Vissir þú að um 80% af umhverfisáhrifum vöru eru ákvörðuð á hönnunarstiginu? Ný Evrópureglugerð sem tengist vistvænni hönnun setur kröfur á framleiðendur að huga meira að sjálfbærni í hönnunarferlinu á sínum vörum.

Markmið

Reglugerðin um vistvæna hönnun hefur nú þegar tekið gildi í Evrópusambandinu en er í skoðun hjá EES ríkjunum. Markmið reglugerðarinnar er að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfis í Evrópu, búa til hvata að sjálfbærum viðskiptamódelum og auka samkeppnishæfni Evrópska hagkerfisins. Með reglugerðinni vill Evrópusambandið gera sjálfbærari vörur að stærri hluta af daglegu lífi íbúa í Evrópu.

Vistvæn hönnun

Vörurnar sem við kaupum geta haft mikil áhrif, því er neysla og kauphegðun Evrópubúa mikilvæg fyrir umhverfið, loftslagsbreytingar og mengun. Neytendur geta þó aðeins haft áhrif með því að velja á milli þeirra kosta sem eru í boði eru hverju sinni. Það er því mikilvægt að framleiðendur og hönnuðir lágmarki umhverfisáhrif sinna vara með markvissum aðgerðum til að auðvelda neytendum að velja sjálfbæra vörukosti. Reglugerðin nær til margra vöruflokka, s.s. bíldekkja, textílvara, raftækja ofl.

Þeir þættir sem lagðir eru til í reglugerðinni um vistvæna hönnun á vörum eru:

  • Aukinn endingartími
  • Betri nýting á orku og auðlindum
  • Auðveldara að gera við vöruna
  • Auðveldara að taka í sundur og nota varhluti
  • Hönnun fyrir endurvinnslu
  • Hærra hlutfall endurvinnanlegra efna í vörunni
  • Skoðað verður val á skaðlegum efnum í vörum
  • Minni umhverfisáhrif yfir allan lífsferil vörunnar

Bannað að henda óseldum textílvörum

Eitt af því stærsta sem fylgir innleiðingu á þessari reglugerð er að bannað verður að henda óseldum textílvörum og skóm. Því miður hefur mikið af óseldum textíl verið hent í gegnum tíðina í Evrópu, með tilheyrandi umhverfisáhrifum og slæmri nýtingu auðlinda. Svipað bann gæti fylgt við því að henda vörum í öðrum vöruflokkum en textíl ef sýnt verður fram á að slíkt bann geti dregið úr sóun.

Stór fyrirtæki í öðrum geirum en textílgeiranum verða skyldug að sýna gögn á heimasíðum sínum um hversu mikið af óseldum vörum þau hafa hent á hverju ári, auk þess að tilgreina hvaða ástæður liggja þar að baki. Að lokum mun þetta ná til meðalstórra fyrirtækja að auki. Þetta mun án efa fá framleiðendur til að huga að skynsamlegri framleiðslu á sínum vörum og sporna gegn offramleiðslu.

Stafrænn vörupassi

Reglugerðin á einnig að auka gagnsæi fyrir neytendur um umhverfisáhrif og uppruna þeirra vara sem þeir kaupa. Það verður gert með starfænum vörupassa sem verður aðgengilegur neytendum. Þar geta neytendur séð helstu umhverfisáhrif, uppruna hráefna, efnasamsetningu og endurvinnsluhæfni vörunnar. Þetta mun auðvelda val á sjálfbærari kostum og auka skilning neytenda á umhverfisáhrifum sinnar neyslu.

Mikilvægi fyrir Ísland

Þrátt fyrir að reglugerðin um vistvæna hönnun hafi ekki enn verið innleidd á Íslandi er hún í skoðun hjá EES og gæti þar af leiðandi verið innleidd á næstu árum. Einnig er gott fyrir íslenska framleiðendur sem vilja selja á Evrópumarkaði að kynna sér reglugerðina. Þá væri líka kjörið tækifæri fyrir íslenska framleiðendur og innflutningsaðila að nýta upplýsingarnar í reglugerðinni og skoða hvernig hægt væri að gera þeirra vörur vistvænni.