Umhverfis- og orkustofnun tekur við gögnum um magn og meðhöndlun úrgangs á Íslandi í gegnum gagnagátt stofnunarinnar. Nú hefur stofnunin breytt skráningu á úrgangsflokknum 11.4 Ristarúrgangur og seyra (liður 51) og aðskilið í tvennt, annars vegar ristarúrgang (19 08 01) sem nú er skráður í úrgangsflokkinn 10.22 Blandaður óskilgreindur úrgangur frá rekstri (liður 47) og hins vegar seyru skráð áfram í 11.4 Seyra.
Seyra eru þau óhreinindi sem skilin eru frá fráveituvatni með botnfellingu, síun eða fleytingu án síu- eða ristarúrgangs, þ.e. eftir að forhreinsun hefur átt sér stað. Ristarúrgangur er hins vegar sá úrgangur sem aldrei hefði átt að rata í fráveituna (tíðarvörur, blautþurrkur, eyrnapinnar, hár o.s.frv.). Seyra er sótt í annað hvort hreinsivirki fráveitu eða í rotþrær og hún meðhöndluð sem lífbrjótanlegur rekstrarúrgangur.
Á síðasta ári þurftu rekstraraðilar, sem skila gögnum um ofangreindan úrgang, að tilgreina hvort seyran hafi komið frá hreinsivirkjum eða úr rotþróm. Þessi aðgreining ristarúrgangs frá seyru er annar liður í að bæta þessa tölfræði. Með þessu er verið að mæta auknum kröfum um nákvæmni gagna um gerð, magn og meðhöndlun úrgangs vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá úrgangsmeðhöndlun á Íslandi í svokölluðu losunarbókhaldi landsins sem unnið er af stofnuninni.
Forsenda þess að seyra sé endurnýtt (en ekki fargað) er að hún sé hreinsuð og innihaldi engan ristarúrgang. Urðun á ristarúrgangi veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Endurnýting seyru er því mun betri kostur. Næringarefni í seyru (köfnunarefni (N) og fosfór (P)) eru í raun takmörkuð auðlind og má vel nýta til uppgræðslu lands (eða til gasframleiðslu o.fl.). Búast má við að kröfur til skólphreinsunar og endurnýtingar seyru aukist á komandi árum.
Þessi breyting er í takti við íslenska reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru og samevrópska úrgangstölfræðikerfið (WstatR sjá frekar í Guidance document on waste classification (EWC-Stat categories) þar sem ristarúrgangur er aðgreindur frá seyrunni í flokkun.
Viðeigandi rekstraraðilar hafa verið látnir vita af breytingunni.