87% íslenskra heimila flokka lífúrgang - Niðurstöður á könnun um heimajarðgerð

Eftir að nýju flokkunarlögin voru innleidd árið 2023 eru heimilin í landinu farin að flokka lífúrgang í auknum mæli. Heimajarðgerð verður einnig sífellt vinsælli á Íslandi. Umhverfisstofnun vildi meta umfang heimajarðgerðar á Íslandi og í september 2024 fengum við Gallup til að gera litla könnun um efnið. Markmiðið með verkefninu var að meta það hvernig lífúrgangur er flokkaður á íslenskum heimilum. Könnunin fól í sér eina spurningu: „Hvernig er lífúrgangur flokkaður á þínu heimili?„, og var þetta fjölvalsspurning með fimm svarmöguleikum. Könnunin var netkönnun með 1722 manna úrtaki og 49,5% svarhlutfalli. Þá var fjöldi svarenda 853 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri. 

Góðar fréttir fyrir umhverfið

Niðurstöður sýna að flest íslensk heimili flokka lífúrgang í lífrænu tunnuna eða heimajarðgerð, eða samanlagt um 87%. Með því að flokka lífúrgang í flokkunartunnu eða heimajarðgerð eru heimilin að stuðla að minni gróðurhúsalofttegundum af völdum urðunar. Af öllum úrgangsflokkunum frá heimilum veldur lífúrgangur mestum gróðurhúsalofttegundum við urðun. Því er markmið okkar að minnka urðun á þessum úrgangsflokki eins og auðið er. Enn eru 13% landsmanna sem flokka ekki lífúrgang miðað við þessa könnun, og því er enn rými til bætinga. 

Hvað er heimajarðgerð og lífúrgangur?
Áður en lengra er haldið í niðurstöður könnunarinnar rifjum við upp hvað er heimajarðgerð og lífúrgangur. 

Heimajarðgerð er ferli til að breyta lífúrgangi frá heimilum í næringarríkan jarðveg. Fólk sem stundar heimajarðgerð notar lífúrganginn sinn til moltugerðar. Moltuna má nota sem áburð í alls kyns ræktun, enda er hún full af næringarefnum. Til eru ýmsar aðferðir til heimajarðgerðar, t.d. loftháð jarðgerð, bokashi jarðgerð og ormamolta. Meira um heimajarðgerð, skilgreiningar og leiðbeiningar má sjá á vefnum okkar hér.

Lífúrgangur er lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla. Enska heitið er bio-waste.  Stundum er lífúrgangur kallaður lífrænn úrgangur í talmáli, sem er einnig rétt, því lífúrgangur er hluti af stærra mengi lífræns úrgangs. Undir lífrænan úrgang falla reyndar einnig sláturúrgangur ofl. sem telst ekki undir lífúrgang. 

Hvað gera íslensk heimili við lífúrgang?
Niðurstöður könnunarinnar sýna að 78% svarenda setja lífúrgang í lífræna tunnu sem sveitafélagið tæmir. Þá eru 4% sem setja allan lífúrgang í heimajarðgerð og önnur 5% sem setja lífúrgang ýmist í heimajarðgerð eða lífræna tunnu. Því eru 9% svarenda sem nota heimajarðgerð í heildina. Að lokum eru samanlagt 13% sem flokka ekki lífúrgang/setja lífúrgang með í blandaða tunnu.

 

Þessar niðurstöður sýna að íslensk heimili eru að standa sig vel í flokkun á lífúrgangi. Um 78% svarenda flokka í lífræna tunnu, 9% nota heimajarðgerð og 13% flokka ekki lífúrgang.

 

Einn af hverjum átta 60 ára og eldri með heimajarðgerð 

Marktækur munur var á aldri á niðurstöður könnunarinnar. Fleiri á aldrinum 70 ára og eldri stunda heimajarðgerð m.v. aðra aldurshópa. Þá voru yngstu hóparnir 18-39 ára líklegri til að flokka ekki lífúrgang. Þegar litið var á kyn og aldur voru 12% karla 60 ára og eldri með heimajarðgerð og 14% kvenna 60 ára og eldri.

Þegar horft er á fjölskyldutekjur var hæsti tekjuhópurinn (með fjölskyldutekjur 2 milljónir eða hærri) með hæst hlutfall svarenda sem stunduðu heimajarðgerð, eða 17%. Næst á eftir kemur tekjulægsti hópurinn (með fjölskyldutekjur lægri en 550 þúsund) með 16% svarenda sem stunduðu heimajarðgerð. 

Fleiri stunda heimajarðgerð á Vesturlandi

Á Vesturlandi/Vestfjörðum voru rúmlega 10% svarenda með heimajarðgerð, hæst af öllum landshlutum. Þó voru einnig samtals 35% sem flokkuðu ekki lífúrgang þar, einnig hæst hlutfall af öllum landshlutum. Á Suðurnesjum var lægst hlutfall svarenda með heimajarðgerð, þ.e. um 2%. Aftur á móti var hæst hlutfall svarenda á Suðurnesjum af öllum landshlutum með flokkun á lífúrgangi í lífræna tunnu, þ.e. 90%.

Á höfuðborgarsvæðinu voru um 8% með heimajarðgerð, 82% flokkuðu í lífræna tunnu og 10% flokkuðu ekki lífúrgang. Á myndinni hér til hliðar má sjá skiptingu í fleiri sveitarfélögum.

Ekki var marktækur munur á kynjunum né menntun í niðurstöðum könnunarinnar.