Markmiðið með réttri meðhöndlun úrgangs er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með bættri auðlindanotkun, að úrgangsstjórnun sé markviss og hagkvæm og að handhafar úrgangs greiði kostnaðinn við meðhöndlun hans. Rétt meðhöndlun úrgangs kemur einnig í veg fyrir að hætta myndist fyrir heilbrigði manna og dýra og að óþægindi skapist vegna hávaða, ólyktar og sjónrænna áhrifa.
Í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, eru sett markmið fyrir meðhöndlun ólíkra úrgangstegunda. Annars vegar eru markmið sem hvert sveitarfélag skal ná innan síns svæðis og hins vegar landsmarkmið, þar sem sveitarfélög hafa tiltekið hlutverk.
Markmið sveitarfélaga
Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná settum tölulegum markmiðum fyrir endurvinnslu og urðun heimilisúrgangs sem og lífræns úrgangs frá heimilum annars vegar og rekstraraðilum hins vegar. Sveitarfélög skulu sjálf setja sér markmið varðandi úrgangsforvarnir.
Endurvinnsla heimilisúrgangs: Markmið fyrir árið 2020 var 50% endurvinnsluhlutfall. Það fer svo hækkandi í þrepum og er 55% árið 2025, 60% árið 2030 og 65% árið 2035. Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná markmiðunum innan síns svæðis.
Urðun heimilisúrgangs: Sett er markmið um að urðað verði að hámarki 10% af heimilisúrgangi árið 2035. Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná markmiðinu innan síns svæðis.
Lífrænn úrgangur: Markmið er að lífrænn úrgangur sem berst til urðunarstaða minnki niður í 35% af heildarmagni þess magns sem féll til árið 1995 innan hvers sveitarfélags, annars vegar fyrir heimilisúrgang og hins vegar rekstrarúrgang. Þessu markmiði áttu sveitarfélög að ná árið 2020 og gera grein fyrir því í svæðisáætlun sinni.
Hlutfall fasts gjalds við innheimtu: Sveitarfélögum er heimilt að innheimta 50% af heildarkostnaði við meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til ársins 2025 en 25% eftir það.
Landsmarkmið
Í gildi eru eftirfarandi töluleg markmið yfir landið allt:
Byggingar- og niðurrifsúrgangur: Um byggingar- og niðurrifsúrgang gilda tvö markmið sem eru innihaldslega svipuð. Hið fyrra er að 70% af byggingar- og niðurrifsúrgangi skuli flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar áður en honum er skilað á viðurkennda móttökustöð. Hið seinna er að að lágmarki 70% byggingar- og niðurrifsúrgangs, að undanskildum náttúrulegum efniviði, skuli vera endurnýtt. Hvorugt þessara markmiða gildir fyrir einstök sveitarfélög heldur beinist það fyrra fyrst og fremst að úrgangshafanum en hið seinna er landsmarkmið. Ábyrgð sveitarfélaga felst í því að stuðla að því að þessi markmið náist því þau fara með stjórn úrgangsmála á sínu svæði og eiga að sjá til þess að fyrirkomulag söfnunar sé með þeim hætti að markmiðin náist.
Rafhlöðu– og rafgeymaúrgangur, raf– og rafeindatækjaúrgangur: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu í samræmi við framlengda framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að til staðar sé aðstaða til að safna þessum úrgangsflokkum sérstaklega.
Ökutæki: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu ökutækja í samræmi við framlengda framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að útvega aðstöðu eða útvista móttöku á úr sér gengnum ökutækjum.
Umbúðaúrgangur: Ábyrgð á umbúðaúrgangi sem til fellur á heimilum og lögaðilum skiptist á milli sveitarstjórna, Úrvinnslusjóðs og Endurvinnslunnar hf. Úrvinnslusjóður skal ná tölulegum markmiðum á landsvísu um söfnun og endurvinnslu á umbúðum og vörum á ábyrgð sjóðsins. Sveitarstjórnir skulu sjá til þess að umbúðaúrganginum sé safnað og hann fluttur til endurnýtingar fremur en til förgunar. Það er hlutverk Úrvinnslusjóðs að ná tölulegum markmiðum á landsvísu um umbúðir úr plasti, pappa, pappír, gleri, málmum og viði en Endurvinnslunnar hf. að ná markmiðum um skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir.
Markmið fyrir endurnýtingu umbúðaúrgangs er að lágmarki 60%. Sett er markmið um 65% endurvinnslu árið 2025 og 70% endurvinnslu árið 2030. Til viðbótar eru sérstök markmið fyrir ólíkar tegundir umbúða, þ.e. plast, gler, pappír, pappa, málma og viðarumbúðir.
Ábyrgð á að ná markmiðum varðandi umbúðaúrgang skiptist þannig:
- Endurvinnslan hf.: Skilagjaldsskyldar drykkjarumbúðir.
- Úrvinnslusjóður: Umbúðir sem bera úrvinnslugjald, þ.e.a.s. umbúðir úr plasti, pappír og pappa, gleri, málmum og viði. Til viðarumbúða teljast til dæmis timburpallettur.
- Sveitarfélög: Aðrar umbúðir sem teljast heimilisúrgangur óháð því hvort hann á uppruna sinn á heimilum eða hjá lögaðilum.
