Sveitarfélög hafa skyldur varðandi gerð upplýsingaefnis og fræðslu um úrgangsmál sem þau útbúa í samvinnu við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir. Umhverfis- og orkustofnun, Úrvinnslusjóður, Endurvinnslan hf. og mögulega Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa einnig fræðsluhlutverk og til að tryggja sem bestan árangur er æskilegt að samvinna sé milli aðila.
Skylda sveitarfélaga varðandi fræðslu og kynningu er fyrst og fremst að gefa upplýsingar um söfnun og aðra úrgangsstjórnun á viðkomandi svæði svo að einstaklingar, lögaðilar og aðrir handhafar úrgangs þekki skyldur sínar, t.d. um losunartíðni íláta á lóðum og staðsetningar grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva. Góð upplýsingagjöf er forsenda þess að úrgangsstjórnun gangi vel fyrir sig í sveitarfélaginu. Sveitarfélög skulu einnig gera upplýsingaefni um úrgangsforvarnir. Sveitarfélög geta starfað saman að fræðslu og upplýsingagjöf. Sveitarfélag eða byggðasamlag skal árlega birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.
Að lágmarki skal nota samræmdar flokkunarmerkingar fyrir pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni samkvæmt fyrirmælum í reglugerð um meðhöndlun úrgangs Mælt er með því að nota aðrar samræmdar merkingar fyrir alla flokka úrgangs til að auðvelda flokkun, auka skilvirkni kerfisins og lágmarka mengun í úrgangsstraumum.
Umhverfis- og orkustofnun hefur hlutverk við gerð almenns fræðsluefnis fyrir almenning og lögaðila um úrgangsforvarnir og meðhöndlun úrgangs. Fræðslan er mótuð í samvinnu við sveitarfélög, Úrvinnslusjóð, Endurvinnsluna hf., rekstraraðila og aðra hagaðila. Huga skal að plastvörum, möguleikum margnota í stað einnota vara, áhrifum plastvara á umhverfið og áhrifum þess að fleygja rusli á víðavangi. Stofnunin sér um samræmdar flokkunarmerkingar fyrir úrgang og heldur einnig utan um úrgangstölfræði Íslands og miðlar henni.
Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hf. hafa fræðsluhlutverk varðandi vörur og umbúðir á þeirra ábyrgð, meðal annars um áhrif þess að fleygja rusli á víðavangi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar varanna og umbúðanna þegar þær eru orðnar að úrgangi, einkum áhrif þeirra á sjávarumhverfi. Jafnframt ber þeim að fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sem er til komið vegna þessara vara, ásamt sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun. Úrvinnslusjóður hefur samið við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi um að samtökin taki yfir hlutverk Úrvinnslusjóðs hvað varðar notkun veiðarfæra úr plasti en í samningnum er ekki kveðið nógu skýrt á um hvoru megin ábyrgð á fræðslu liggur.
Dæmi um aðgerðir til að bæta upplýsingagjöf og gera meðhöndlun úrgangs betri fyrir umhverfið
Auka upplýsingagjöf til íbúa og rekstraraðila: Koma upp og reka vefsíðu þar sem íbúar og lögaðilar á svæðinu geta nálgast upplýsingar um flokkun og skil úrgangs, hirðudagatal og staðsetningar á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum. Einnig má koma á framfæri upplýsingum um hvernig gengur að ná markmiðum og öðrum tölulegum upplýsingum.
Innleiða samræmdar flokkunarmerkingar: Innleiða samræmdar merkingar í söfnun úrgangs á lóðum og á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum. Einnig inni á öllum stofnunum sveitarfélags og á ruslabiðum og ílátum sem komið er fyrir á viðburðum sem eru haldnir utandyra. Horft er til samnorrænna merkinga á fleiri tegundir úrgangs en kveðið er á um í lögum og reglugerðum og má finna í handbók um flokkunarmerkingarnar á vefnum úrgangur.is.
Gera leiðbeiningar um flokkun: Gefa út flokkunarleiðbeiningar með áherslu á að skýra hvernig endurvinnslustraumum er haldið hreinum og hvað verður um efnin. Áhersla lögð á að upplýsa notendur um ábatann af því að flokka, bæði umhverfislegan ávinning og hagrænan þar sem við á.
Átak í að samræma flokkun heimilisúrgangs hjá lögaðilum: Flokkun heimilisúrgangs hjá heimilum, stofnunum og lögaðilum innan sveitarfélagsins sé samræmd og skilvirk til að tryggja hreinleika endurvinnsluefna og að sveitarfélag nái að uppfylla töluleg markmið er kemur að endurvinnslu heimilisúrgangs.
Auka vitund með bættri fræðslu: Sameiginlegt fræðsluátak í samstarfi við Umhverfis- og orkustofnun, Úrvinnslusjóð og Endurvinnsluna á meðal stofnana, íbúa og lögaðila til að lágmarka myndun úrgangs. Einnig til að bæta flokkun og skil til endurnotkunar og endurvinnslu svo hreinleiki endurvinnsluefna haldi sér þannig að hægt sé að tryggja hámarks nýtingu hráefna.
Bæta árangur í úrgangsmeðhöndlun: Bæta upplýsingagjöf í samstarfi við Umhverfis- og orkustofnun um stöðu úrgangsmeðhöndlunar í sveitarfélaginu með hliðsjón af markmiðum sem eru í gildi. Verktakar hafa lagalega skyldu til að skila gögnum til Umhverfis- og orkustofnunar en sveitarfélög geta gert þá kröfu til verktaka um að skila sem áreiðanlegustum gögnum hverju sinni um magn úrgangs og meðhöndlun hans. Tilgreina þarf kröfur um reglulega upplýsingagjöf verktaka til sveitarfélagsins í innkaupasamningum (sjá viðauka 6).