Sveitarfélög setja sér markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Eins og lög segja til um eru að lágmarki sett markmið sem byggja á stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs. Annars vegar eru markmið sem sveitarfélög skulu ná á sínu svæði og hins vegar eru markmið sem ná skal á landsvísu. Greining á stöðu úrgangsmála sem birt er í fylgiskjali A, leiðir í ljós hversu langt frá markmiðum núverandi staða er og hvaða markmið hafa nú þegar verið uppfyllt.
Markmið í samræmi við stefnu ráðherra og reglugerð um meðhöndlun úrgangs eru eftirfarandi:
- Endurvinnsla heimilisúrgangs: Endurvinnsluhlutfall sé að lágmarki 50%. Árið 2025 verði það orðið 55%, 60% árið 2030 og 65% árið 2035.
- Urðun heimilisúrgangs: Verði að hámarki 10% árið 2035.
- Lífrænn heimilisúrgangur: Lífrænn úrgangur frá heimilum sem berst til urðunarstaða hafi minnkað niður í 35% af heildarmagni þess magns sem féll til árið 1995.
- Lífrænn rekstrarúrgangur: Lífrænn úrgangur frá rekstraraðilum sem berst til urðunarstaða hafi minnkað niður í 35% af heildarmagni þess magns sem féll til árið 1995.
- Úrgangsforvarnir: Sveitarfélög setji sér markmið um samdrátt í myndun úrgangs, einkum heimilisúrgangs sem fer til förgunar eða er nýttur til orkuvinnslu.
- Umbúðaúrgangur: Söfnun umbúðaúrgangs sem fellur til á heimilum er á ábyrgð sveitarfélaga. Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hf. bera ábyrgð á að ná landsmarkmiðum varðandi meðhöndlun úrgangs sem fellur undir lög um úrvinnslugjald og lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.
- Byggingar- og niðurrifsúrgangur: Það er á ábyrgð sveitarfélaga að til staðar sé aðstaða til að safna flokkuðum byggingar- og niðurrifsúrgangi. Hann skal flokkaður a.m.k. í spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs. Landsmarkmið frá og með árinu 2020 er að 70% úrgangsins skuli flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar.
- Rafhlöðu– og rafgeymaúrgangur, raf– og rafeindatækjaúrgangur: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu í samræmi við framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að til staðar sé aðstaða til að safna flokkuðum úrgangi.
- Ökutæki: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu í samræmi við framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að útvega aðstöðu eða útvista móttöku á úr sér gengnum ökutækjum.
Dæmi um markmið fyrir sveitarfélög:
Sveitarfélögin setja sér markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu.
Markmið sem byggja á stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs eru eftirfarandi:
- Endurvinnsla og urðun heimilisúrgangs: Árið 2035 verði urðað að hámarki 10% af heimilisúrgangi. Endurvinnsla heimilisúrgangs verði 50% árið 2025 og aukist í skrefum í 65% árið 2035.
- Lífrænn úrgangur: Dregið verður úr urðun lífræns úrgangs þannig að það sem berst til urðunarstaða hafi minnkað niður í 35% miðað við það sem féll til árið 1995.
Sérstök markmið sveitarfélags eru eftirfarandi:
- Yfir 90% íbúa í þéttbýli hafi aðgang að grenndarstöð í innan við 500 m fjarlægð frá heimili árið 2025.
- Úrgangsforvarnir: Úrgangur sem fellur til hjá stofnunum og skólum sveitarfélagsins minnki um 50% á milli áranna 2023 til 2032.
- Visthæfari hirðubílar: Helmingur hirðubíla verði visthæf ökutæki árið 2028.