Úrgangsþríhyrningurinn og hátíðarnar

11. desember 2024

Nú er desember genginn í garð og styttist óðfluga í jól og áramót. Á jólum sem og öðrum tímum er mikilvægt að hugsa um umhverfið. Úrgangsþríhyrningurinn segir til um forgangsröðun í úrgangsmálum, þar er mest áhersla lögð á að draga úr neyslu, þar á eftir að nýta hlutina lengur og endurnota, svo endurvinna og að lokum endurnýta eða farga. Eftirfarandi er samantekt á því hvernig hægt er að tengja hátíðarnar við úrgangsþríhyrninginn.

Jólin eru oft tími mikillar neyslu og útgjalda. Ef horft er til úrgangsþríhyrningsins er best fyrir umhverfið (og veskið) að draga úr óþarfa neyslu á jólum. Til dæmis að nýta hlutina vel, hugsa um gæði frekar en magn við jólagjafakaup, gefa notaðar jólagjafir, upplifanir eða matargjafir, vanda val á gjafapappír og skrauti og reyna að halda einnota vörum í lágmarki. Til dæmis er hægt að nýta gömul dagblöð sem jólapappír, föndra jólaskraut, nota margnota gjafaborða sem hægt er að gefa áfram ofl. Sama gildir um áramótin þar sem oft er notast við mikið af einnota skrauti, það er um að gera að föndra skraut eða nota sama skraut ár eftir ár. Einnig eru flugeldar mikill mengunarvaldur og best fyrir umhverfið að halda þeim í lágmarki.

Næst í forgangsröðuninni kemur undirbúningur fyrir endurnotkun. Endurnotkun á sér stað þegar vara er orðin að úrgangi og henni er gefið nýtt líf. Það getur annars vegar verið bein endurnotkun og hins vegar undirbúningur fyrir endurnotkun þar sem gert er við bilaðar vörur, endurbólstrun á sér stað eða annað slíkt. Dæmi um þetta er að gefa gamla gervijólatréð áfram til vinar eða í gegnum samfélagsmiðla, selja jólaskraut eða gefa á nytjamarkaði. Jólaskraut dettur sjaldnast úr tísku og má því oft nota það aftur og aftur þó það skipti um eiganda. Á Íslandi eru til alls konar nytjamarkaðir, sölusíður á netinu, hópar á samfélagsmiðlum, forrit og fleira til að selja notaðar vörur.

Þriðji forgangur í úrgangsþríhyrningnum er endurvinnsla. Það sem flokkað er á Íslandi og telst í nógum gæðum fer í endurvinnslufarveg. Það er lítið mál að flokka jafn óðum og gjafir eru opnaðar á aðfangadag með því að vera með einn poka fyrir pappír og annan fyrir almennt. Í flokkun felst mikill sparnaður á auðlindum og orku. Eftirfarandi eru leiðbeiningar um hvernig má flokka helsta jóla- og áramótaruslið.

Gjafapappír Gjafapappír flokkast sem pappír.
Pakkabönd úr plastiPlast gjafabönd flokkast sem plast.
Pakkabönd Tauböndin má nota aftur eða flokka sem textíl.
Merkimiðar samsettir úr pappír og pappaSamsettir merkimiðar flokkast sem blandaður úrgangur
Merkimiðar einungis úr pappírMerkimiðar flokkast sem pappír, passa þarf upp á að þeir séu einungis úr pappír en ekki samsettir með plastfilmu o.þ.h.
Gervijólatré vel fariðVel farin gervijólatré má setja í nytjagáma svo aðrir geti notið þeirra seinna
Gervijólatré ónýttGervijólatré eru flest með málmgrind, þar sem málmar eru mjög verðmætir flokkast þau sem slíkt
Lifandi jólatréLifandi jólatré flokkast sem garðaúrgangur. Skila á móttökustöðvar. Einnig bjóða ýmis íþróttafélög, skátafélög og aðrir upp á þjónustu að sækja jólatré heim gegn gjaldi.
Áramótaskraut úr plastiSkraut úr plasti flokkast sem plast, má fara með plastumbúðum.
Áramótahattar samsettir pappír og filma/plastSamsettir áramótahattar með glimmeri og plasti flokkast sem blandaður úrgangur
Áramótahattar úr einungis pappír Áramótahattar úr pappír flokkast sem pappír, muna að taka bandið af
FlugeldaruslFlugeldarusl afhendist sem blandaður grófur úrgangur. Skila á móttökustöð í sér gáma. Má ekki fara með almennum blönduðum úrgangi í heimilistunnur.
Flugeldar ósprungnir Ósprungnir flugeldar flokkast sem spilliefni. Skila á endurvinnslustöð.
Tafla yfir flokkun á helsta úrgangi frá hátíðunum

Á eftir endurvinnslu í forgangsröðun úrgangsþríhyrningsins eru önnur endurnýting og förgun. Það er í höndum úrgangsmeðhöndlunaraðila að tryggja að flokkuð endurvinnsluefni fari í réttan farveg og það sem ekki er hægt að endurnýta er ýmist sent í brennslu með orkunýtingu, brennslu án orkunýtingar eða urðun.

Fleiri fréttir