Útgáfa handbókar sveitarfélaga

24. júní 2022

Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar hefur verið gefin út og er birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Um er að ræða vegvísi sveitarfélaga í úrgangsmálum sem fjallar um þær stefnumótandi ákvarðanir og þjónustu sem sveitarstjórnum eru faldar samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Í Handbókinni má m.a. finna ítarlegar leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana (kafli 3.2 og sniðmát í VIÐAUKA 1) sem sveitarstjórnum er skylt að gefa út skv 9. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. 

Framkvæmd og útgáfa Handbókarinnar er sett fram í aðgerð 22 (bls. 104) í stefnu ráðherra í úrgangsmálum sem nefnist Í átt að hringrásarhagkerfi. Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun báru sameiginlega ábyrgð á aðgerðinni en samið var um að sambandið færi með framkvæmd hennar. Ráðgjafar- og verkfræðifyrirtækið VSÓ Ráðgjöf leiddi vinnu við gerð handbókarinnar og hefur unnið náið með sérfræðingum sambandsins og Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun þakkar sambandinu og VSÓ Ráðgjöf fyrir góða vinnu og farsælt samstarf við gerð Handbókarinnar. 

Umhverfisstofnun vinnur að uppsetningu handbókar í formi vefsíðu sem fyrirhugað er að taka í gagnið fyrir áramót. 

Það er von þeirra sem komið hafa að gerð handbókarinnar að hún muni nýtast sem góður grunnur til frekari fræðslu við innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi. Frekari kynning á henni er fyrirhuguð að loknum sumarleyfum og verður auglýst nánar síðar. 

Í handbókinni má m.a. finna ítarlegar leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana (kafli 3.2 og sniðmát í VIÐAUKA 1) sem sveitarstjórnum er skylt að gefa út skv 9. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Nánar má sjá efnistök handbókarinnar í efnisyfirlitinu. 

Ef upp koma spurningar um handbókina er velkomið að hafa samband eða senda fyrirspurn á ust@ust.is eða samband@samband.is

Fleiri fréttir