæka og í lagi. Ef íbúar geta valið ólíkar stærðir af ílátum þarf að ákveða hver heldur utan um lager.
Skipta má upp verkþáttum og bjóða í nokkrum smærri útboðum. Þá þarf að skoða hvort það tapist hagræði hjá þjónustuaðila af því að vinna verk saman, t.d. ef tök eru á að sækja nokkra úrgangsflokka á söfnunarstöð í sömu ferð.
Verkaskipting
Sveitarfélagið þarf að ákveða hvað þau ætla sjálf að gera t.d. varðandi þrif á svæðum, samskipti við íbúa, viðhald íláta eða skráning á fjölda ílát og talning íláta ef það á við. Ef verktaki á að sjá um verkefnin þarf það að koma fram í útboðsgögnum.
Ákveða þarf hvaða ferli kvartanir og ábendingar fara í og hvernig eigi að taka á erfiðum málum, t.d. ef rangt er flokkað eða aðgengi er erfitt.
Nákvæmni upplýsinga í útboðsgögnum
Það hjálpar verktaka að fá sem ítarlegastar upplýsingar frá verkkaupa. Til að fá sem nákvæmast boð þá er æskilegt að búið sé að mæla vegalengdir sem verktaki þarf að aka innan sveitarfélagsins til að framkvæma verkið. Tiltaka ætti hvort það sé fjarlægðarregla fyrir ílát, tröppuregla eða annað sem getur lækkað kostnað við söfnun.
Á söfnunarstöðvum getur verið hagræði í því að þjappa í gáma til að flytja sem mest í hverri ferð. Taka þarf fram hver sér um að útbúa stærri gáma til flutnings og hvernig. Þetta getur tengst því hvort boðið er í flutning miðað við þyngd eða miðað við ferð. Ef boðið er út miðað við ferð þá skiptir verktakann ekki máli hve mikið er í gámum.
Það ætti að forðast að bjóða út eitthvað sem er innifalið í öðrum lið útboðsins. Hafa þarf alla verkliði sýnilega á útboðsblaði. Útskýra þarf hvað átt er við með hverjum verklið útboðsins, þannig að verktaki viti hvað hann er að bjóða í varðandi hvern verklið.
Ráðstöfun úrgangsefna
Setja þarf fram góða skilgreiningu á ferli úrgangsefna, hvert á að losa ólíka efnisflokka og hvaða kostnaður skal innifalinn í tilboðsupphæð. Ef gerð er krafa um tiltekna ráðstöfun úrgangs þarf það að koma fram.
Útboðstafla
Útboðstafla sem bjóðendur fylla út er grunnur að tilboði í verkefnið. Útboðstafla þarf að vera skýr og þannig að hún verði ekki misskilin. Hafa þarf samræmi milli útboðsliða varðandi hvað á að bjóða í og að niðurstaðan úr hverjum lið sé ákveðin tala miðað við þá þjónustu sem beðið er um. Tilboð eiga að vera samanburðarhæf strax við opnun. Sem dæmi ef boðið er út ákveðið magn þá ætti að vera í útboðstöflunni margföldun til að fá út mánaðarlegan kostnað eða árlegan kostnað. Texti um hvað er verið að bjóða í þarf að vera skýrt fram settur í töflunni. Samræmi þarf að vera hvort verð séu með eða án virðisaukaskatts.
Eftirlit með kröfum í útboði og framkvæmd úrgangsþjónustu
Kaupandi þjónustu, sveitarfélagið, þarf að fylgjast með framkvæmd verksins. Það gerir það enginn annar. Sviksemisáhætta gagnvart verktaka snýr m.a. að því hvort verktaki framkvæmi verkið í samræmi við útboðsgögn og samninga við verkkaupa, en stytti sér ekki leið varðandi framkvæmdina. Eftirlit getur verið framkvæmt með reglulegum verkfundum með fyrirfram ákveðinni dagskrá þar sem báðir aðilar leggja fram gögn um stöðuna. Vettvangsskoðanir þar sem tæki, búnaður og aðstaða er skoðuð ættu að vera hluti af eftirliti. Taka þarf fram í útboðsgögnum hvernig eftirliti verður háttað og hvernig tekið verður á ágreiningi.
Ekki setja í útboðsskilmála kröfur nema ætlunin sé að standa við þær kröfur. Ef tekið er fram að gámar eigi að vera nýmálaðir við upphaf samningstíma þá þarf að fylgja því eftir. Verktakar sitja ekki við sama borð ef einn aðili hefur reiknað sitt boð eftir kröfum verkkaupa en annar ekki og treystir sá síðari á að kröfunni verði ekki fylgt eftir. Það getur munað talsverðu í verði að útvega nýmála gáma í upphafi verktíma. Reglulegir verkfundir geta verið vettvangur til að fara yfir slíkar kröfur.
Skil á gögnum
Taka þarf fram í útboðsskilmálum að verktaki eigi að skila til verkkaupa með reglulegum hætti gögnum um
t.d. tíðni söfnunar, magn hvers úrgangsflokks og ráðstöfun efnis. Þjónustuverktakar geta boðið upp á aðgengi verkkaupa að “mínum síðum” þar sem ýmsar upplýsingar er að finna. Tryggja þarf aðgang verkkaupa að upplýsingum með reglulegum hætti, að minnsta kosti mánaðarlega.
Skilagrein
Framsetning á skilagreinum getur verið hluti af útboðsgögnum og verksamning. Sveitarfélagið ákveður þannig sjálft hvernig reikningar eru fram settir þannig að þeir skiljist og nýtist í eftirlit með verkefninu. Í skilagrein sem stillt er upp í útboðsgögnum komi fram allir liðir sem sveitarfélagið vill að komi fram við uppgjör og best er ef útboðstafla og skilagrein séu samræmdar, þannig að bera megi saman verð sem boðin voru og raunverulegan kostnað við verkið.
Vísitölubinding
Samningar til nokkurra ára eru gjarnan með vísitölubindingu. Margar leiðir hafa verið notaðar í gegnum árin en vísitölur sem mæla vinnu við úrgangsþjónustu geta verið launavísitala fyrir launaliðinn og akstur og byggingarvísitala fyrir leigu á gámum og ílátum. Jafnvel má nota undirvísitölur, t.d. fyrir akstur. Taka þarf fram hve oft vísitala er uppfærð, t.d. árlega, ársfjórðungslega eða mánaðarlega.