Sveitarfélög skulu ein og sér, eða í samstarfi við aðra, stuðla að úrgangsforvörnum hjá stofnunum sínum og íbúum með markvissum aðgerðum. Gera skal grein fyrir aðgerðum á þessu sviði í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög skulu gera upplýsingaefni um úrgangsforvarnir.

Úrgangsforvarnir miða að því að efni og vörur verði ekki að úrgangi og skaðleg áhrif af úrgangi minnki. Sveitarfélög geta á virkan hátt stuðlað að úrgangsforvörnum með breytingum í úrgangsstjórnun sem færa úrgangsstrauma frá förgun og endurnýtingu yfir í endurnotkun. Mikil gróska hefur verið hjá einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og sveitarfélögum þegar kemur að verkefnum sem snúa að því að efni og vörur fái nýtt líf. Nefna má skiptimarkaði með föt og hluti, átak í viðgerðum, minni matarsóun, áhersla á að kaupa inn margnota vörur í stað einnota og aðrar aðgerðir til að auka nýtni og minnka sóun.

Í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, er sett fram stefna um úrgangsforvarnir 2016 – 2027 sem hefur að markmiði að draga úr myndun úrgangs, bæta nýtingu auðlinda og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hráefnisnotkun og minnka dreifingu hættulegra efna. Sveitarfélög geta nýtt sér efni og áhersluverkefni Umhverfis- og orkustofnunar undir formerkjum Saman gegn sóun í eigin vinnu við úrgangsforvarnir. Stefnan er nú í endurskoðun og er nýrrar stefnu að vænta undir lok árs 2025.

Aðgerðaáætlun gegn matarsóun, Minni matarsóun, var gefin út 2021 og aðgerðaáætlun í plastmálefnum, Úr viðjum platsins, var gefin úr 2020. Sveitarfélög hafa hlutverk í mörgum aðgerða sem þar eru settar fram geta hvert og eitt lagt sitt af mörkum.

Dæmi um aðgerðir sem stuðla að úrgangsforvörnum

Átaksverkefni hjá stofnunum sveitarfélaga: Skólar, leikskólar, bókasöfn og hjúkrunarheimili skoði leiðir til að auka endurnotkun efnis svo það verði ekki að úrgangi.

Áætlun um úrgangsforvarnir: Sveitarfélög leggja fram áætlun fyrir sitt svæði um átak meðal íbúa og rekstraraðila um hvernig megi lágmarka myndun úrgangs og gera aðgengilega á sameiginlegri vefsíðu sem heldur utan um verkefni tengd svæðisáætlun.

Upplýsingamiðlun um góðar úrgangsforvarnir: Sveitarfélög miðla upplýsingum um góð dæmi í nærsamfélaginu þar sem komið hefur verið í veg fyrir myndun úrgangs með árangursríkum og hagkvæmum hætti sem eru öðrum til eftirbreytni og hvatningar.

Opinber innkaup: Sveitarfélagið hætti innkaupum á einnota vörum og kaupi í staðinn inn fjölnota vörur. Til dæmis noti vinnustaðir sódavatnsvél í stað sódavatns í einnota umbúðum, óski eftir umbúðalausum vörum eða vörum með áfyllingarmöguleika, rafrænar lausnir notaðar í stað útprentaðra skjala, hleðslurafhlöður í stað einnota rafhlaðna o.s.frv.

Hringrásarmiðstöðvar eða félagsheimili: Sveitarfélög leggja til svæði eða húsnæði undir aðstöðu sem einstaklingar, félagasamtök og aðrir geta nýtt fyrir skiptimarkaði, viðgerðarþjónustu, fræðslu, viðburði eða annað sem tengist hringrásarhagkerfinu.

Minna dót: Tækifærisgjafir séu gagnlegar öllum sem þær fá. Jólagjafir til starfsmanna séu helst ekki hlutir heldur upplifanir. Sérmerktar tækifærisgjafir eins og stuttermabolir, sundpokar eða fjölnota pokar eru algengir sóunarvaldar því íbúar eiga oft nóg af þeim, þær samræmast ekki tísku eða þær úreldast hratt.

Átak gegn matarsóun: Sveitarfélög stofna sameiginlegan stýrihóp um lágmörkun matarsóunar sem mun skila kostnaðarmetnum tillögum um minni matarsóun á öllu svæðinu, hvort sem er hjá íbúum, lögaðilum eða hjá stofnunum.

Umhverfisvottanir: Sveitarstjórn auðveldi innleiðingu umhverfisvottaðra vara því úrgangur frá þeim hefur almennt minni skaðsemi fyrir umhverfi og heilsu manna heldur en óumhverfisvottaðir kostir. Þetta má gera með því að kaupa inn umhverfismerktar vörur fyrir stofnanir sveitarfélagsins og með því að auka framboð umhverfisvottaðra bygginga í sveitarfélaginu.

Vitundarvakning: Sveitarfélög taka virkan þátt í árlegri Nýtniviku (European week for waste reduction – EWWR) og vitundarvakningu á borð við Plastlausan september.

†