Gagnaskil úrgangs: Söfnun og millimeðhöndlun

13. október 2025

Frá og með úrgangsgagnaskilum árið 2026 ber rekstraraðilum að skila inn gögnum um söfnun og millimeðhöndlun. Skil á gögnum fyrir lokameðhöndlun verða með svipuðum hætti og áður. Ástæður þessarar viðbótar eru eftirfarandi:

  • Aukin yfirsýn fyrir ríki og sveitarfélög yfir hvað verður til mikið af úrgangi, hvar hann myndast og af hvaða starfsemi, og geta fylgt úrganginum eftir alveg til lokameðhöndlunar.
  • Lagalegur grundvöllur: Meðhöndlunaraðilar úrgangs skila upplýsingum um magn og meðhöndlun úrgangs til Umhverfis- og orkustofnunar. Upplýsingum um söfnun og millimeðhöndlun hefur ekki verið safnað kerfisbundið fyrr en nú.
  • Gagnaskil til ESB: Íslandi ber skylda að skila árlegum upplýsingum um magn og meðhöndlun úrgangs til Eurostat (Evrópska Hagstofan) en þar eru gerðar kröfur um magn þess úrgangs sem myndast (e. generated waste), þ.e. magn söfnunar.

Orðskýringar

Söfnun: Það að safna úrgangi saman.
Dæmi: allt sem er safnað beint frá aðilum sem mynda úrganginn, hvort sem það er frá heimilum eða rekstraraðilum. Þetta á við um söfnun við heimili, fyrirtæki, grenndarstöðvar og móttökustöðvar þar sem þær eru fyrsta stopp úrgangsins.

Millimeðhöndlun: Öll meðhöndlun úrgangs sem telst hvorki vera söfnun né lokameðhöndlun.
Dæmi: geymsla, flokkun, böggun, flutningur (annar en söfnun) og pökkun.

Lokameðhöndlun: Öll meðhöndlun sem markar endastöð úrgangsins. Úrgangurinn er annað hvort endurnýttur eða honum fargað. Úrgangur sem sendur er úr landi skráist sem lokameðhöndlun.
Dæmi: endurvinnsla, orkuendurnýting, brennsla og urðun.

Mynd 1: Skýringarmynd með dæmum fyrir söfnun, millimeðhöndlun og lokameðhöndlun

Sjá nánar um skilgreininar á meðhöndlunarflokkum.

Hver ber ábyrgð á að skila gögnunum til Umhverfis- og orkustofnunar?

Söfnun:

Fyrstu aðilar sem koma að úrganginum, og búa hann ekki til, eiga að skrá söfnun.

Dæmi: Flutningsaðilar og verktakar sem sækja úrgang fyrir aðra rekstraraðila bera ábyrgð á að skrá söfnun, því það eru fyrstu aðilarnir sem koma að úrganginum.

Flutningsaðilar og verktakar geta samið við rekstraraðilann um að skrá söfnun, ef það hentar. Æskilegt er að tilkynna við gagnaskil ef skilað er fyrir aðra aðila.

Dæmi: Aðili A tæmir plasttunnuna við húsveggi og keyrir með á endurvinnslustöð

  • Aðili A: Söfnunaraðili
  • Endurvinnslustöð: Lokameðhöndlunaraðili

Millimeðhöndlun:

Millimeðhöndlunaraðilar eru þeir aðilar sem meðhöndla úrganginn á milli söfnunar og lokameðhöndlunar.

Millimeðhöndlun er t.d. geymsla, flokkun, böggun, flutningur (annar en söfnun) og pökkun.

Gagnasöfnun frá millimeðhöndlunaraðilum auðveldar rakningu úrgangs frá söfnun til lokameðhöndlunar.

Millimeðhöndlun sem á sér stað hjá söfnunaraðila eða lokameðhöndlunaraðila þarf ekki að skrá til Umhverfis- og orkustofnunar.

Dæmi: Aðili A tæmir plasttunnuna við húsveggi og keyrir með til aðila B. Aðili B flokkar óhreinindi frá plastinu og skilar til endurvinnslustöðvar.

  • Aðili A: Söfnunaraðili
  • Aðili B: Millimeðhöndlunaraðili
  • Endurvinnslustöð: Lokameðhöndlunaraðili

Ef aðili B hefði sjálfur sent úrganginn erlendis, þá þyrfti sá aðili bara að skrá lokameðhöndlun.

Lokameðhöndlun:

Aðilar sem sjá um endurvinnslu, endurnýtingu eða förgun úrgangs, eða senda úrganginn erlendis til meðhöndlunar.

Lokameðhöndlun er endastöð úrgangsins á Íslandi.

Aðilar sem sinna fleiri en einu hlutverki

Ef aðilar sinna fleiri en einu hlutverki, en með hlutverki er átt við söfnunar-, milli- eða lokameðhöndlunaraðila, þarf að skrá gögn fyrir hvert hlutverk. Þó með þeirri undantekningu að ekki þarf að skrá millimeðhöndlun ef aðilinn sinnir líka söfnun eða lokameðhöndlun.

Því er algengt að aðilar þurfi að tvískrá sinn úrgang, þ.e. að skrá bæði söfnun og lokameðhöndlun. Það er möguleiki að þurfa að skrá söfnun, millimeðhöndlun og lokameðhöndlun, en þá þyrfti viðkomandi aðili að sjá um söfnun og lokameðhöndlun, og taka við úrgangi frá öðrum söfnunaraðila og koma þeim úrgangi til annars lokameðhöndlunaraðila, og væri þ.a.l. líka millimeðhöndlunaraðili.

Aðilar sem meðhöndla eigin úrgang þurfa að skrá bæði söfnun og lokameðhöndlun, þar sem þeir aðilar eru bæði fyrsti aðilinn sem kemur að úrganginum og eru endastöð úrgangsins á Íslandi. Þetta er algengast í stórtækri framleiðslustarfsemi, þar sem úrgangurinn er sendur erlendis til meðhöndlunar.

Fleiri fréttir