Umhverfis- og orkustofnun minnir á mikilvægi þess að ganga vel frá flugeldarusli og flokka úrgang rétt að hátíðarhöldum loknum.

- Flugeldarusli á borð við skotkökur, tertur og rakettur á að skila í sértilgreinda gáma eða á móttökustöðvar, svo sem endurvinnslustöðvar.
- Ósprungna flugelda ber að meðhöndla sem spilliefni og skila á spilliefnamóttöku sem eru á móttökustöðvum.
- Stjörnuljós teljast til málma og skulu flokkuð sem slík.
- Rusl sem inniheldur ekkert púður fer í flokkunartunnur, til dæmis plastumbúðir og kassar utan af flugeldum.
Mikilvægt er að setja flugeldarusl ekki í flokkunartunnu fyrir pappaúrgang, þar sem snerting við flugeldaúrgang getur gert annan pappa óhæfan til endurvinnslu. Óuppsprungnir flugeldar geta verið hættulegir og ef minnsti vafi leikur á því hvort flugeldur sé alveg sprunginn, á að meðhöndla hann sem spilliefni.
Í mörgum sveitarfélögum verða sérstakir gámar fyrir flugeldaúrgang settir upp í byrjun janúar, svo íbúar geta losað sig við flugeldaruslið á öruggan og réttan hátt strax eftir áramót. Sveitarfélög veita nánari upplýsingar um staðsetningu gáma og móttökustöðva, auk þess sem þjónustuaðilar sorphirðu geta veitt frekari leiðbeiningar.
Á upplýsingasíðu stofnunarinnar er fjallað um áhrif flugelda á umhverfið. Rétt meðhöndlun flugeldarusls skiptir þar miklu máli, bæði til að draga úr mengun, til að koma í veg fyrir að leifar flugelda verði lýti í umhverfinu og til að tryggja öryggi.
Með því að flokka rétt og skila flugeldarusli á viðeigandi staði geta landsmenn lagt sitt af mörkum til að áramótahátíðin skilji eftir sig góðar minningar – en ekki rusl í umhverfinu.
Njótum hátíðanna, göngum frá eftir okkur og flokkum flugeldaúrgang rétt á nýju ári!
Upplýsingar nokkurra þjónustuaðila um það hvað beri að gera við flugeldaúrgang er að finna á eftirfarandi tenglum:
SORPA
Sorphirða Reykjavíkur
Terra
Kalka
Íslenska Gámafélagið
Kubbur