Framleiðendur og innflytjendur vara og umbúða sem falla undir framlengda framleiðendaábyrgð skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun vöru eftir að hún er orðin að úrgangi. Á Íslandi er þetta gert með greiðslu úrvinnslugjalds sem Úrvinnslusjóður hefur umsjón með.

Úrvinnslusjóður var settur á fót sem samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs með lögum um úrvinnslugjald og hóf starfsemi árið 2003. Meginverkefni sjóðsins er að sjá um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess og uppfylla þannig skilyrði um framlengda framleiðendaábyrgð. Úrvinnslusjóður heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og sér um umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjaldsins og ber þannig ábyrgð á að uppfylla skilyrði um framlengda framleiðendaábyrgð fyrir hönd framleiðenda og innflytjenda. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærari auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu.

Þótt skyldur sjóðsins séu að miklu leyti fjárhagslegar, hefur sjóðurinn einnig aðrar skyldur, svo sem skylduna til fræðslu- og kynningar. Fræðsla og kynning er einnig verkfæri sem sjóðurinn getur nýtt til að vinna að því að tölulegum markmiðum um söfnun og endurnýtingu einstakra vöruflokka verði náð en það er ábyrgð sjóðsins að svo verði. Úrvinnslusjóður ber einnig ábyrgð á að safna og miðla upplýsingum um söfnun og endurvinnslu meðhöndlun þeirra vöruflokka sem falla undir ábyrgð sjóðsins.

Segja má að kostnaður við meðhöndlun vara og umbúða sem bera framlengda framleiðendaábyrgð sé almennt innifalinn í vöruverðinu en greiðist ekki eftir á sem gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Úrvinnslugjald á vörur skal almennt vera þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkunarmöguleika, endurvinnslumöguleika og innihalds hættulegra efna. Þótt þrepaskipting úrvinnslugjalda sé oft flókin í praktík, má með henni skapa fjárhagslegan hvata fyrir framleiðendur og innflytjendur til að breyta hönnun og framleiðslu þannig að auðveldara sé að endurnota eða endurvinna vörurnar.

Á Íslandi er framlengd framleiðendaábyrgð útfærð að mestu leyti með úrvinnslugjaldi og skilagjaldi. Gjaldið er lagt á viðkomandi vöru við innflutning eða á innlenda framleiðslu. Skatturinn innheimtir úrvinnslugjald af innfluttum vörum eftir tollskrárnúmerum, óháð því hvort viðkomandi vara ber toll.

Úrvinnslusjóður gerir samninga við þjónustuaðila um meðhöndlun þess úrgangs sem er á ábyrgð sjóðsins. Sveitarfélög geta verið þjónustuaðilar með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Skilmála fyrir þjónustuaðila er að finna á vefsíðu Úrvinnslusjóðs. Sjóðurinn greiðir þjónustuaðilum endurgjald vegna flutnings úrgangs og ráðstöfunar hans, sjá nánar í kafla 3.5. Þjónustuaðilar gera samninga við ráðstöfunaraðila um endanlega ráðstöfun sem Úrvinnslusjóður samþykkir.

Þjónustuaðilar fá greitt úr sjóðnum með því að framvísa skilagrein og staðfestingu ráðstöfunaraðila á mótteknu magni. Sveitarfélag getur ákveðið hvort greiðslur sjóðsins vegna úrgangs sem sveitarfélagið ber ábyrgð á rennur til þjónustuaðila sem það hefur gert samning við eða að sveitarfélagið verði sjálft þjónustuaðili og fái greiðslurnar beint til sín.

Vöruflokkar sem falla undir Úrvinnslusjóð eru pappírs- og pappaumbúðir, plastumbúðir, glerumbúðir, viðarumbúðir, málmumbúðir, drifrafhlöður, rafhlöður og rafgeymar, raf- og rafeindatæki, hjólbarðar, ökutæki, olíuvörur, lífræn leysiefni og klórbundin efnasambönd, málning, prentlitir, kvikasilfursvörur, vörur í ljósmyndaiðnaði, varnarefni, kælimiðlar og veiðarfæri sem innihalda plast.

Úrvinnslugjaldið skal a.m.k. standa straum af kostnaði við eftirfarandi atriði fyrir þá úrgangsflokka sem falla undir starfsemi sjóðsins:

Móttaka úr sér genginna ökutækja er á ábyrgð sveitarfélaga. Sveitarfélög útvega aðstöðu eða útvista móttöku á ökutækjum með samning við undirverktaka, t.d. bílaverkstæði. Úrvinnslusjóður greiðir til sveitarfélags sem getur látið greiðslur fljóta áfram til verktaka. Nokkrir þjónustuaðilar eru skráðir beint hjá Úrvinnslusjóði og sækja greiðslur þangað beint.

Einnota drykkjarumbúðir sem falla undir skilagjaldskerfið eru í umsjón Endurvinnslunnar hf. Endurvinnslan hf. sér um móttöku einnota drykkjarumbúða, greiðir út skilagjald, undirbýr umbúðirnar til útflutnings og selur til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar.

Í lögum eru til staðar heimildir til niðurfellingar úrvinnslugjalds að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Á það við um innlenda framleiðslu á útflutningsvörum sem koma ekki til úrvinnslu hér á landi, til dæmis öskjur undir útfluttan fisk. Jafnframt er Úrvinnslusjóði heimilt er að gera sérstaka samninga um undanþágur frá úrvinnslugjaldi gegn því að atvinnurekendur eða samtök þeirra annist meðhöndlun og ráðstöfun úrgangs. Slíkur samningur hefur verið í gildi hérlendis um árabil milli Úrvinnslusjóðs og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi varðandi veiðarfæraúrgang, en sá samningur er kominn til ára sinna. Með samningnum skuldbinda Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sig til að ábyrgjast söfnun og meðhöndlun veiðarfæraúrgangs og greiða þann kostnað sem af því hlýst í stað þess að greitt sé úrvinnslugjald af veiðarfærum sem sett eru á markað.