Til að unnt sé að greina og fylgjast með stöðu úrgangsmála þurfa að liggja fyrir upplýsingar um þann úrgang sem fellur til. Til að sveitarfélög geti fylgt eftir gildandi markmiðum þarf sveitarfélagið að hafa upplýsingar um magn og tegund heimilis- og rekstrarúrgangs sem fellur til á svæðinu. Umhverfis- og orkustofnun annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna hans eftir sveitarfélagi og atvinnugreinaflokki og ráðstöfun úrgangsins, þ.e. hvort hann hafi farið í urðun, brennslu, fyllingu, orkuendurnýtingu, endurvinnslu eða undirbúning fyrir endurnotkun. Gögnin koma til stofnunarinnar frá verktökum, ráðstöfunaraðilum úrgangs og öðrum aðilum sem meðhöndla úrgang. Sveitarfélög eiga því að geta fylgst með magni þess úrgangs sem heyrir undir þeirra svæði. Alla tölfræði og frekari upplýsingar er að finna á vefnum úrgangur.is.
Til að tryggja gæði gagna getur sveitarfélög farið fram á gögnum sé skilað beint til þeirra í samræmi við kröfur í útboðsgögnum og innkaupasamningum á þeirra vegum. Að lágmarki ætti að halda utan um upplýsingar varðandi eftirfarandi þætti, en verktökum er skylt að safna upplýsingum um alla þessa þætti og skila inn til Umhverfis- og orkustofnunar:
- Tegund, magn og uppruna (sveitarfélag og ÍSAT-atvinnugreinanúmer) úrgangs sem verður til innan svæðisins.
- Hvaða úrgangur er fluttur frá svæðinu eða til meðhöndlunar innan svæðis.
- Afdrif (endanleg ráðstöfun) úrgangsins.
Umhverfis- og orkustofnun safnar gögnum um allan þann úrgang sem til fellur. Söfnun stofnunarinnar er óháð því hvaða aðili sér um sérstaka söfnun, meðhöndlun eða flutning úrgangsins til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar eða förgunar og ber öllum aðilum sem meðhöndla úrgang skylda til að skila inn gögnum til stofnunarinnar. Þannig er reynt að ná utan um úrgang sem er safnað við heimili, úrgang frá atvinnurekstri og efni sem kemur á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þeir aðilar sem koma að söfnun og meðhöndlun geta verið sveitarfélögin sjálf, verktakar sem eru með samning við sveitarfélög, sem og smærri aðilar eins og Rauði krossinn og fleiri sem safna textíl eða Endurvinnslan hf., íþróttafélög, björgunarsveitir, Bandalag íslenskra skáta o.fl.
Mælt er með því að sveitarstjórnir hafi yfirsýn yfir að lágmarki eftirfarandi úrgangsflokka, í ljósi markmiða sem ná skal í úrgangsmeðhöndlun:
