Sveitarstjórn setur sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu þar sem tilgreind eru atriði umfram það sem greinir í lögum og reglugerðum. Í samþykkt er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu íbúa og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði. Sveitarfélög skulu útfæra nánara fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs. Samþykktin skal taka mið af svæðisáætlun sveitarfélagsins.

Samþykkt getur kveðið á um til hvaða meðhöndlunar úrgangur skal færður, annaðhvort beint til endurnýtingar eða í söfnunar- eða móttökustöð, og þaðan til endurnýtingar eða förgunar.

Sniðmátið er sett þannig fram að fyrst er dæmi um einfalda uppsetningu á samþykkt og hvaða efnisgreinar geta verið í henni. Síðan fylgir listi af atriðum sem geta verið í samþykktinni og fer það eftir aðstæðum og ákvörðunum sveitarfélagsins hvað á við á hverjum stað.

Sniðmátið er dæmi um framsetningu samþykktar en ekki það sem er skylda að komi fram í samþykktum. Rauður texti eru atriði sem setja þarf inn miðað við aðstæður hverju sinni.


SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs – dæmi um framsetningu

1. grein
Markmið

Markmið samþykktar þessarar er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu [nafn sveitarfélags] valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðla að endurnotkun og endurnýtingu og að sveitarfélagið nái settum tölulegum markmiðum fyrir endurnýtingu og urðun úrgangs frá heimilum og rekstraraðilum. Jafnframt er markmiðið að tryggja góða þjónustu við íbúa og vinnuvernd starfsfólks. Horft verður til úrgangsþríhyrningsins í meðhöndlun úrgangs, áhersla lögð á úrgangsforvarnir og mengunarbótareglan höfð að leiðarljósi við ákvörðun gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs.

2. grein
Gildissvið

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. gildissvið laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sem fellur til hjá íbúum og lögaðilum í [nafn sveitarfélags], þ.m.t. við hirðu, söfnun og meðhöndlun úrgangs.

3. grein
Umsjón og eftirlit

[Það svið sem sér um úrgangsmál sveitarfélagsins] fer með ákvörðunarvald í málefnum er varða meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar. [Sviðið] fer með daglega yfirstjórn mála þessara samkvæmt samþykkt þessari.

Heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins [nafn sveitarfélags] hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs skv. 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 með síðari breytingum og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum og að farið sé að samþykkt þessari.

4. grein
Almenn ákvæði

Meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu [nafn sveitarfélags] skal vera samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs.

Sveitarfélagið ákveður fyrirkomulag söfnunar á úrgangi í sveitarfélaginu, ber ábyrgð á sérstakri söfnun, reglulegri tæmingu sorpíláta, flutningi heimilisúrgangs og annarri meðhöndlun úrgangs á sínu svæði og samskiptum við þá aðila sem tengjast þeim viðfangsefnum. Sveitarfélagið getur sinnt sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á eigin vegum og er heimilt að fela öðrum framkvæmd söfnunar á úrgangi, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva og meðhöndlun úrgangs. Þjónustuverktakar skulu hafa skráð rekstur sinn hjá heilbrigðisnefnd, hafa hlotið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti eða frá Umhverfis- og orkustofnun eftir því sem við á.

Gæta skal þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi og að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru og við eiga, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar í samræmi við forgangsröðun úrgangsþríhyrningsins.

5. grein
Skilgreiningar [þessari grein má auðveldlega sleppa]

Í samþykkt þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

[Listi yfir skilgreiningar]

6. grein
Söfnun heimilisúrgangs

[Hér er lýst hvernig söfnun fer fram, hvaða réttindi íbúar og lögaðilar hafa og hvaða skyldur þeir hafa varðandi aðbúnað, frágang og annað sem máli skiptir. Eftir því sem við á er fjallað um fyrirkomulag söfnunar við heimili, hvort og hvernig útfæra megi sameiginlega söfnun fyrir aðliggjandi lóðir, söfnunar hjá lögaðilum (og hvort slík þjónusta sé veitt af sveitarfélaginu eða þjónustuaðilum), grenndar-, söfnunar- og/eða móttökustöðvar, klippikort, dreifbýli, frístundahús, lögbýli og fleira.]

