Innheimta skal gjald af einstaklingum og lögaðilum fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Mengunarbótareglan er ein af meginreglum umhverfisréttarins en inntak hennar er að sá borgi sem mengar eða sem hefur með höndum umsvif sem hafa áhrif á umhverfið. Það er því handhafi úrgangs sem jafnan skal standa straum af kostnaði við meðhöndlun úrgangs sem hann losar sig við.

Meginreglur um innheimtu sveitarfélaga eru:

Lögaðilar sem nýta sér þjónustu og innviði sveitarfélaga fyrir úrgang sem frá þeim kemur, ber að greiða fyrir þá þjónustu í takt við mengunarbótaregluna. Misjafnt hefur verið á milli sveitarfélaga hvort þau innheimti gjald af lögaðilum fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir og lögaðilar nýta ásamt íbúum en samkvæmt lögum er sveitarfélögum skylt að innheimta gjald af lögaðilum fyrir slíka þjónustu. Sveitarfélög sem reka grenndar-, söfnunar og/eða móttökustöðvar ættu því ekki að reka þau aðeins á gjöldum frá einstaklingum ef lögaðilar nýta sér þjónustuna. Einstaklingar eru með því í raun að niðurgreiða meðhöndlun úrgangs frá lögaðilum sem er óheimilt. Leyfilegt er að sveitarfélög innheimti þessi gjöld af lögaðilum sem fast gjald af hverri fasteignareiningu svo lengi sem þau ná að innheimta 25% eða minna af heildarkostnaði sveitarfélagsins í málaflokknum sem fast gjald.

Samkvæmt mengunarbótareglunni á hver og einn að borga fyrir það sem hann hendir. Það er í höndum sveitarfélaga að sjá til þess að svo sé. Útfærslan, svokallað „borgað þegar hent er“ kerfi, gerir kröfu um þrennt: að auðkenna framleiðanda úrgangsins, að mæla magn og tegund úrgangs sem fellur til og að innheimtan sé eftir magni og tegund úrgangsins. Hvað varðar mælingu á magni úrgangsins þá er annars vegar hægt að miða við rúmmál og hins vegar þyngd. Það er háð aðstæðum í hverju sveitarfélagi hvaða útfærsla hentar best og nýta má fleiri en eina leið á hverju svæði við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Í dag hafa flest sveitarfélög farið þá leið að innheimta gjöld eftir rúmmáli við söfnun á lóðum, hvort sem er heimili, lögaðila eða sumarhús. Innheimta á söfnunar- og móttökustöðvum er í flestum tilfellum annaðhvort gegn föstu gjaldi, eftir rúmmáli eða eftir þyngd. Í flestum tilfellum er ekki innheimt gjald við grenndarstöðvar og er þá fast gjald látið standa undir kostnaði þeirra. Mikilvægt er að huga að því að innheimtukerfið og gjaldskrá stuðli að því að fjárhagslegir hvatar séu til að draga úr myndun úrgangs.

Nýta má hefðbundin tæki og búnað og innheimta eftir rúmmáli þannig að miðað sé við stærð og fjölda íláta og/eða losunartíðni. Þannig greiðir notandinn fyrir það rúmmál sem hann hefur til umráða til að láta frá sér úrgang. Notandinn skal hafa möguleika á að auka eða minnka það rúmmál sem hann hefur til umráða eftir því sem honum hentar og kostnaður viðkomandi breytist samkvæmt því. Dæmi eru um að miðað sé við vikulítra við gjaldheimtu fyrir hvern úrgangsflokk, þ.e. hversu marga lítra af úrgangi viðkomandi getur losað sig við af úrgangi í hverri viku. Breytileg hirðutíðni getur verið mikilvægur þáttur þegar notast er við gáma á yfirborði eða djúpgáma í þéttri byggð og hægt er að bjóða íbúum upp á að velja breytilega hirðu samhliða öðru vali, s.s. fjölda og stærð íláta. Gallinn við val um hirðutíðni er sá að slíkt kerfi gæti leitt til hærri heildarsöfnunarkostnaðar þar sem færri ílát eru tæmd í einu og erfitt er að koma alveg í veg fyrir að tæma þurfi einstök ílát í sérferðum. Aðferðin er sérstaklega óhagkvæm þar sem vegalengdir eru langar og dreifbýli mikið.

