Skýrsla um stöðu Íslands gagnvart markmiðum í úrgangsmálum

8. nóvember 2024

Ísland þarf að spýta í lófana til að ná markmiðum sínum fyrir árið 2025 í úrgangsmálum. Þetta sýnir nýleg úttekt frá Eftirlitsstofnun EFTA sem gerð var á stöðu Íslands gagnvart þeim markmiðum landsins í úrgangsmálum sem snúa að heimilisúrgangi. Í úttektinni er miðað við tölfræði ársins 2021 en síðan þá hefur þó margt vatn runnið til sjávar. 

Staða gagnvart markmiðum

Samkvæmt skýrslunni er Ísland ekki á leiðinni að ná eftirfarandi markmiðum án frekari aðgerða: 

  1. Að 55% af öllum heimilisúrgangi verði undirbúin fyrir endurnotkun eða endurunnin árið 2025.  
    Staðan 2021: 26% 
    Staðan 2022: 23%. 

  2. Að 65% af öllum umbúðaúrgangi verði endurunnin árið 2025.  
    Staðan 2021: 45,6-49,8% (nákvæmt mat á tölfræðinni fer eftir mæliaðferð) 
    Staðan 2022: 42,1% (nákvæmt mat á tölfræðinni fer eftir mæliaðferð) 

  3. Að 70% glerumbúða verði endurunnin árið 2025. 
    Staðan 2021: 0,0% 
    Staðan 2022: 26%. 

  4. Að 70% stálumbúða verði endurunnin árið 2025.  
    Staðan 2021: 23,8% 
    Staðan 2022: 14%. 

  5. Að 50% plastumbúða verði endurunnin árið 2025.  
    Staðan 2021: 27,6% 
    Staðan 2022: 21%.

  6. Að minna en 10% af heimilisúrgangi fari í urðun árið 2035.  
    Staðan 2021: 39,8% 
    Staðan 2022: 33%.

Átakið Allan hringinn sneri að því að vekja athygli á breyttri og bættri flokkun um allt land.

Erum við á réttri braut?

Eins og sjá má að ofan er það breytilegt hvort Ísland komst nær eða fjær því að ná markmiðum sínum milli ára. Sum markmið eru þess eðlis að erfitt getur verið að safna nákvæmri og áreiðanlegri tölfræði, þá sérstaklega varðandi markmið um endurvinnslu stálumbúða. Á milli ára komst Ísland nær því að ná markmiðum sínum um endurvinnslu glerumbúða og að lágmarka urðun en gekk verr hvað varðar endurvinnslu stálumbúða og plastumbúða. Tvö markmið standa nokkurn veginn í stað á milli ára – endurvinnsla heimilisúrgangs og endurvinnsla umbúðaúrgangs. 

Skýrsluhöfundar nefna þrjár helstu orsakir fyrir því að Ísland sé ekki á leið að ná ofangreindum markmiðum. Í fyrsta lagi þurfi að bæta sérsöfnun úrgangs, sérstaklega lífúrgangs, textíls, plasts, málma og glers. Í öðru lagi þurfi að vera til staðar innviðir til að meðhöndla allan þann lífúrgang sem fellur til. Þriðja atriðið snýr að því að koma upp hvötum til þess að beina úrgangi í annan farveg en urðun, en skortur á hvötum er ein ríkasta ástæðan fyrir því hversu mikið er urðað á Íslandi. 

Hver Íslendingur henti 667 kílóum árið 2021 / Mynd: Anton Brink
Hver Íslendingur henti 667 kílóum árið 2021 / Mynd: Anton Brink

Hvað þarf að gerast til að Ísland nái markmiðum sínum?

Einnig eru í skýrslunni lagðar til þrjár aðgerðir sem höfundar ráðleggja Íslendingum að ráðast í. Sú fyrsta er að leggja mat á innviði til að meðhöndla lífúrgang og að sjá til þess að innviðir geti tekið á móti öllum þeim lífúrgangi sem fellur til bæði nú og í framtíðinni. Önnur tilmælin eru að leggja bann við urðun á lífbrjótanlegum úrgangi, en slíkt bann er fyrirætlað árið 2028. Síðustu tilmælin snúa að því að skoða möguleikann á refsiúrræðum fyrir þau sveitarfélög sem ekki ná að uppfylla markmið sín í úrgangsmálum. Ljóst er að öll þrjú tilmælin krefjast ríkrar samfélagslegrar umræðu og samvinnu verði þeim hrint í framkvæmd. 

Ýmislegt vel gert

Skýrsluhöfundar sjá sérstaklega tækifæri til að draga fram það sem vel er gert á Íslandi. Í því samhengi fjalla þeir um samræmdar flokkunarmerkingar sem innleiddar hafa verið á Íslandi ásamt hinum Norðurlöndunum. Merkingarnar er að finna á flestöllum úrgangsílátum auk þess sem framleiðendur hafa í síauknum mæli notað merkingarnar á pakkningar utan um vörur. Einnig benda þeir á þann styrk sem felst í útgáfu handbókar fyrir sveitarfélög í úrgangsmálum, en handbókin er birt hér á úrgangur.is og er í stöðugri uppfærslu eftir því sem regluverki vindur fram. 

Framtíðarhorfur Íslands

Þegar skýrslan var skrifuð var Ísland í upphafi þess ferlis að koma á samræmdri flokkun úrgangs um allt land og því er að vænta að árangur í úrgangsmálum batni frá og með árinu 2023, en gögn fyrir árið 2023 verða fullklárið með vorinu 2025. Ekki sé hægt að segja að útlitið sé svart en mikilvægt sé að Ísland fylgist vel með framvindu mála og meti árangurinn af þeim kerfum sem komið hefur verið upp. 

Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu í gegnum Fríverslunarsamning Evrópu (EFTA) og þarf þess vegna að standast sömu skuldbindingar í úrgangsmálum og önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins. Í skýrslunni er fjallað um stöðu EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein gagnvart þeim tölulegum markmiðum sem Evrópusambandið hefur sett um meðhöndlun úrgangs. Öll eiga þessi ríki nokkuð í land til að ná markmiðunum. 

Lesa má alla skýrsluna á vef Eftirlitsstofnunar Fríverslunarsamnings Evrópu: https://www.eftasurv.int/newsroom/updates/eea-efta-states-risk-missing-waste-targets

Fleiri fréttir