Flest notum við rafhlöður án þess að velta fyrir okkur hvaða umhverfisáhrif notkun þeirra hefur. Almennt fylgir því töluvert lægra umhverfisfótspor að nota fjölnota vörur í stað einnota vara og á það vel við um rafhlöður. Hleðslurafhlöður eru nefnilega mun betri kostur fyrir umhverfið en einnota rafhlöður.
Betri kostur fyrir umhverfið
Umhverfisáhrif af rafhlöðunotkun má helst rekja til framleiðsluferlisins. Kol eru algengasti orkugjafinn í framleiðslu rafhlaðna en námugröftur, málmvinnsla og framleiðsla rafhlaðna eru orkufrek ferli sem hafa mikil umhverfisáhrif í för með sér. Einnig skiptir máli að rafhlöðum sé fargað á réttan hátt því rafhlöður innihalda verðmæta málma sem henta til endurvinnslu en einnig ætandi efni, eiturefni og þungmálma sem hafa heilsuspillandi áhrif á menn og lífríkið.
Hleðslurafhlöður hafa marga kosti umfram einnota rafhlöður. Kolefnisfótspor hleðslurafhlaðna er margfalt minna en einnota rafhlaðna auk þess sem þær spara rafmagn, fara betur með lífríki og heilsu fólks sem og framleiðsla þeirra krefst minna magns verðmætra auðlinda. Notkun hleðslurafhlaðna í stað einnota rafhlaðna kemur einnig í veg fyrir losun krabbameinsvaldandi efna, loftmengunarefna, vatnssóun, ofauðgun vatns og önnur neikvæð áhrif á vistkerfi.
Mörg tæki nota rafhlöður
Dæmi um algengar smávörur þar sem auðvelt er að skipta út einnota rafhlöðum fyrir hleðslurafhlöður eru talstöðvar, klukkur, fjarstýringar, vasaljós, myndavélar, tölvumýs, reykskynjarar, útvörp, vasareiknar, dyrabjöllur og leikföng. Á þeim vinnustöðum þar sem rafhlöður eru notaðar í miklu magni er sérstaklega mikill ávinningur af umskiptunum og fjöldi vinnustaða hefur nú þegar skipt yfir í notkun hleðslurafhlaðna í stað einnota rafhlaðna.
Eftirlit mikilvægt
Þær rafhlöður sem seldar eru í dag þurfa að lúta ströngum gæðakröfum og hefur Umhverfisstofnun eftirlit með rafhlöðum og rafgeymum á markaði. Þrátt fyrir strangar reglur um rafhlöður, geta þær innihaldið hættuleg efni sem berast auðveldlega inn í fæðuvefi á Íslandi sé þeim ekki fargað á réttan hátt. Kaupendur eiga rétt á að fá upplýsingar um innihald og rétta förgun rafhlaðna og eiga þær upplýsingar að vera aðgengilegar á pakkningum. Tekið er á móti rafhlöðum til förgunar á öllum endurvinnslustöðvum og í verslunum sem selja rafhlöður. Reglur um innihaldsefni rafhlaðna voru hertar árin 2015-2018.