Innleiðing breytilegs gjalds eftir rúmmáli getur verið góður undirbúningur undir innheimtu samkvæmt þyngd. Hægt er að fjárfesta í innviðum og hugbúnaði og innheimta eftir þyngd svo sem með því að vigta ílát frá lóðum við losun á lyftu aftan á hirðubílnum. Einnig er hægt að nota bílavog á söfnunar- og/eða móttökustöðum úrgangs en slíkum vogum er komið fyrir á öxlum bílanna eða vigtun fer fram þegar bílar með úrgang fara inn og út af söfnunar- eða móttökustöð. Báðar þessar aðferðir geta haft töluverða skekkju og henta því illa þegar magnið er lítið. Á dreifbýlis­svæðum og í stórum frístundabyggðum getur hentað að koma upp miðlægum söfnunarstöðvum sem eru aðgangsstýrðar með aðgangslyklum eða korti. Stöðvarnar geta verið mannaðar á tilteknum tímum.

Aðlaga þarf skráningu kostnaðar og tekna fyrir meðhöndlun úrgangs að breytingum sem gerðar eru til að tryggja gagnsæi í gjaldskrám því kostnaður er ólíkur eftir tegund úrgangs. Í bókhaldskerfum sveitarfélaga eru bókhaldslyklar fyrir kostnað tengdir meðhöndlun úrgangs. Við gerð ársreikninga sveitarfélaga og árlegum skilum þeirra til Hagstofu Íslands þarf að yfirfæra gögnin á ákveðna bókhaldslykla, samanber reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015. Kostnaður við meðhöndlun úrgangs fellur undir málaflokk 08 Hreinlætismál og flokkinn 08 – 2 Sorphreinsun og sorpeyðing. Mörg sveitarfélög miða kostnaðarfærslur sínar við þessa flokka. Slík skipting gagnast síður þegar kemur að því að innleiða „borgað þegar hent er“ kerfi við innheimtu. Dæmið hér að neðan sýnir hvernig bókfæra má kostnað vegna úrgangsmála til að tryggja gagnsæi.

Við gjaldskrárgerð velja flest sveitarfélög að birta gjaldskrá árlega þar sem fram koma fjárhæðir sem sveitarstjórn hefur samþykkt fyrir það ár. Þannig er hægt að koma að hluta til í veg fyrir að gjöldin séu hærri en sem nemur kostnaði við veitta þjónustu þar sem árleg endurskoðun tekur mið af raunkostnaði nýliðins árs. Gjaldskrár byggja á áætlun t.d. um magn úrgangs og fjölda íbúa og því verður einhver munur á raunkostnaði annars vegar og tekjum hins vegar. Það ætti að vera stefna hvers sveitarfélags að þessi munur sé sem minnstur. Fordæmi eru fyrir að hægt sé að miða við meðalkostnað á þriggja ára tímabili, sbr. úrskurð þess efnis (sjá viðauka 5).

Sveitarfélögin nýta álagningarkerfi fasteignagjalda Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við innheimtu bæði fastra gjalda og breytilegra gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs samhliða fasteignagjöldum. Fasteignagjöld eru lögð á allar fasteignir í janúar miðað við fasteignamat 31. desember ársins áður samkvæmt fasteignaskrá. Í flestum tilfellum er lagt fast matseiningargjald á hverja fasteign og þar sem þessi gjöld breytast ekkert yfir árið, dugar að skipta þessu gjaldi yfir þá fjölda gjalddaga sem sveitarfélagið vill innheimta. Í álagningarkerfinu er hægt er að velja fjölda íláta, ílátastærðir og úrgangsflokka á ákveðið staðfang (heimilisfang). Í fjöleignarhúsum er kostnaði við ílátin í viðkomandi staðfangi síðan dreift niður á íbúðarfasteignir innan staðfangsins í hlutfalli við fermetrafjölda. Sama gildir um skiptingu kostnaðar við miðlæga gáma eða djúpgáma.

