Óheimilt er að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma. Allur úrgangur skal færður til viðeigandi meðhöndlunar, annað hvort beint til endurnýtingar eða í söfnunar- eða móttökustöð, og þaðan til endurnýtingar eða förgunar. Almennt skal við meðhöndlun úrgangs stuðlað að endurnotkun á vörum og hliðsjón höfð af forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs að eins miklu leyti og unnt er.

Úrgangur frá heimilum telst vera heimilisúrgangur, með fáeinum undantekningum því seyra, úr sér gengin ökutæki og byggingar- og niðurrifsúrgangur teljast til rekstrarúrgangs óháð uppruna. Heimilisúrgangur fellur ekki eingöngu til á heimilum því að sams konar úrgangur getur fallið til hjá fyrirtækjum og stofnunum, t.d. eldhúsúrgangur frá mötuneytum/kaffistofum.

Sveitarfélög ákveða fyrirkomulag á söfnun og annarri meðhöndlun alls úrgangs sem fellur til í sveitarfélaginu, þ.m.t. heimilisúrgangs, í samþykktum sínum. Þau bera ábyrgð á söfnun úrgangs með reglulegri tæmingu íláta undir úrgang og flutningi alls heimilisúrgangs innan sveitarfélagsins óháð því hvar hann fellur til.

Heimilt er að útfæra sérstaka söfnun í dreifbýli á annan hátt en í þéttbýli. Í dreifbýli er heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp ílát, til dæmis gáma, undir úrgang í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili eða til lögaðila. Þá er skylda til söfnunar lífúrgangs innan lóðar eingöngu til staðar í þéttbýli en ekki í dreifbýli. Ef sveitarfélög ákveða að sérsafna ekki lífúrgangi innan lóðar í dreifbýli og beina í stað þess íbúum að stunda heimajarðgerð er það á ábyrgð sveitarfélagsins, í samvinnu við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir, að stuðla að nægilegri fræðslu, setja skilyrði og hafa eftirlit með því að vel sé staðið að því.

Sveitarstjórn skal, í samráði við heilbrigðisnefnd, setja upp söfnunarstöð með ílátum undir úrgang í nánd við sumarhúsahverfi. Séu fleiri en 20 sumarhús í hverfinu skal staðsetning söfnunar vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það í leið frá hverfinu. Ílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu.

Á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum skal taka við úrgangsflokkum sem ekki er safnað á lóðum. Skylda sveitarfélaga til að ákvarða fyrirkomulag sérstakrar söfnunar og flutning nær einnig til heimilisúrgangs frá lögaðilum. Hérlendis hefur þó útfærslan oftast verið sú að lögaðilar semja beint við verktaka um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs og ber sveitarfélögum einungis að sinna þeirri þjónustu fyrir lögaðila ef enginn verktaki sinnir þeirri þjónustu á svæðinu. Sveitarstjórn þarf að ákveða með hvaða hætti hún staðfestir að lögaðili sé að skila af sér heimilisúrgangi á fullnægjandi máta, s.s. með því að lögaðili afhendi sveitarfélagi afrit af samningi við verktaka eða með reglubundnum úttektum.

Heimajarðgerð

Íbúum er heimilt að stunda heimajarðgerð á sínum lífúrgangi. Sveitarfélög geta fjallað um nýtingu heimajarðgerðar í samþykkt sinni um meðhöndlun úrgangs. Jarðgerð sem á sér stað annars staðar en við heimili fólks, svo sem í atvinnustarfsemi, telst ekki til heimajarðgerðar.

Sérstaka söfnun má útfæra með öðrum hætti í dreifbýli en í þéttbýli og hafa sveitarfélög heimild til að beina íbúum í dreifbýli að stunda heimajarðgerð í stað þess að sækja lífúrganginn á hvert heimili. Ef sveitarfélag velur þá leið, er ráðlagt að huga að því hvernig sveitarfélag getur stutt einstaklinga við að stunda heimajarðgerð, s.s. með því að styrkja þá til kaupa á ílátum til jarðgerðar, bjóða upp á minni ílát fyrir íbúa sem stunda heimajarðgerð eða gera samning við einstaklinga um að þeir stundi heimajarðgerð. Ekki er hægt að skylda einstaklinga í heimajarðgerð auk þess sem að ýmis lífrænn úrgangur hentar illa í jarðgerð. Sveitarfélag þarf því alltaf að hafa tiltækan farveg, hvort sem er á miðlægri söfnunar- eða endurvinnslustöð, þar sem hægt er að láta lífúrganginn frá sér.

Á markaði er að finna ýmsar jarðgerðarlausnir til sölu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við kaup á slíkum vélum er rétt að athuga hvort um hentuga lausn sé að ræða til framtíðar og hvort þær veiti bestu aðgengilegu tækni með tilliti til þeirra innviða sem eru nú þegar til staðar til að taka á móti slíkum úrgangi. Jafnframt þarf að vera ljóst hvað verði um afurðina (jarðvegsbætinn) sem eftir stendur.