- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- uos@uos.is
- Virka daga: 09:00 - 15:00
- 591-2000
- ust@ust.is
Aðilum í mannvirkjageiranum er skylt að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang í spilliefni, timbur, steinefni, málma, gler, plast og gifs samkvæmt 10. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Flokkunin skal skal stuðla að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu. Betri meðferð þessa úrgangs getur jafnframt dregið úr losun óæskilegra efna út í vatn og jarðveg.
Nú þegar hvílir skylda á byggingaraðilum samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 að útbúa áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs áður en framkvæmd hefst þar sem koma skulu fram upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun úrgangs. Slíkri áætlun á að skila til sveitarfélaga með umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdir yfir ákveðinni stærð.
Núverandi landsmarkmið um flokkun byggingar- og niðurrifsúrgangs er 70% en markmiðið er í samræmi við markmið Rammatilskipunar Evrópusambandsins frá árinu 2008. Samkvæmt þessu skal 70% byggingar- og niðurrifsúrgangs fara í undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu eða aðra efnisendurnýtingu, þ.m.t. fyllingu svo lengi sem að úrgangurinn kemur í stað annars efnis sem ekki er úrgangur.
Í Vegvísi um vistvænni mannvirkjagerð, sem samstarfsvettvangurinn Byggjum grænni framtíð gaf út, eru tillögur um markmið fyrir árið 2030 þannig að 95% byggingar- og niðurrifsúrgangs fari í endurnýtingu og 5% í förgun. Einnig er tillaga um markmið um 30% samdrátt á byggingar- og niðurrifsúrgangi sem fellur til á hvern byggðan fermetra.