Bokashi jarðgerð

Bokashi er aðferð til að jarðgera lífrænt hráefni sem felst í gerjun í loftfirrtum aðstæðum. Það sem til þarf er bokashi-sett sem samanstendur af tveimur tunnum og örverum og svo að sjálfsögðu lífræna hráefnið sem á að jarðgera. Allt í allt getur það tekið svo lítið sem 5-6 vikur að fá næringarríka moltu sem er tilbúin til nýtingar.

Gerjun er hrint af stað með hjálp örvera sem samanstanda af mjólkursýrugerlum, ljóstillífunargerlum, gersveppum og ígulgerlum. Örverurnar má fá bæði í þurru formi þar sem þeim er stráð yfir lífrænt hráefni í hvert sinn sem bætt er á tunnuna, eða vökvaformi þar sem því er úðað úr úðabrúsa yfir hráefnið.

Það eru til margar gerðir af bokashi-tunnum og þær er bæði hægt að kaupa eða búa til sjálfur. Það sem allar bokashi-tunnur eiga sameiginlegt er að þær eru með fölskum botni/sigti sem síar niður vökva, krana til að tappa vökvanum af, og síðast en ekki síst loki sem lokast fast til að tryggja loftfirrtar aðstæður í tunnunni.

Vökvanum sem tappað er af í gerjunarferlinu má blanda við vatn í hlutföllunum 1:100-1:200 og nýta sem næringu á plöntur bæði innan- og utandyra.

Skipta má ferlinu í þrjú skref: söfnun, gerjun og niðurbrot. Söfnunin er skrefið þegar þú ert að fylla á tunnuna þína. Gerjunin er sá tími sem örverurnar gerja hráefnið. Niðurbrotið á sér stað eftir að gerjuðu hráefninu er blandað í jarðveg. Fyrstu tvö skrefin eiga sér stað innandyra þar sem örverurnar vinna best við 15-25 °C. Ferlið er svo gott sem lyktarlaust enda á gerjunin sér stað í loftþéttum tunnum. Að því sögðu kemur vissulega lykt úr henni þegar hún er opnuð og lífrænu hráefni er bætt í hana, en sú lykt er væg og minnir einna helst á edik. Þriðja skrefið er að blanda gerjuðu hráefninu í mold en þar á áframhaldandi niðurbrot sér stað.

Þegar þú hefur útvegað þér bokashi-tunnur og örverur ertu tilbúin/n til að hefjast handa.

1. skref : Söfnun

Byrjaðu á því að dreifa smá örverum yfir botninn á tunnunni, settu lífrænt hráefni í og settu annað lag af örverum yfir. Í hvert sinn sem þú fyllir á dreifirðu um 20 mL af örverum yfir yfirborðið á nýviðbættu hráefninu. Æskilegast er að þjappa hráefninu svolítið niður þegar fyllt er á, þetta hjálpar til við að tryggja að söfnunin sé loftfirrð og gerir þér kleift að safna meira magni af hráefni í hverja tunnu. Oft fylgir þjappa með keyptum tunnum en það má líka nota ýmis eldhúsverkfæri. Síðast lokarðu tunnunni fast til að tryggja að loft komist ekki inn í tunnuna.

Best er að bæta ekki oftar í tunnuna en einu sinni á dag til að hleypa ekki of miklu súrefni að örverunum. Þú getur t.d. safnað lífrænu hráefni í litla skál á eldhúsbekknum yfir daginn og fyllt svo á að kvöldi.

Á meðalstóru heimili má gera ráð fyrir að það taki um 2 vikur að fylla eina bokashi tunnu. Það getur að sjálfsögðu bæði tekið lengri og skemmri tíma eftir því hversu mikið af hráefni fellur til.

2. skref: Gerjun

Þegar tunnan er full leggur þú hana til hliðar í 2 vikur (í það minnsta) og fyllir næstu tunnu. Á þessum 2 vikum klára örverurnar að gerja það sem er í tunnunni. Það má taka fram að ásýnd hráefnisins hefur ekki breyst mikið eftir gerjun, enda hefst eiginlegt niðurbrot á því ekki fyrr en út í jarðveg er komið. Útlitið er smá eins og munurinn á gúrku (hráefnið fyrir gerjun) og súrri gúrku (hráefnið eftir gerjun).

