Kjarninn í svæðisáætlun er að greina frá markmiðum um að draga úr myndun úrgangs, auka undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu og skýra frá því hvaða leiðir verða farnar til að ná markmiðum. Að lágmarki skal ná markmiðum sem fram koma í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, meðal annars tölulegum markmiðum varðandi heimilisúrgang og úrgangsforvarnir þ.m.t. leiðir til að auka endurnotkun.
Svæðisáætlun er umfangsmikil og því er algengt að hún sé samvinnuverkefni sveitarfélaga, þótt sveitarfélögum sé heimilt að setja sér eigin svæðisáætlun. Ef sveitarstjórnir setja sér svæðisáætlun í sameiningu er hvatt til þess að nýta samlegðaráhrif á sem flestum sviðum og samræma flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs sem og upplýsingagjöf. Einnig notkun grenndar-, söfnunar-, móttöku- og endurnýtingarstöðva og annarra innviða. Sveitarfélög geta unnið sameiginlega samþykkt um meðhöndlun úrgangs þar sem þessi atriði væru samræmd á öllu svæðinu.
Svæðisáætlun getur verið samvinnuverkefni nokkurra sveitarfélaga. Ef sú leið er farin er hvatt til þess að nýta samlegðaráhrif á sem flestum sviðum og samræma flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs sem og upplýsingagjöf og notkun grenndar-, söfnunar-, móttöku- og endurnýtingarstöðva og annarra innviða. Sveitarfélög geta unnið sameiginlega samþykkt um meðhöndlun úrgangs þar sem þessi atriði væru samræmd á öllu svæðinu.
Áætlunin er gerð til tólf ára í senn, en meta skal á a.m.k. sex ára fresti hvort þörf sé á endurskoðun. Áætlunina skal auglýsa til umsagnar og birta skal samþykkta áætlun. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett að hafa samráð um gerð áætlunar við íbúa og hagaðila á fundum, kynningum eða með öðrum hætti sem hentar á hverjum stað. Þó er skylt að auglýsa umhverfisskýrslu svæðisáætlunar til umsagnar. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með að svæðisáætlanir séu gerðar og leggur faglegt mat á efni þeirra.
Svæðisáætlun skal taka tillit til landfræðilegra aðstæðna og umfangs svæðisins. Áskoranir eru ólíkar eftir því hvort um er að ræða þéttbýlissvæði, dreifðar byggðir, landfræðilega stór svæði, erfiða fjallvegi eða greiðfærar götur. Umfang orlofsbyggða innan svæðisins hefur sömuleiðis mikið að segja. Þá þarf að taka mið af atvinnustarfsemi á svæðinu, svo sem hvort um er að ræða landbúnað, ferðaþjónustu eða iðnað. Verkefnin sem tiltekin eru í svæðisáætlun taka mið af þeim árangri sem sveitarfélögin, íbúar og atvinnulíf hafa þegar náð varðandi lágmörkun úrgangs og bætta flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Jafnframt þarf að horfa til þeirra innviða sem eru á svæðinu og skoða þörf á fjárfestingu í auknum innviðum.
Við gerð svæðisáætlunar þarf að byrja á að greina stöðu úrgangsmála á viðkomandi svæði og þróun til framtíðar. Greiningin snýr að tæknilegum atriðum eins og aðstöðu sem til staðar er fyrir flokkun, móttöku og aðra meðhöndlun úrgangs, hvaða fyrirkomulag er á söfnun úrgangs og hvernig tölfræðigögnum um úrgang er safnað. Þegar núverandi staða hefur verið teiknuð upp þarf að skoða hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað til að uppfylla kröfur og ná settum markmiðum og hvaða þörf er á uppbyggingu innviða. Niðurstaða þessarar skoðunar endurspeglast síðan í aðgerðum sem settar eru fram til að bæta endurvinnslu og aðra endurnýtingu og förgun og lágmarka myndun úrgangs.
Auk þess sem hér hefur verið rakið skal, eftir því sem við á, fjalla um önnur atriði eins og skipulag úrgangsmála, fræðslu og kynningarmál og stjórntæki til að takast á við áskoranir. Hér er einkum átt við hagræn stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs og er í því sambandi vísað til lista sem settur er fram í tilskipun Evrópusambandsins, sjá kafla 3.6.
Sniðmát fyrir svæðisáætlun sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs er í viðauka 1.
„Grundvallaratriði til þess að mögulegt sé að endurvinna úrgangsstraum er að hann sé tiltölulega hreinn, þ.e. að mestu laus við óhreinindi og aðskotahluti og sé ekki blandaður öðrum úrgangsflokkum. Sérstök söfnun úrgangsflokka er lykilatriði til að tryggja þetta og stuðla að því að hver úrgangsstraumur henti sem hráefni í hágæða endurvinnslu. Það er jafnframt mikilvægt að það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir handhafa úrgangs að skila úrganginum flokkuðum til endurvinnslu, fremur en að skila honum með blönduðum úrgangi sem síðan endar í brennslu eða urðun.“
Stefna ráðherra í úrgangsmálum – Í átt að hringrásarhagkerfi, 2021