Betur gert, flokkað og merkt

Hvað í flokkunum er í gangi?!

Um áramótin 2023 tóku gildi ný lög í úrgangsmálum sem eru oft kölluð einu nafni hringrásarlögin. Lögin boða jákvæðar breytingar í því hvernig við förum með úrganginn okkar með því að stuðla að aukinni nýtni, endurnotkun og endurvinnslu með það að markmiði að styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sjá einnig skoðanagrein á vísir.is: Betur gert, flokkað og merkt! 

Flokkunarmerkingar heimilisúrgangs

Matarleifar

Pappír

Plastumbúðir

Blandaður úrgangur

Gler

Málmumbúðir

Textíll

Spilliefni

Flokkarnir sjö

Við heimili og vinnustaði á að flokka í pappír, plast, matarleifar og svo blandaðan úrgang. Textíl, málmum, gleri og spilliefnum skal safnað með öðrum hætti, t.d. á grenndarstöðvum. Bannað verður að urða eða brenna því sem er flokkað enda er markmiðið að koma því til endurnýtingar eða endurvinnslu.

Sveitarfélögin sjá um að innleiða nýtt fyrirkomulag, flokkunarílát og útfæra söfnun. Kynntu þér stöðuna á innleiðingunni hjá þínu sveitarfélagi!

Sömu flokkunarmerkingar

Það sem allir landsmenn hafa beðið eftir – sömu merkingar á ílátum og tunnum fyrir úrgang verður að veruleika á árinu 2023! Rétt skal vera létt og létt að flokka rétt! 

Flokkun úrgangs á að vera einföld og skilvirk. Nú er búið að lögfesta notkun á sömu flokkunarmerkingum fyrir tunnur og ílát. Notast verður við samnorrænar merkingar sem FENÚR þýddi og staðfærði. Þessar merkingar er einnig að finna á mörgum vöruflokkum sem sýnir á einfaldan hátt í hvaða flokk varan eða umbúðirnar eiga að fara að notkun lokinni. Hönnuðir umbúða geta hér nálgast hönnunarleiðbeiningar EUpicto um hvernig á að nota merkingarnar á umbúðir. 

Meira um samnorrænu merkingarnar á vef FENÚR.

Borgað þegar hent er

Við lagabreytinguna er sveitarfélögunum skylt að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Sveitarfélög þurfa að taka skref frá því að nota kerfi sem innheimtir eitt fast gjald fyrir meðhöndlun úrgangs á hvert heimili, í að nota innheimtukerfi sem er sniðið að því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.

Innheimt verður eftir kerfi sem kallast Borgað þegar hent er sem gengur þannig fyrir sig að þú borgar mismunandi mikið fyrir hvern flokk og borgar minna ef þú hendir minna. Kerfin eru byggð upp í samræmi við mengunarbótaregluna en inntak hennar er að sá borgi sem mengar.

Meira um Borgað þegar hent er á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.