Við gerjunina myndast vökvi í tunnunni sem sigtast niður í botninn og þú getur tappað af með reglulegu millibili. Mismikill vökvi myndast eftir því hvaða hráefni ratar í tunnuna og hann myndast mishratt. Vökvinn er stútfullur af næringarefnum og örverum og má nýta sem næringu bæði fyrir inni- og útiplöntur. Hann er býsna súr og því er best að blanda honum við vatn í hlutföllunum 1:100-1:200.

Búast má við því að þónokkur vökvi safnist fyrir í botninum og það sem ekki er nýtt sem næring fyrir plöntur má skola með vatni niður í niðurfallið.

3. skref: Niðurbrot

Að gerjun lokinni er kominn tími til að blanda gerjuðu hráefninu við mold en það er þar sem sjálft niðurbrotið á sér stað og jarðgerðin verður að næringarríkri moltu. Þetta má gera ýmist með því að grafa holu úti í garði (í smá fjarlægð frá plönturótum til að byrja með) eða blanda hráefninu 50/50 við mold í kassa. Það er gott að búa til einskonar lagköku þegar gerjuðu hráefninu og mold er blandað saman.

Niðurbrotið tekur mislangan tíma eftir því hvaða árstími er. Á sumrin getur það tekið svo lítið sem tvær vikur fyrir moltuna að vera tilbúna til nýtingar, en á veturna tekur það lengri tíma. Þessar tvær vikur eru fyrst og fremst tími þar sem sýrustig gerjaða hráefnisins verður jafnara. Að þessum tíma loknum getur þú strax nýtt moltuna, jafnvel þó hráefnið sé ekki búið að brotna niður til fulls. Plönturnar og örverurnar sem lifa í samlífi með þeim í jarðveginum er nefnilega alveg sama hvort næringin þeirra líti enn örlítið út eins og banani eða eplakjarni og niðurbrotið heldur áfram þegar í jarðveg er komið.

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að mýs, rottur og önnur dýr sæki í jarðgerðina þegar hún er komin út. Þetta er vegna þess að hráefnið svo súrt að gerjun lokinni að dýr hafa engan áhuga á því.

Það má setja svo gott sem allt grænt hráefni í bokashi jarðgerð. Þar með talið:

  • kjöt
  • fisk
  • lítil bein
  • eggaskurn
  • sítrusávexti
  • kaffikorg
  • kaffisíur og tepoka

 

Það sem er ekki æskilegt að setja í bokashi jarðgerð er:

  • mikill vökvi og olía
  • mjög myglaður matur
  • maíspokar og umbúðir úr lífplasti (PLA-plast)
  • hunda- og kattasandur

Það er tiltölulega lítið mál að huga að bokashi jarðgerð og örverurnar eru fljótar að “segja þér” ef eitthvað hefur farið úrskeiðis.

Þú veist að allt er í góðu lagi ef:

  • lyktin er lítil eða súr (smá eins og edik) þegar þú opnar tunnuna til að fylla á hana
  • hvít mygla eða sveppaþræðir fara að myndast í gerjuðu hráefninu
  • engin mygla myndast í gerjuðu hráefninu
  • vökvi safnast fyrir í botninum á tunnunni (vökvinn segir ekkert til um hversu vel gerjunin gengur)

 

Eitthvað hefur farið úrskeiðis ef:

Mikil og vond lykt er af hráefninu í tunnunni. Þá er best að bæta slatta af örverum við hráefnið, hræra því saman og þjappa mjög vel. Einnig getur verið gott að athuga hvort lyktin stafi mögulega af því að mikill vökvi hefur safnast fyrir í botninum og tappa honum af, en hann er almennt aðeins lyktarmeiri en hráefnið sjálft.

