Þegar litið er á úrgangstölfræðina fyrir heimilisúrgang, þá lítur út fyrir að það sé mikill munur á neyslumynstri Norðurlandanna, og því magni sem löndin henda af heimilisúrgangi. Má þar helst nefna að samkvæmt tölfræðinni, þá henda Danir tvöfalt meira rusli en Svíar.
Meðaltal Evrópu | Danmörk | Ísland | Noregur | Svíþjóð | |
Heimilisúrgangur á hvern íbúa (árið 2021) | 534 kg | 800 kg | 686 kg | 736 kg | 418 kg |
Út frá einmitt þessum gögnum fæðist verkefni, en það þótti einkennilegt að það munaði svona miklu á þjóðum sem fyrirfam hefði verið haldið að væru svipaðar í neyslumynstri, o.þ.a.l. úrgangi.
Verkefnahópur, skipaður fulltrúa Umhverfis- og orkustofnunar, ásamt fulltrúum frá systurstofnunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, hefur rannsakað ástæðurnar fyrir þessum mikla mun á heimilisúrgangi milli landanna, og komist að því að hann stafar af aðferðafræðilegum mun – en ekki raunverulegum mun á úrgangsmagni. Útkoma verkefnisins er ítarleg skýrsla. Þar má finna upplýsingar um rannsóknina, niðurstöður og ráðleggingar.
Í skýrslunni er kortlagt hvernig löndin beita aðferðum ESB við skráningu á heimilisúrgangi, í ljósi þess að mikill munur er á skráðu úrgangsmagni, miðað við höfðatölu, milli landanna.
Það er mikilvægt að löndin skrái úrgang á sambærilegan hátt, þar sem þessi gögn eru send til ESB og notuð til að meta hvort löndin uppfylli endurvinnslumarkmið sambandsins. Áreiðanleg gögn eru einnig grundvöllur fyrir rétta stefnumótun til að efla úrgangsforvarnir og endurvinnslu.
Helstu niðurstöður verkefnisins:
- Ósamræmi í skráningu á heimilisúrgangi
Skýrslan greinir helsta ósamræmið á því hvernig löndin nýta sér aðferðir ESB við skráningu úrgangs. Til að sjá ítarlega greiningu á ósamræminu þarf að líta í skýrsluna sjálfa, en til að draga saman tvær helstu ástæðurnar eru þær:- Mismunandi túlkun á ESB aðferðafræðinni milli landa
- Mismunandi aðgengi að gögnum
- Sameiginlegar norrænar tillögur til ESB um hagnýtari og einfaldari aðferð
Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur til ESB um hvernig megi draga úr ósamræminu á milli landanna, og leysa úr þeim áskorunum sem verkefnið bendir á. Tillögurnar leggja áherslu á einfaldari og hagnýtari aðferð til að draga úr óvissu í túlkun á gögnum og aðferðafræði, og auðvelda samanburð milli landa sem búa yfir mismunandi aðgengi að gögnum.
Eurostat hefur fengið kynningu á niðurstöðum verkefnisins og mun skoða hvernig þau geta bætt leiðbeiningar sínar með það að markmiði að auka samanburðarhæfni gagna.
Tveggja síðna samantekt verkefnisins má finna hér: Municipal waste statistics inconsistencies – Two pager
Skýrsluna í heild sinni má finna hér: Municipal waste statistics inconsistencies