[Einnig getur sveitarfélag kveðið á um meðhöndlun úrgangs sem fellur til í eigin rekstri eða stofnunum. Hafa þarf í huga að sveitarfélög eru ábyrg fyrir reglulegri tæmingu íláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum og lögaðilum á viðkomandi svæði en það takmarkar þó ekki möguleika lögaðila til að gera beinan samning við verktaka um þá þjónustu.]

7. grein
Rekstrarúrgangur

Rekstraraðilar skulu sjálfir sjá um að koma úrgangi sem fellur til við reksturinn í viðeigandi meðhöndlun samkvæmt forgangsröðun 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Rekstraraðilar skulu fylgja kröfum sem gerðar eru um flokkun tiltekinna úrgangsflokka og eftir því sem við á kröfum um sorpgerði og geymslur. Óheimilt er að geyma rekstrarúrgang á lóðum lengur en nauðsyn getur talið.

[Önnur atriði er varða lögaðila, t.d. um byggingar- og niðurrifsúrgang, hvaða réttindi lögaðilar hafa og hvaða skyldur þeir hafa varðandi aðbúnað og frágang og annað sem máli skiptir.]

8. grein
Flokkun úrgangs

Sú skylda hvílir á handhafa úrgangs, hvort sem það er sá sem úrgangurinn fellur til hjá eða sá sem hefur hann undir höndum, að færa úrganginn til viðeigandi meðhöndlunar, annað hvort beint til endurnýtingar eða á grenndar-, söfnunar– eða móttökustöð. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilis og rekstrarúrgang í samræmi við reglur um sérstaka söfnun.

[Hér koma nánari ákvæði um fyrirkomulag sérstakrar söfnunar og heimildir sem sveitarfélagið ákveður að nýta þegar ekki er rétt flokkað.]

9. grein
Geymslur og gerði fyrir söfnun úrgangs

Sveitarfélagið leggur til sorpílát við heimili. Ganga skal þannig frá ílátum, geymslum og gerðum að þau valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þau hreinsuð reglulega. Geymslur og gerði má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

[Hér koma nánari ákvæði um ílát og staðsetningu þeirra, úrgangsgeymslur og gáma, gáma á yfirborði, djúpgáma.]

10. grein
Grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar

Grenndarstöðvar taka á móti flokkuðum úrgangi frá íbúum. Lögaðilar geta farið með sinn úrgang á söfnunar- og móttökustöðvar gegn gjaldi.

[Hér koma nánari ákvæði um grenndar-, söfnunar og móttökustöðvar, hvernig rekstri er háttað og fleira sem máli skiptir.]

11. grein
Umgengni á almannafæri

Óheimilt er að skilja úrgang eftir á víðavangi, götum eða gangstéttum eða opnum svæðum. Sama á við um númerslausa bíla, úr sér gengin ökutæki og sambærilega hluti.

12. grein
Heimildir til undanþágu

[Hér koma heimildir til að sækja um undanþágur ef við á, í hvaða ferli þær fara og hvaða takmarkanir eiga við.]

13. grein
Gjaldtaka

[Hér koma ákvæði um gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs. Athugið að hluti gjaldtökunnar fer fram í gegnum gjaldskrá hafna.]

14. grein
Kvartanir, ábendingar og kærur

[Hér koma upplýsingar um hvert kvartanir og ábendingar eigi að berast og í hvaða ferli kvartanir, kærur og ábendingar skulu fara.]

15. grein
Viðurlög

Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 68. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

16. grein
Gildistaka

Samþykkt þessi er samþykkt af sveitarstjórn [nafn sveitarfélags] og staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. [númer samþykktar og nafn sveitarfélags], um meðhöndlun úrgangs í [nafn sveitarfélags].