Greitt er úrvinnslugjald fyrir þann úrgang sem fellur undir kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar. Gjaldið er greitt af þeim sem flytur inn eða framleiðir úrganginn upphaflega, ýmist sem vöru, efni eða umbúðir og rennur gjaldið í Úrvinnslusjóð sem fer með ráðstöfun úrvinnslugjaldsins. Úrvinnslugjaldið á að standa undir kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun viðkomandi vara og/eða umbúða sem orðnar eru að úrgangi (sjá kafla 4.7). Undir Úrvinnslusjóð falla t.d. umbúðir, raf- og rafeindatæki og spilliefni. Þannig myndast hagrænn hvati fyrir flokkun og skil á úrgangi. Sveitarfélög geta þannig lækkað gjald fyrir meðhöndlun úrgangs fyrir þá úrgangsflokka sem í eru vörur og/eða umbúðir á ábyrgð sjóðsins í samræmi við kostnaðarþátttöku Úrvinnslusjóðs.

Úrvinnslusjóður greiðir sveitarfélögum fyrir sérstaka söfnun ákveðinna úrgangstrauma en sjóðurinn greiðir einnig endurgjald fyrir flutning og ráðstöfun til skráðra þjónustuaðila sjóðsins. Ef sveitarfélag ákveður að verða ekki þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs renna greiðslurnar til verktaka sem sveitarfélög skipta við og koma til viðbótar við greiðslur sveitarfélagsins vegna þjónustunnar. Sveitarfélög geta óskað eftir í þjónustusamningum sínum við verktaka að verktaki upplýsi um greiðslur Úrvinnslusjóðs vegna flutningsjöfnunar og ráðstöfunar vegna úrgangs á ábyrgð sveitarfélagsins. Form fyrir skilagreinar og upplýsingar um greiðslur og verðskrár Úrvinnslusjóðs má finna á vefsíðu sjóðsins. Skilagjald svipar til úrvinnslugjalds en því er ekki ráðstafað af Úrvinnslusjóði heldur af Endurvinnslunni hf. fyrir drykkjarvöruumbúðir og Fjársýslu ríkisins fyrir ökutæki.

Úrvinnslugjald er greitt af Úrvinnslusjóði vegna eftirfarandi:

Sérstök söfnun: Úrvinnslusjóður greiðir sveitarfélögum fyrir sérstaka söfnun á umbúðum úr pappír, pappa og plasti á lóðum og á á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum, á umbúðum úr málmi og gleri á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum og fyrir söfnun spilliefna og umbúða úr viði á söfnunar- og móttökustöðvum. Þar sem verktakar sinna úrgangsþjónustu fyrir sveitarfélög, byggir Úrvinnslusjóður kostnaðarþátttöku sína á gögnum frá verktökunum. Í slíkum tilvikum þurfa sveitarfélög að semja við verktaka sína um að verktakar sendi mánaðarlegar skilagreinar til Úrvinnslusjóðs. Form fyrir skilagreinarnar má nálgast á vefsíðu Úrvinnslusjóðs og þar geta sveitarfélög einnig nálgast upplýsingar um safnað magn og aðrar forsendur greiðslna vegna sérstakrar söfnunar.

Flutningur flokkaðs úrgangs: Úrvinnslusjóður greiðir flutningsjöfnun til skráðra þjónustuaðila (sveitarfélags eða verktaka) fyrir flutning úrgangs sem er á ábyrgð sjóðsins. Flutningsjöfnun á að standa undir kostnaði við nauðsynlegan flutning innanlands til svokallaðra núllpunkta, sem eru staðir þar sem hægt er að koma úrganginum til ráðstöfunaraðila. Verðskrá Úrvinnslusjóðs byggir á vegalengdum frá móttökustöðvum til núllpunkta.

Ráðstöfun: Úrvinnslusjóður greiðir þjónustuaðilum fyrir lokameðhöndlun úrgangs á ábyrgð sjóðsins samkvæmt gjaldskrá sjóðsins. Gjaldið fer eftir því hvort úrgangurinn fari til undirbúnings fyrir endurnotkun, endurvinnslu, annarrar endurnýtingar eða förgunar. Jafnframt stendur sjóðurinn straum af kostnaði við förgun úrgangs sem blandast hefur vöru eða umbúðum sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af, enda sé blöndunin hluti af eðlilegri notkun vörunnar.

Upplýsingasöfnun, upplýsingaskil og upplýsingagjöf sem snýr að þeim úrgangi sem fellur undir kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar.

