Losun frá úrgangi árið 2021

5. júní 2023

Urðun úrgangs er langversti kosturinn við að meðhöndla úrgang, bæði ef horft er til losunar gróðurhúsalofttegunda og hvernig urðun veldur því að verðmætum auðlindum er glatað úr hringrásinni. Urðun úrgangs hefur einnig bein neikvæð áhrif á umhverfið með mengun lífríkis á landi og í sjó.

Hvert tonn af úrgangi sem urðað er í dag losar í mörg ár inn í framtíðina og því er sérstaklega mikilvægt að hætta að urða þá úrgangsflokka sem hafa í för með sér mesta losun. Um 83% losunar frá urðun úrgangs árið 2021 var vegna urðunar lífræns úrgangs og pappírsefna.

Heildarlosun pappírs mikil

Pappír og pappi eru lengur að brotna niður en lífrænn úrgangur og ná því til lengri tíma litið að losa meira á urðunarstað. Ef við urðum 1 kílótonn af lífrænum úrgangi og 1 kílótonn af pappírsefnum sama dag þá losar lífræni úrgangurinn meira fyrstu fimm árin þar sem hann brotnar hraðar niður. Eftir það losa pappírsefnin meiri gróðurhúsalofttegundir þar til bæði efnin hafa brotnað niður að fullu. Heildarlosun yfir 50 ára tímabil við að urða kílótonn af pappír er 80% meiri en heildarlosun við urðun kílótonns af lífrænum úrgangi yfir sama tímabil. Það er því til mikils að vinna að forðast að pappírsefni endi í urðun.

Urðun stærsti hluti losunar frá úrgangi

Stærstur hluti losunar frá úrgangi á Íslandi árið 2021, að fráveitu meðtalinni, var vegna urðunar úrgangs, eða 77%. Sé fráveitan undanskilin verður hluti urðunar í losun frá úrgangi innanlands 94%. Hér er ekki horft til þeirrar losunar sem á sér stað eftir að úrgangur er sendur úr landi. Um 2% losunar frá úrgangi árið 2021 var vegna gas- og jarðgerðar. Hlutfallslega verður minni losun við bruna og gas- og jarðgerð en við urðun úrgangs. Brennsla úrgangs hérlendis olli 3% losunar gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi, að fráveitu undanskilinni. Við brennslu losna vissulega gróðurhúsalofttegundir og einnig loftmengunarefni. Hægt er að stemma stigu við losun loftmengunarefna með góðum hreinsibúnaði.

Með hertari aðgerðum í úrgangsstjórnun og auknum úrgangsforvörnum má áætla um helmings samdrátt í losun frá meðhöndlun úrgangs á næstu 10 árum. Vega þar þyngst aðgerðir er snúa að uppbyggingu á innviðum svo sem gas- og jarðgerðarstöð SORPU, banni við urðun lífræns úrgangs, innleiðing urðunarskatts, aðgerðir til að draga úr matarsóun, aðlögun að Borgað þegar hent er hjá sveitarfélögum og aukin framlengd framleiðendaábyrgð.


Fleiri fréttir