Magn úrgangs
Unnin er greining á fyrirliggjandi upplýsingum um úrgangsstrauma á svæðinu og lagt mat á þróun til framtíðar. Umhverfis- og orkustofnun annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs eftir sveitarfélögum og getur liðsinnt við greininguna. Greiningin gefur upplýsingar um eftirfarandi þætti:
- Yfirlit yfir tegundir, magn og uppruna úrgangs sem verður til innan svæðisins.
- Hvaða úrgangur er líklegt að verði fluttur frá svæðinu eða til meðhöndlunar innan svæðis.
- Mat á þróun á magni og straumum úrgangs í framtíðinni.
Með tegundum og uppruna úrgangs er átt við allan þann úrgang sem til fellur á svæðinu. Þetta er óháð því hjá hvaða aðila úrgangurinn fellur til eða hver sér um söfnun, meðhöndlun eða flutning úrgangsins til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar eða förgunar. Þannig er reynt að ná utan um úrgang sem er safnað við heimili, úrgang frá atvinnurekstri og efni sem kemur á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þeir aðilar sem koma að söfnun og meðhöndlun geta verið sveitarfélögin sjálf, lögaðilar sem eru með samning við sveitarfélög, sem og fyrirtæki og samtök sem safna textíl eða einnota drykkjarumbúðum.
Farið er yfir greininguna og metið hvort markmið hafi náðst og hver árangur núverandi kerfis er. Mælt er með því að greina að lágmarki eftirfarandi úrgangsflokka, í ljósi markmiða sem ná skal.

Meðhöndlun úrgangs
- Hér er lýst fyrirkomulagi meðhöndlunar úrgangs þar sem fram kemur eftirfarandi:
- Greining á söfnunarkerfum og hvernig þau ná utan um sérstaka söfnun, bæði landfræðilega og fyrir viðeigandi úrgangsflokka.
- Hvort óskað hafi verið eftir undanþágu frá sérstakri söfnun.
- Mikilvægar endurvinnslu- og nýtingarstöðvar og förgunarstaðir.
- Fyrirkomulag vegna söfnunar úrgangs sem sérstakar reglur gilda um.
Með söfnunarkerfum er átt við hvernig heimilisúrgangi er safnað frá heimilum og fyrirtækjum. Skýrt er frá því hvaða úrgangur er sóttur heim og hvaða úrgangi er safnað á grenndar- og söfnunarstöðvum. Skoðað er hvernig fyrirkomulagið er fyrir sérstaka söfnun og hvort í gildi sé undanþága frá sérstakri söfnun.
Gerð er grein fyrir úrgangsstraumum sem sveitarfélög bera ábyrgð á, annars vegar heimilisúrgangi og hins vegar rekstrarúrgangi.
Með heimilisúrgangi er átt við blandaðan og sérsafnaðan úrgang frá heimilum, sem og blandaðan úrgang og sérsafnaðan úrgang af öðrum uppruna, t.d. frá lögaðilum, sem er svipaður að eðli og samsetningu úrgangs frá heimilum. Þetta þýðir að heimilisúrgangur fellur ekki eingöngu til á heimilum. Samskonar úrgangur getur fallið til hjá fyrirtækjum og stofnunum, t.d. eldhúsúrgangur frá kaffistofum og mötuneytum.
Rekstrarúrgangur er úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun, landbúnaði, skógrækt, fiskvinnslu, rotþróm, fráveitukerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur.
Skylt er að safna með sérstakri söfnun pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum á eftirfarandi hátt:
- Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram innan lóðar við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Þó er heimilt að hafa sameiginlega söfnun úrgangs fyrir aðliggjandi lóðir að því tilskildu að öll söfnun úrgangs færist af viðkomandi lóðum. Heimilt er að víkja frá ákvæði um söfnun innan lóðar þegar um er að ræða rúmfrekan úrgang, svo sem garðaúrgang, sem safnað er á söfnunar- eða móttökustöð.