Tunnan fer að tútna út. Þetta er merki um að loft er í tunnunni. Þá er best að bæta slatta af örverum við hráefnið, hræra því saman og þjappa mjög vel.

Dökk eða græn mygla fer að myndast í hráefninu. Þá er best að bæta við slatta af örverum, þjappa vel og loka.

Það er gott að skera hráefnið niður í minni bita áður en það fer í tunnuna. Það gefur örverunum meira yfirborðsflatarmál og auðveldar gerjunina auk þess sem það flýtir niðurbrotinu á gerjuðu hráefninu þegar því er blandað við mold.

Til að tryggja að ekki komist mikið loft í tunnuna, sérstaklega á meðan þú ert enn að fylla á hana, getur verið gott að láta plastpoka liggja ofan á yfirborðinu. Plastpokann má nota aftur og aftur (enda tekur hann 100+ ár að brotna niður). Það getur líka verið þægilegt að nota plastpokann til að þjappa niður hráefninu þegar meiru er bætt í tunnuna.

Sumir safna vökvanum í flöskur og frysta yfir veturinn til nýtingar úti í garði eða á pottablóm þegar vora tekur. Vökvinn geymist ekki vel í stofuhita eftir að honum hefur verið tappað af, svo ef þú hyggst ekki nota hann strax eða frysta er best að skola honum niður í vask eða klósett – sagan segir að örverurnar geti reynst ágætlega í að losa minniháttar stíflur í niðurföllum.

Stundum myndast eitthvað af hvítri myglu í tunnunni eða í niðurbrotinu. Þetta eru sveppþræðir og gegna mikilvægu hlutverki í lífkerfi jarðvegsins, svo það er bara gott að koma auga á þá. Dökk eða græn mygla er hins vegar ekki æskileg í tunnunni en yfirleitt er hægt að bæta úr því með því að strá yfir aukalega af örverum þar sem dökka myglan er.

Búir þú í fjölbýlishúsi eða hefur ekki aðgang að garði til að blanda gerjuðu hráefni í mold má gera það í stærri dall eða kassa úti á svölum eða í kjallara/geymslu. Sé kassinn geymdur úti er ágætt að hafa nokkur göt í botninum á honum svo rigningarvatn safnist ekki fyrir í honum. Sé kassinn geymdur inni er ágætt að hafa hann lokaðan. Hvort sem gerjuðu hráefni er komið fyrir í holu eða kassa og hvort sem hann er inni eða úti er ætíð mikilvægt að blanda gerjaða efninu við mold svo að niðurbrotið gangi vel.

Á veturna þegar jörðin er frosin getur reynst áskorun að blanda gerjuðu hráefninu við mold. Þá er gott ráð að blanda því í kassa og nota mold sem ekki er frosin. Það er hægt að útvega sér ófrosna mold í s.s. Byko, Garðheimum og Blómavali. En það má líka undirbúa komandi vetur og moka smá mold í poka að hausti og geyma inni í geymslu eða bílskúr þar til þú hyggst nýta hana.

Bokashi jarðgerð er ákjósanlegur kostur ef:

  • þú hefur aðgang að garði með moldarbeði eða pláss fyrir jarðgerðarkassa
  • þú hefur aðgang að svölum eða geymslu/bílskúr/kjallara (hafir þú ekki aðgang að garði)
  • þú hyggst mestmegnis jarðgera græn hráefni (s.s. matarleifar, laufblöð og nýslegið gras)
  • þig langar að jarðgera kjöt- og fiskafganga sem falla til á heimilinu
  • þú ert með mikið af pottaplöntum sem þig langar að nýta bokashi-vökvann sem næringu fyrir

 

Bokashi jarðgerð er ekki ákjósanlegur kostur ef:

  • þú hefur ekki pláss fyrir bokashi tunnur inni á heimilinu þar sem fyrstu tvö skrefin þurfa að eiga sér stað
  • þú hefur ekki aðgang að garði, svölum né geymslu/kjallara/bílskúr

Loftháð jarðgerð

Bokashi jarðgerð

Ormamolta