Ökutæki: Úrvinnslugjald er lagt á ökutæki við nýskráningu og er því ráðstafað til þjónustuaðila og sveitarfélaga sem meðhöndla úr sér gengin ökutæki. Móttaka úr sér genginna ökutækja er á ábyrgð sveitarfélaga og greiðir Úrvinnslusjóður þeim eftir gjaldskrá, en þau geta útvistað móttökunni til verktaka eins og bifvélaverkstæða. Nokkrir þjónustuaðilar við ökutæki eru skráðir beint hjá Úrvinnslusjóði og sækja greiðslur þangað beint. Greitt er út fyrir úrvinnslu ökutækja þegar ökutækið er afskráð hjá Samgöngustofu og gerist það sjálfvirkt, þannig sveitarfélög þurfa ekki að sækja slíkar greiðslur. Auk úrvinnslugjalds er skilagjald á ökutækjum sem fæst greitt af Fjársýslu ríkisins til þess sem afskráir ökutækið.

Hreinsun á víðavangi: Úrvinnslusjóður greiðir samkvæmt gjaldskrá sinni fyrir hreinsun á víðavangi á plastvörum og veiðarfærum sem innihalda plast. Úrvinnslusjóður bindur greiðslur sínar við hreinsun á vegum sveitarfélaga og annarra opinberra aðila eða hreinsun sem gerð er í umboði þeirra. Skilmálar fyrir greiðslur í þessum flokki eru birtir á vef Úrvinnslusjóðs. Hreinsun á víðavangi nær hvoru tveggja til hreinsunar opinna svæða og þess sem safnast í ruslabiður sem stjórnvöld koma fyrir á almannafæri.

Styrkir til fræðslumála: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að fjármagna upplýsingagjöf um sína vöruflokka, sér í lagi varðandi rafhlöður og rafgeyma, raf- og rafeindatæki, plastvara og veiðarfæra sem innihalda plast. Í gildi eru verklagsreglur um úthlutun styrkja vegna fræðslumála.

Starfsemi Úrvinnslusjóðs og fræðsluhlutverk sjóðsins

Úrvinnslugjald er reiknað út frá áætluðum kostnaði við endurgjald vegna flutningsjöfnunar og ráðstöfunar úrgangs og tekur mið af áætluðu hlutfalli úrgangs sem safnað er miðað við magn vöru sem sett er á markað. Fyrir þá úrgangsflokka sem Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að sé safnað sérstaklega, er kostnaður vegna sérstakrar söfnunar einnig reiknaður inn í úrvinnslugjaldið.

Sveitarfélög geta gerst þjónustuaðilar Úrvinnslusjóðs og fengið auk greiðslna fyrir sérstaka söfnun, greiðslur fyrir meðhöndlun og ráðstöfun annarra úrgangstegunda sem bera úrvinnslugjald, s.s. hjólbarða, spilliefna, raftækja, umbúða, pappa og pappírs, heyrúlluplasts og annars plasts.

Dæmi um aðgerðir sem tengjast gjaldskrá og innheimtu

Innleiðing virkrar mengunarbótareglu: Tryggja að gjaldtaka standi að fullu undir kostnaði við meðhöndlun úrgangs og innleiða „borgað þegar hent er“ kerfi við innheimtu.

Hagrænir hvatar notaðir með því að nýta heimild í lögum til að færa innheimtu hluta raunkostnaðar við söfnun á lífúrgangi yfir á innheimtu fyrir blandaðan úrgang.

Regluleg upplýsingagjöf um kostnað vegna meðhöndlunar úrgangs: Birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði.

Kostir framlengdrar framleiðendaábyrgðar nýttir: Við innkaup á úrgangsþjónustu verður tryggt sérstaklega að kostnaðarþátttaka framleiðenda og innflytjenda í gegnum starfsemi Úrvinnslusjóðs sé virk í samræmi við lög um úrvinnslugjald. Sveitarfélög geta gert kröfur í útboðum um að greiðslur frá Úrvinnslusjóði komi til frádráttar þeim greiðslum sem greiddar eru til verktaka, til þess að breytingar eða hækkanir gjaldskráa komi sveitarfélögum til góða. Áreiðanlegri innheimta: Fjárfesta í bílavogum og sjálfsafgreiðslukerfi á söfnunar- og móttökustöðvum sem verði undirstaða gjaldheimtu inn á stöðvarnar í samræmi við „borgað þegar hent er.“