Sveitarfélög taka ákvörðun um hvort þau sinna sjálf verkefnum um meðhöndlun úrgangs eða útvista þeim. Verkefnum getur verið útvistað að hluta eða í heild, sem dæmi sérstök söfnun heimilisúrgangs, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva, meðhöndlun úrgangs eftir söfnun, kaup á vörum og búnaði, sem og samningar um framkvæmdir tengdar úrgangsstjórnun sveitarfélagsins.
Framkvæmd innkaupa, útboða og samninga um verkefnin eru mikilvægir hlekkir í að ná markmiðum í úrgangsmálum og tryggja að rekstur og þjónusta sé eins og sveitarfélag ákveður. Í gegnum innkaup og útboð má ná fram hagkvæmni í opinberum rekstri og nýta kosti virkrar samkeppni. Sveitarfélög gætu þó haft hag af því að skilgreina innviði sem þurfa að vera til staðar á vegum sveitarfélagsins til að tryggja virka samkeppni á markaði.
Þrátt fyrir að heimilt sé að viðhafa mismunandi fyrirkomulag á söfnun heimilisúrgangs er mikilvægt að jafnræðis- og meðalhófssjónarmið séu í forgrunni við ákvarðanatöku um fyrirkomulag. Varast skal að sveitarfélag bjóði lögaðilum þjónustu vegna söfnunar heimilisúrgangs vegna mögulegra samkeppnissjónarmiða. Heldur ættu sveitarfélög að hafa það að almennri reglu að lögaðilar geri sjálfir samninga við verktaka um söfnun heimilisúrgangs. Sveitarfélögum er ætlað að annast aðeins þessa þjónustu fyrir lögaðila ef þeir geta ekki keypt þjónustuna á almennum markaði, að því gefnu að útfærslan sé með þeim hætti að sveitarfélag geti virt það ábyrgðarhlutverk sem því er falið að lögum.
Útboðsgögn og samninga þarf að vinna í takti við áherslur sveitarfélags og þá ábyrgð sem það ber samkvæmt lögum, m.a. varðandi sérstaka söfnun við heimili og rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva. Útboðsgögn og innkaupasamningar þurfa að taka mið af gildandi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, samþykkt um meðhöndlun úrgangs, gjaldskrám og innheimtukerfi. Segja má að sveitarfélag sé að uppfylla skyldur sínar í gegnum samninga við verktaka og því þarf að vera skýrt hvaða verkefni þeim er ætlað að leysa, hvernig tekið verði á breytingum sem verða á samningstíma og hvaða gögnum verktaki skuli skila til sveitarfélagsins á gildistíma samningsins. Gögn þurfa að vera áreiðanleg og gagnsæ til að sveitarfélag geti sannreynt endanlega ráðstöfun úrgangs, magn og tegundir og skilgreint sundurliðun kostnaðar. Góð og skiljanleg gögn auðvelda eftirfylgni og eftirlit með samningum og minnkar áhættu á svikum.
Greiðslur Úrvinnslusjóðs vegna úrgangs sem sveitarfélagið ber ábyrgð á fara ýmist til sveitarfélags eða til þjónustuaðila og fara greiðslurnar eftir því hvernig sveitarfélög og þjónustuaðilar semja sína á milli um eignarhald á úrganginum. Mikilvægt er að útfæra ákvæði um úrvinnslugjald og flutningsjöfnunar í samningum milli sveitarfélags og þjónustuaðila. Ef sveitarfélag fer þá leið að semja við þjónustuaðila þannig að hann eignist úrganginn sem safnað er, fara engar greiðslur milli þjónustuaðilans og sveitarfélagsins vegna ráðstöfunar og flutnings úrgangsins. Þjónustuaðilinn skilar þess í stað Úrvinnslusjóði upplýsingum um þessa þætti til Úrvinnslusjóðs, þ.m.t. um magn og tegund sérsafnaðs úrgangs, póstnúmer söfnunarstaðar og hvort um sé að ræða ílát við heimili, grenndarstöðvar eða söfnunarstöð. Ef ekki er samið um eignarhald á úrganginum, geta sveitarfélög sjálf sótt um greiðslur til Úrvinnslusjóðs vegna söfnunar, flutnings og ráðstöfunar heimilisúrgangs, jafnvel í þeim tilvikum þar sem þjónustuaðilar sinna þessum verkum, af þeim ástæðum að sveitarfélagið er sá aðili sem er endanlega ábyrgur fyrir réttri meðhöndlun úrgangsins, kostnaður við meðhöndlun úrgangsins sé greiddur af sveitarfélaginu og litið er svo á að heimilisúrgangur sem hefur verið safnað tilheyri sveitarfélaginu sem eign þess. Sveitarfélag getur gerst þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.
Ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi í byrjun árs 2023 gera meiri kröfur en áður til sveitarfélaga. Þetta þarf að endurspeglast í innkaupagreiningu fyrir útboð. Taka þarf mið af grunninnviðum sem til staðar eru, kröfum um sérstaka söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs og af fyrirkomulagi innheimtu. Gera ætti þjónustuaðilum á markaði viðvart um umfangsmiklar breytingar á þjónustu þegar þær liggja fyrir svo að þeir hafi tíma til að undirbúa þær.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið þrjú sniðmát fyrir útboð sveitarfélaga á úrgangsþjónustu sem innihalda gagnlegar leiðbeiningar og dæmi um leiðir sem hægt er að fara í útboðum. Sniðmátin má nálgast hér:
- Útboð á hirðu heimilisúrgangs á lóðum og á grenndarstöðvum
- Útboð á meðhöndlun endurvinnsluefnis eftir söfnun
- Útboð á rekstri söfnunarstöðva
Nokkur góð ráð um útboð sveitarfélaga á úrgangsþjónustu eru í viðauka 6.