Flutningur úrgangs milli landa

Við flutning á úrgangi milli landa er að ýmsu að hyggja. Ekki er heimilt að flytja úrgang úr landi til förgunar, nema um sé að ræða spilliefni og þá þarf að afla tilskilinna leyfa. Annan úrgang en spilliefni er heimilt að flytja á milli landa til endurnýtingar og þá skal fylla út tilskilin eyðublöð.

Flutningur endurvinnsluefna - ekki hættulegur úrgangur

Meginkröfurnar fyrir útflutning á úrgangi sem ekki er hættulegur:
  • Úrgangurinn skal vera skilgreindur í grænu skránni skv. Viðauka III eða IIIA og þar með falla undir 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 1018/2006 um almennar upplýsingakröfur 
  • Sendingunni skal fylgja útfyllt Annex VII eyðublað.
  • Samningur skal vera í gildi milli þess sem stendur fyrir tilflutningnum og viðtakanda sem sér um endurnýtingu úrgangsins.
Útflutningur endurvinnsluefna til landa utan OECD

Lönd utan OECD, þ.e. landa sem falla ekki undir ákvörðun Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um eftirlit með flutningi úrgangs yfir landamæri, kunna að hafa strangari kröfur, svo sem um skriflega fyrirframtilkynningu og samþykki, eða innflutningsbann á ákveðnum tegundum úrgangs.

Kröfurnar eru breytilegar og mismunandi milli landa og sá sem annast tilflutninginn þarf að tryggja samræmi við nýjustu breytingar.

Nánari fyrirspurnir má senda beint til viðkomandi landa, sjá lista yfir tengiliði í viðtökulöndum

Sjá nánar:

Flutningur hættulegs úrgangs til förgunar eða endurnýtingar

Það fyrsta sem handhafi úrgangs eða varnings sem gæti verið úrgangur þarf að huga að, er hvort úrgangurinn eða varningurinn sé skilgreindur sem hættulegur, þ.e. spilliefni. Sú skilgreining er í REGLUGERÐ um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs nr. 1040/2016, þar sem stjörnumerktir úrgangsflokkar eru hættulegur úrgangur. 
Viðmið fyrir flutning á notuðum varningi sem ekki flokkast sem úrgangur má finna í þessum leiðbeiningum:

Yfirlit yfir Evrópuleiðbeiningar um flutning úrgangs

Flutningur ökutækja milli landa

1. Sótt um flutning á hættulegum úrgangi

Áður en sótt er um samþykki til flutnings á hættulegum úrgangi, þarf að vera búið að semja um viðtöku og úrvinnslu á úrganginum í viðtökulandinu. Þar næst þarf tilkynnandi að óska eftir að fá númer á fyrirhugaðan útflutning sem Umhverfisstofnun úthlutar. (IS XXX XXXXXX) Númerið er síðan notað á tilkynningu um flutning hættulegs úrgangs milli landa. Fullnægjandi umsóknargögn þurfa að innihalda:

  • Undirritun og útfyllt frumrit: ANNEX IA (tikynning) OG ANNEX IB (flutningsskjal). Til viðbótar við þessi eyðublöð getur þurft að gera viðauka við einstaka liði eyðublaðanna vegna plássleysis. Til dæmis geta þeir innihaldið frekari útskýringar á flutningaleið og tilgreint þau lönd þar sem komið er við á leiðinni á áfangastað (transitlönd), öryggisblöð (MSDS) vegna spilliefnanna sem flutt er eða frekari útskýringar á einhverjum hlutum á Annex IA.

  • Afrit samnings milli tilkynnanda og viðtakanda úrgangs um endurnýtingu eða förgun úrgangsins. Samningurinn skal vera í gildi á tilkynningartímanum og þar til endurnýtingar- eða förgunarstöðin hefur staðfest með vottorði (undirrituðu Annex IB) eigi síðar en einu almannaksári eftir afhendingu úrgangsins, að endurnýtingu eða förgun sé lokið.

  • Bankaábyrgð í frumriti (Performance bond). Bankaábyrgðinni er ætlað að greiða fyrir úrvinnslu úrgangsins ef eitthvað fer úrskeiðis. Ábyrgðin þarf að ná yfir í það minnsta úrvinnslu úrgangsins sem er í flutningsferlinu hverju sinni ásamt geymslu á honum í 90 daga. Bankaábyrgð þarf að gilda á meðan tilkynning til útflutnings er í gildi og auk þess í að minnsta kosti þrettán mánuði eftir að heimild til útflutnings rennur út. Til þess að áætla upphæð bankaábyrgðar skal styðjast við þessa reiknireglu.  

 
Þessi gögn skal senda Umhverfisstofnun sem sér um að senda gögnin til allra sem að málinu koma

 2. Staðfesting á að umsókn sé rétt gerð (Acknowledgement)

Staðfesting kemur frá yfirvaldi í móttökulandi eftir u.þ.b. 30 daga ef umsóknin er samþykkt. Stundum eru gerðar athugasemdir við gögn tilkynnanda, sem þarf að bregðast við.

3. Staðfesting á að umsókn um flutning sé samþykkt (Written consent to shipment)

Bæði viðtökuland og sendingarland þurfa að gefa staðfestingu og tilkynna öllum aðilum málsins ákvörðun sína áður en útflytjandi má hefja útflutning (written consent to shipment).

4. Sendingar hefjast

Þegar staðfesting liggur fyrir, getur útflutningur hafist. Hverri sendingu þarf að fylgja útfyllt eyðublað ANNEX 1b sem tengt er viðkomandi tilkynningu, þar sem fram kemur sendingardagur og magn þess úrgangs sem sent er hverju sinni og raðnúmer sendingar. Þetta þarf að senda með pdf skj.ali í tölvupósti með þriggja vinnudaga fyrirvara til yfirvalda beggja landa, móttakanda og allra yfirvalda þeirra landa þar sem komið er við á leiðinni á áfangastað. Þegar viðtakandi og úrvinnsluaðili tekur við sendingu á hann að senda staðfestingu þess efnis til yfirvalda. Þegar viðtakandi hefur endurunnið eða fargað viðkomandi úrgangi sendir hann staðfestingu þess efnis til sendanda úrgangs ásamt yfirvöldum í viðtöku- og sendingarlandi.

Gildistími tilkynninga

Tilkynningar gilda yfirleitt í eitt ár (geta verið upp í þrjú ár) og eru takmörkuð bæði af heildarmagni úrgangs og fjölda sendinga. Þetta þarf að hafa í huga þegar áætlaður er fjöldi sendinga og heildarmagn úrgangs í tilkynningu um flutning úrgangs milli landa.

Gjald vegna umsýslu tilkynninga um flutning milli landa

Umhverfisstofnun innheimtir gjald fyrir umsýslu tilkynninga og sendinga fyrir innflutning, útflutning og umflutning úrgangs, sbr. 29. gr. laga 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Sjá nánar í 9. gr. 535/2015 í uppfærðri gjaldskrá Umhverfisstofnunar.

Nánari leiðbeiningar

Leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar er að finna í VIÐAUKA IC við regulation (EC) 1013/2006. Íslensk þýðing er í reglugerð (EB) nr. 669/2008 um að ljúka við I. viðauka C við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um tilflutning úrgangs.

Eftirlit með flutningi úrgangs

Virkt eftirlit með flutningi úrgangs á milli landa er mikilvægt skref í að tryggja rétta meðhöndlun á þeim úrgangi sem fellur til í hverju landi fyrir sig og tryggja að með flutningnum sé ekki verið að flytja vandamál sem fylgja úrgangsmeðhöndlun til annarra landa. Um leið veitir eftirlitið úrgangsmeðhöndlunaraðilum aukið aðhald með það að markmiði að aðilar í iðnaðinum geri sér fulla grein fyrir þeirra ábyrgð.

Markmið eftirlitsins er að enginn ólöglegur flutningur úrgangs eigi sér stað til/frá Íslandi.

Tilgangur eftirlits með flutningi úrgangs milli landa er fyrst og fremst að tryggja eftirfylgni reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs sem var innleidd með reglugerð 822/2010 um flutning úrgangs á milli landa. Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 660/2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs, var svo aðildarríkjum Evrópusambandsins og löndum EES gert að sinna virku eftirliti með flutningi. Í breytingarreglugerðinni kemur fram að eftirlitið skuli fylgja eftirlitsáætlunum hver lands fyrir sig þar sem sett er niður skipulag eftirlits til þriggja ára í senn. Hér má finna eftirlitsáætlanir sem stofnunin hefur gefið út: 

Eftirlitsáætlun um flutning úrgangs milli landa 2021-2023

Eftirlitsáætlun um flutning úrgangs milli landa 2018 – 2020


Framkvæmd og skipulag eftirlits er sett fram í framkvæmdaráætlun sem Umhverfisstofnun setur saman fyrir hvert ár eftirlitstímabilsins. Framkvæmdaráætlunin er vinnuskjal stofnunarinnar. Í lok hvers árs er tekin saman skýrsla um framkvæmd eftirlitsins og niðurstöður. Skýrslur um niðurstöður síðustu ára má finna hér:


Niðurstöður eftirlits með flutningi úrgangs á milli landa 2021

Niðurstöður eftirlits með flutningi úrgangs á milli landa 2020

Niðurstöður eftirlits með flutningi úrgangs á milli landa 2019

Niðurstöður eftirlits með flutningi úrgangs á milli landa 2018