Niðurstöður mælinga á matarsóun

29. september 2023

Matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum.

Þetta sýna niðurstöður mælinga Umhverfisstofnunar sem birtar eru í dag á alþjóðlegur degi Sameinuðu þjóðanna gegn matarsóun. Stofnunin hefur í fyrsta sinn mælt matarsóun í allri virðiskeðju matvæla eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins.

Ísland hefur sett sér markmið um að draga úr matarsóun, bæði sem hluti af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sem hluta af framlagi okkar til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Lágmörkun matarsóunar er loftslagsmál, efnahagsmál og mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

Hvar er mat sóað?

Mælingarnar á matarsóun náðu yfir alla hlekki virðiskeðjunnar, þ.e.a.s. frumframleiðslu, vinnslu, framleiðslu, dreifingu og smásölu matvæla, veitingahús, matarþjónustu og heimili. Niðurstöðurnar sýna að matarsóun er fyrst og fremst í frumframleiðslu annars vegar og hins vegar á heimilum.

Matarsóun í frumframleiðslu skýrist fyrst og fremst af umfangsmiklum sjávarútvegi, en þar hefur framleiðslumagnið mest að segja á meðan nýtingin virðist vera góð. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að matarsóun á heimilum hafi ekki aukist frá mælingum árin 2016 og 2019 heldur hafi nokkurn veginn staðið í stað. Erfitt er hins vegar að alhæfa um breytingarnar milli ára þar sem um breytta aðferðafræði er að ræða.

Einna mikilvægast er að minnka matarsóun á heimilum í landinu. Þar tapast mestu verðmætin.  Auk þess verða mestu umhverfisáhrifin þegar mat er sóað á heimilum. Verð á matvælum hefur hækkað nokkuð hratt síðastliðið ár og því til mikils að vinna að draga úr matarsóun með það að markmiði að bæta stöðu heimilanna. Að því sögðu er verkefnið þó ekki einkamál heimilanna og fyrirtæki og framleiðendur þurfa að leggja sitt af mörkum með því að hanna og markaðssetja vörur sínar með matarsóun á heimilum í huga.

Hlekkur virðiskeðjuMatarsóun á mann 2022 (kg)Matarsóun 2022 (tonn)
Frumframleiðsla77,229.060
Vinnsla og framleiðsla4,21.590
Dreifing og smásala5,11.930
Veitingahús og matarþjónusta10,33.860
Heimili63,223.780
Samtals16060.220

Ísland kemur vel út

Matarsóun í fjórum af fimm hlekkjum virðiskeðjunnar er undir meðaltali Evrópu.

Sóun í vinnslu og framleiðslu, smásölu og dreifingu og matarþjónustugeiranum mælist nokkuð undir meðaltali í Evrópu. Umfang matarsóunar á heimilum er svipað því sem gengur og gerist í öðrum Evrópuríkjum. Sóun í frumframleiðslu er nokkuð yfir meðaltali í en helst í hendur við mikla matvælaframleiðslu á hvern Íslending.

Metnaðarfull markmið og fjölbreyttar aðgerðir

Aðgerðaáætlunin, Minni matarsóun, sem ýtt var úr vör haustið 2021 inniheldur 24 aðgerðir sem  draga eiga úr matarsóun og stuðla að því að settum markmiðum Íslands um að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030 verði náð. Mælingarnar nú verða notaðar sem grunnlína vegna þessara markmiða.

Aðgerðirnar eru bæði á ábyrgð stjórnvalda og atvinnulífsins. Fjórtán aðgerðir eru þegar í framkvæmd eða er lokið. Ráðuneytið hefur nú falið Umhverfisstofnun að hefja framkvæmd tveggja nýrra aðgerða úr áætluninni sem stuðla eiga að nauðsynlegum breytingum á viðhorfum í samfélaginu gagnvart matarsóun.  Annars vegar er um að ræða aðgerð sem felst í auknu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda um að virkja atvinnulífið enn frekar við að ná niður matarsóun.  Hins vegar er aðgerð sem snýr að því að bæta menntun í landinu um matarsóun og hringrásarhagkerfið og verður með því verkefni lagður grunnur að breyttu samfélagi til framtíðar þegar kemur að sóun á mat og öðrum verðmætum.

Ítarefni um matarsóun og rannsóknir

Frekari upplýsingar um rannsóknina veitir Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson (johannesbt@ust.is), sérfræðingur á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis.

Fleiri fréttir