- Sérstök söfnun á gleri, málmum og textíl getur verið á grenndarstöðvum, að því tilskildu að markmiðum um söfnun náist, þ.m.t. töluleg markmið.
- Sérstök söfnun á spilliefnum skal fara fram í nærumhverfi íbúa, t.d. á söfnunarstöð og/eða með spilliefnabíl sem sækir spilliefni á ákveðnum stöðum og tímum.
- Sveitarstjórnir geta heimilað íbúum að stunda heimajarðgerð og beint íbúum sínum í dreifbýli að stunda heimajarðgerð í stað þess að safna lífúrgangi innan lóðar. Þó ber sveitarfélagi að hafa tiltækan farveg fyrir lífúrgang sem hentar ekki til heimajarðgerðar, t.d á söfnunarstöð.
Gerð er grein fyrir hvernig ólíkum söfnunarleiðum er beitt landfræðilega, þ.e. í þéttbýli, í dreifbýli, við fjölbýlishús, við orlofshús o.s.frv., auk þess sem lýst er öðrum fjölbreytileika í söfnunarkerfum. Kortlagt er hvernig ílát eru algengust í hverju tilviki, t.d. tunnur, gámar á yfirborði eða djúpgámar. Kortlagt er hvað verður um úrgang sem fellur til á svæðinu, hvaða urðunarstaðir og brennslustöðvar eru notaðar, hvernig óvirkum úrgangi er fyrir komið og hverjir taka á móti flokkuðum úrgangi sem fer í endurvinnslu og endurnýtingu. Sérstök áhersla er lögð á að kortleggja förgun, endurnýtingu og endurvinnslu hérlendis. Kortlagningin byggir á bestu fyrirliggjandi upplýsingum um afdrif úrgangsins.
Úrgangur sem sérstakar reglur gilda um eru til dæmis olíuúrgangur, spilliefni, aukaafurðir dýra og úrgangur sem inniheldur efni sem eru af skornum skammti, t.d. þýðingarmikil hráefni (e. critical raw materials). Gerð er grein fyrir hvernig hver ber ábyrgð á söfnun hans, hvar honum er safnað og hvernig staðið er að því. Mat er lagt á hvort söfnunin uppfylli kröfur sem gerðar eru.
Gerð er grein fyrir þeim ráðstöfunum sem gera skal til að koma í veg fyrir rusl á víðavangi og til að tryggja fullnægjandi hreinsun þess.
Þörf á innviðum
Lagt er fram mat á þörf fyrir nýtt fyrirkomulag endurvinnslu- og endurnýtingarstöðva og förgunarstaða, lokun starfandi stöðva og fjárfestingar í tengslum við það. Byggt er á kortlagningu á stöðu úrgangsmála og mati á þróun á straumum úrgangs í framtíðinni og höfð hliðsjón af markmiðum sem skal ná. Lagðar eru fram upplýsingar um hvaða rök liggja að baki ákvörðun um staðsetningu mikilvægra stöðva og hvaða afkastagetu þarf til framtíðar. Við mat þetta skal tryggja að flokkaður úrgangur úr sérstakri söfnun eða annar úrgangur sem óheimilt er að urða fari til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar. Sömuleiðis krefst sumur úrgangur sérstakra innviða, til dæmis úrgangur frá höfnum, sjúkrahúsum og millilandaflugvöllum. Lýsa má innviðum fyrir innheimtu, einkum í ljós krafna „borgað þegar hent er“ og hvernig sveitarfélagið hyggst uppfylla þær.
Hagræn stjórntæki og aðrar ráðstafanir
Í svæðisáætlun geta sveitarfélög metið gagnsemi þess að nota hagræn stjórntæki og önnur stjórntæki til að takast á við ýmis vandamál er varða úrgang. Hér er gerð grein fyrir hvaða hagrænu stjórntæki og aðrar ráðstafanir sveitarfélögin nýta til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs. Vísað er til lista sem settur er fram í tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) 2018/851.

