Aðgerðir sem lagðar eru til taka mið af greiningu á stöðunni sem unnin er samkvæmt fylgiskjali A og af markmiðum og stefnu sveitarfélaga. Sveitarfélög setja fram aðgerðir sem þau telja að verði til þess að markmið áætlunar náist á gildistíma hennar, m.a. eftirfarandi aðgerðir, nema greining leiði í ljós að ekki sé þörf á þeim:
- Aðgerðir sem stuðla að úrgangsforvörnum og aukinni endurnotkun.
- Aðgerðir sem bæta undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, aðra endurnýtingu og förgun.
- Aðgerðir til að bæta söfnunarkerfi eða innleiða ný fyrir sérstaka söfnun úrgangs.
- Aðgerðir varðandi uppbyggingu innviða og fyrirkomulag endurvinnslu- og endurnýtingarstöðva og förgunarstaða, lokun starfandi stöðva og fjárfestingar í tengslum við það.
- Aðgerðir er varða hagkvæma, góða og gegnsæja þjónustu við íbúa og fyrirtæki.
Dæmi um aðgerðir fyrir sveitarfélög:
Greining á stöðu úrgangsmála (fylgiskjal A) sýnir að bæta þarf meðhöndlun á lífúrgangi og pappírs- og plastefnum. Unnið verður að auknum gæðum endurvinnsluefnis sem safnað er á svæðinu og bættri þjónustu. Sveitarfélögin telja að aðgerðir sem hér eru tilgreindar verði til þess að markmið svæðisáætlunarinnar náist á gildistíma hennar.
Í fylgiskjali B er að finna tímasetta áætlun og upplýsingar um ábyrgðaraðila verkefna.
Aðgerðir sem stuðla að úrgangsforvörnum, s.s. leiðir til að auka endurnotkun
Átaksverkefni hjá stofnunum sveitarfélaganna: Fundnar verða leiðir til að auka endurnotkun efnis svo það verði ekki að úrgangi, í samræmi við úrgangsforvarnarstefnu.
Átak í betri nýtingu matar: Sveitarfélögin munu stofna sameiginlegan stýrihóp um lágmörkun matarsóunar sem mun skila kostnaðarmetnum tillögum um betri matarnýtni á öllu svæðinu, hvort sem er hjá íbúum, lögaðilum eða hjá stofnunum.
Fleiri dæmi um ráðstafanir til að koma í veg fyrir myndun úrgangs má finna í viðauka II við reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 803/2023.
Aðgerðir til að bæta söfnunarkerfi og innleiða ný kerfi fyrir sérstaka söfnun úrgangs
Aukin upplýsingagjöf til íbúa og rekstraraðila: Sveitarfélögin koma upp og reka sameiginlega vefsíðu þar sem íbúar og lögaðilar á svæðinu geta nálgast upplýsingar um rétta flokkun úrgangs, hirðudagatal í hverju sveitarfélagi og staðsetningar á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum.
Bætt söfnun á pappír og pappa, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi: Við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli verður komið upp ílátum fyrir flokkaðan úrgang. Þar sem við á verður sameiginleg söfnun fyrir aðliggjandi lóðir.
Góð og árangursrík söfnun lífúrgangs: Sekkir undir lífúrgang frá heimilum verða aðgengilegir án endurgjalds á mönnuðum söfnunarstöðvum sveitarfélaganna og leitað verður eftir samstarfi við verslanir á svæðinu til að dreifa pokunum.
Söfnun á gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum: Settar verða upp grenndarstöðvar á aðgengilegum stöðum.
Innleiðing virkrar mengunarbótareglu: Innheimta fyrir meðhöndlun úrgangs standi að fullu undir kostnaði við hana auk þess sem innleitt verður „borgað þegar hent er“ kerfi við innheimtu.
Aðgerðir til að meðhöndlun úrgangs verði umhverfislega betri
Hreinleiki úrgangsstrauma tryggðir: Átaki um hreinni strauma úrgangs verði hrint af stað þar sem verktakar munu upplýsa íbúa ef þeir verða varir við ranga flokkun úrgangs í ílát eða að úrgangur ratar í ílát undir blandaðan úrgang sem á að fara í endurnýtingu eða endurvinnslu
Visthæfari hirðubílar: Skipt verður út hirðubílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrir visthæfar bifreiðar í gegnum innkaup sveitarfélaganna. Kröfur eru til staðar um að ákveðið hlutfall hirðubíla skuli vera vistvæn og orkunýtin sbr. reglugerð nr. 1330/2023.
Aðgerðir í samræmi við mat á þörf fyrir nýtt fyrirkomulag endurvinnslu- og nýtingarstöðva og förgunarstaða, lokun starfandi stöðva og fjárfestingar í tengslum við það
Unnið verður að uppbyggingu innviða fyrir sérstaka söfnun og aðra meðhöndlun, þ.m.t. fyrir lífúrgang og umbúðaúrgang. Vísað er til greiningar um þörf á aðstöðu fyrir endurnýtingu lífúrgangs.
Gott aðgengi íbúa og lögaðila að flokkun og skilum á úrgangi til endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar: Stofnaður verður stýrihópur með fulltrúum allra sveitarfélaganna sem mun leggja drög að framtíðar staðsetningu grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva á svæðinu ásamt áætluðum kostnaði við uppbyggingu. Miðað verður við að 90% íbúa í þéttbýli hafi aðgang að grenndarstöð í 500 m fjarlægð frá heimili sínu eða minna.
Í sumarbústaðabyggð verður komið upp aðgangsstýrðri söfnunarstöð. Eigendur munu standa straum af uppbyggingunni og innheimt verður eftir „borgað þegar hent er“ kerfi á stöðinni.
Áreiðanlegri innheimta: Fjárfest verður í bílavogum og sjálfsafgreiðslukerfi á söfnunarstöðvum sem undirstaða gjaldheimtu inn á stöðvarnar.
Aðgerðir er varða hagkvæma, góða og gegnsæja þjónustu við íbúa og fyrirtæki
Hagkvæm og góð þjónusta: Útbúin verða þjónustuviðmið um söfnun og meðhöndlun úrgangs sem verða innleidd í gegnum bætt verklag stofnanna sveitarfélaganna og nýrra ákvæða í innkaupasamningum um hirðu úrgangs við heimili og stofnanir sveitarfélaganna, bæði fyrir þéttbýli og dreifbýli. Regluleg upplýsingagjöf um kostnað vegna meðhöndlunar úrgangs: Sveitarfélögin munu birta á vefsíðum sínum upplýsingar um kostnað um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.