Síðast uppfærð þann 17.03.2025

Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga er unnin á grunni aðgerða sem tilgreindar eru í stefnu umhverfis-, orku og loftslagsráðherra í úrgangsmálum – Í átt að hringrásarhagkerfi, sem gefin var út árið 2021 og byggir á 5. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfis- og orkustofnunar.

Í handbókinni er fjallað um leiðir að markvissri og bættri úrgangsstjórnun sveitarfélaga í samræmi við markmið sem sett hafa verið í tengslum við innleiðingu hringrásarhagkerfis. Farið er yfir skyldur sveitarfélaga í málaflokknum og ýmis úrræði sem þau hafa heimild til að beita.

Úrgangur kemur fyrir víða í íslenskri löggjöf en segja má að meginlöggjöfin sé lög um meðhöndlun úrgangs, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um úrvinnslugjald auk reglugerða sem á þeim byggja. Mikilvæg ákvæði um úrgang er einnig að finna í öðru regluverki, til dæmis reglugerðum um aukaafurðir dýra, fráveitur og skólp og byggingarreglugerð. Yfirlit yfir helstu lög og reglugerðir eru í viðauka 4.

Meginstef í úrgangsmálum er mengunarbótareglan (e. polluter pays principle) sem kveður á um að sá sem veldur mengun skuli að jafnaði bera þann kostnað sem hlýst af henni. Þessi regla hefur mótað ýmis kerfi úrgangsmálanna, svo sem lagalegar kvaðir sveitarfélaga, skyldur handhafa úrgangs, kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar, starfsemi Úrvinnslusjóðs og eftirlitsstofnana og hvernig sveitarfélög móta sínar gjaldskrár.

Handbókin byggir á ákvæðum laga og reglugerða og er haldið uppfærðri eftir því sem lög og reglugerðir sem tengjast úrgangsmálum breytast. Í handbókinni er meðal annars fjallað um þær umfangsmiklu lagabreytingar sem samþykktar voru á Alþingi í júní 2021 sem komu flestar til framkvæmda 1. janúar 2023, sbr. breytingalög nr. 103/2021, og reglugerðir sem hafa verið uppfærðar í kjölfarið.

Í handbókinni eru sett fram dæmi um aðgerðir sem sveitarfélög geta ráðist í til að bæta úrgangsmeðhöndlun, efla hringrásarhagkerfið og bregðast við áskorunum sem upp koma. Aðgerðirnar geta verið hluti af svæðisáætlunum, samþykktum og gjaldskrám sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs eða hluti af innviðauppbyggingu á þeirra vegum.

„Miðað við núverandi stöðu Íslands gagnvart þeim tölulegu markmiðum sem sett hafa verið um samdrátt í urðun og aukna endurvinnslu heimilisúrgangs má ljóst vera að þessum markmiðum verður ekki náð nema með því að breyta sorphirðu.“

Stefna ráðherra í úrgangsmálum – Í átt að hringrásarhagkerfi, 2021