Belgía bannar einnota rafrettur

17. febrúar 2025

Notkun einnota rafrettna er ekki aðeins slæm fyrir heilsuna heldur einnig fyrir umhverfið því rafrettur innihalda einnota rafhlöður, plast og önnur hráefni sem geta valdið umhverfinu skaða ef þeim er ekki fargað á réttan hátt. Þann 1. janúar tók Belgía það skref að banna notkun einnota rafrettna í landinu og fyrirsjáanlegt er að fleiri lönd munu fylgja því fordæmi. Fjölnota rafrettur verða þó áfram leyfilegar.

Allar rafrettur innihalda rafhlöður en í þeim eru þungmálmar sem spilla umhverfinu ef þeir losna þangað út og rafhlöðum fylgir einnig töluverð eldhætta ef þær eru ekki flokkaðar rétt. Þegar notkunartími rafrettna er liðinn er best að fjarlægja rafhlöðuna úr rafrettunni ef það er hægt og flokka hana með rafhlöðum en setja rafrettuna sjálfa með raftækjum. Stundum er ekki hægt að fjarlægja rafhlöðuna úr einnota rafrettum og þá má flokka þær ýmist með raftækjum eða rafhlöðum. Rétt flokkun er mikilvæg til að hægt sé að nýta hráefnin í tækjunum áfram og koma í veg fyrir að efnin í þeim valdi umhverfinu skaða.

Almenna reglan er sú að við viljum forðast að nota einnota vörur þar sem fjölnota valkostir eru í boði og eru rafrettur engin undantekning, en rafrettur með áfyllingu eru mun umhverfisvænni kostur en einnota rafrettur. Með banninu vonast Belgía til þess að geta bætt auðlindanýtingu og koma í veg fyrir nýgengi reykinga án þess að skerða lífskjör almennings eða baka atvinnulífinu tjón.

Fleiri fréttir