Breytingar og þróun í úrgangsmálum og ný viðhorf til hringrásarhagkerfis hafa áhrif á skipulag og hönnun í byggðu umhverfi. Samhliða þéttingu byggðar þarf að tryggja rými fyrir aukna flokkun úrgangs og skil til endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar.
Í deiliskipulagi hverfa með þéttri byggð þarf að huga sérstaklega að því að söfnun úrgangs verður flóknari, úrgangsflokkum fjölgar og taka þarf frá pláss fyrir grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þetta getur verið áskorun þar sem landrými er af skornum skammti og land verðmætt. Huga þarf að því hvernig heildarsöfnun á stærra svæði er samsett, hverju skal safna við íbúðarhús og á lóðum lögaðila og hvaða úrgangi skal koma á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöðvar.
Við skipulag nýrra hverfa þarf að gera ráð fyrir hönnun úrgangslausna frá upphafi þannig að losun íláta sé hugsuð heildstætt, ásamt lausnum fyrir fyrirtæki og grenndar- og söfnunarstöðvar. Úrgangslausnir í gróinni byggð ættu að taka mið af byggðamynstri, arkitektúr og góðri hönnun byggðar. Í blandaðri byggð þar sem íbúðabyggð og atvinnustarfsemi eru innan sömu lóðar þarf að gera ráð fyrir aðskildum úrgangslausnum í deiliskipulagi.
Heimilt er að staðsetja sérstaka söfnun fyrir íbúa og lögaðila miðlægt á aðliggjandi lóðum að því gefnu að söfnun allra úrgangsflokka, þ.m.t. blandaðs úrgangs, færist þangað og að möguleiki sé til staðar til að innleiða „borgað þegar hent er“ kerfi. Þetta má útfæra með sameiginlegum geymslum, gerði fyrir sorpílát og djúpgámum. Hafa þarf í huga að slíkar lausnir samrýmist vel kerfi fyrir sérstaka söfnun í sveitarfélaginu.
Huga ætti að útfærslu á sérstakri söfnun og aðgengi við hirðu úrgangs sem fyrst í skipulagsferlinu til þess að tryggja megi að þessi þjónusta sé skilvirk og uppfylli settar kröfur. Nýta ætti kosti þess að staðsetja sorpílát sem næst lóðarmörkum og í sumum sveitarfélögum er krafa um lágmarks fjarlægð. Mikilvægt er að hafa gott aðgengi fyrir bæði íbúa og hirðuaðila að þeim stöðum sem sérstök söfnun úrgangs fer fram, enda stuðlar það að hagkvæmari og betri þjónustu. Aðgengi hirðuaðila úrgangs gæti verið kortlagt í skipulagsferlinu með sambærilegum hætti og aðgengi viðbragðsaðila.
Hönnuðir bygginga og lóða bera ábyrgð á að kröfur sem snúa að hönnun séu uppfylltar, s.s. er varða geymslu úrgangs, aðgengi íbúa og hirðuaðila og fjölda íláta. Smekkleg og falleg hönnun getur haft þau áhrif að fólk gangi betur um en annars og því er mikilvægt að vanda til verka. Við hönnun á rýmum fyrir söfnun úrgangs þarf að huga að lýsingu, að auðvelt sé að halda þeim hreinum og að aðkoma sé auðveld. Gæta þarf að því að öryggi starfsfólks sem tæmir ílátin sé tryggt, vinnuumhverfið sé öruggt og nægilegt pláss sé fyrir fólk og tæki til athafna. Aðgengi starfsfólks og ökutækja sem koma að hirðu úrgangs þarf að vera greið, s.s. aðkoma, útkeyrsla og staðsetning hirðubíls við losun.
Til eru margar mismunandi lausnir fyrir söfnun úrgangs. Stærð íláta fyrir hverja úrgangstegund þarf að taka mið af umfangi og gerð úrgangsins. Algengast er að nota 240 lítra ílát við sérbýli og lítil fjölbýli. Í einhverjum sveitarfélögum eru í boði 120 lítra tunnur, sem stundum eru kallaðar spartunnur. Þær eru t.a.m. taldar henta betur fyrir eðlisþyngri úrgang, t.a.m. matarleifar, en stærri tunnur. Hægt er að setja upp tvískiptar og jafnvel fjórskiptar 240 lítra tunnur sem aðskilja tvo eða fleiri úrgangsflokka. Við stærri fjölbýlishús eru gjarnan 660 lítra ker og henta þau þar sem fara þarf um stuttan veg við hirðu og aðgengi er gott. Færst hefur í auka að nota gáma á yfirborði og niðurgrafna djúpgáma. Losun og hífing gáma þarf að vera sem auðveldust og með öruggustum hætti fyrir hirðuaðila, notendur og vegfarendur. Sveitarfélög geta sett sérstakar kröfur um fyrirkomulag söfnunar á lífúrgangi, s.s. um pappapoka sem brotna vel niður í jarðgerðarstöð.
Við val og útfærslu á ílátum skal taka mið af tilmælum Vinnueftirlits ríkisins um að starfsfólk sem sinnir hirðu úrgangs komist í sem minnsta snertingu við úrganginn og burður á ílátum verði lágmarkaður.
Við útreikninga á gólffleti þar sem sorpílát eru staðsett þarf að taka tillit til rýmis sem þarf að vera á milli þeirra og fyrir aftan þau og einnig þarf að tryggja nægjanlegt athafnasvæði til að draga megi ílátin út án þess að hreyfa önnur ílát.
Lóðarhafar bera ábyrgð á aðstöðu fyrir söfnun úrgangs á sinni lóð, utan og innan bygginga, sem og að flokkun og skil úrgangs sé í samræmi við gildandi reglur í sveitarfélaginu hverju sinni. Þeir bera ábyrgð á viðeigandi aðstöðusköpun, þrifum á aðstöðu og ílátum og að aðgengi íbúa og hirðuaðila sé gott, s.s. með snjómokstri og hálkuvörnum.
Ef miðlægar úrgangslausnir eru staðsettar á lóð sveitarfélagsins þá er almenna reglan að sveitarfélagið ber ábyrgð á þessum þáttum en er skylt að leggja á gjöld til að standa straum af þeim kostnaði. Þá getur sveitarfélag útbúið sérstakar lóðir undir miðlægar lausnir og þinglýst þeim á þær lóðir sem ætlað er að nýta svæðið.
Dæmi um aðgerðir til að bæta skipulag og hönnun
Gott aðgengi hirðuaðila að ílátum: Gerðar leiðbeiningar um skipulag og hönnun nýrra og endurgerðra mannvirkja sem og varðandi reglur um aðgengi að losun íláta á lóðum og á grenndar- og endurvinnslustöðvum. Miðað við að ílát þurfi ekki að draga lengra en 15 metra að hirðubíl á jafnsléttu. Aðgengi hirðuaðila: Akstursleiðir hirðuaðila úrgangs skilgreindar í deiliskipulagsuppdráttum eða þeim lýst með sambærilegum hætti og akstursleiðum viðbragðsaðila.