Heildarmagn úrgangs 2021 – magn heimilisúrgangs jókst um 9% á milli ára

28. febrúar 2023

Heildarmagn úrgangs á Íslandi var um 1.305 þúsund tonn árið 2021. Úrgangstölfræðin sýnir að úrgangsmagn hefur í heild aukist árið 2021 eftir að hafa dregist saman árið 2020. Magnið hefur þó ekki náð sömu hæðum og árin fyrir Covid. Urðun úrgangs, sem ein meðhöndlunarleið, hefur dregist saman á milli ára en endurvinnsla og önnur endurnýting hefur ekki aukist á sama tíma.

Um 86% af heildarmagni úrgangs árið 2021 fór til endurnýtingar og 14% í förgun og fór meira magn til endurnýtingar en á árinu áður og minna til förgunar. Ef ráðstöfun úrgangs er skoðuð með tilliti til uppruna úrgangs má sjá að endurnýtingarhlutfall heimilisúrgangs var 58%, endurnýting úrgangs frá iðnaði og öðrum rekstri var 76% og 99% fyrir úrgang frá mannvirkjagerð.

Heildarmagn heimilisúrgangs var um 246 þúsund tonn árið 2021. Fyrir hvern íbúa eru þetta um 667 kg sem er 9% aukning miðað við árið á undan. Magn heimilisúrgangs sem fór til förgunar árið 2021 dróst saman um 10% á milli ára, var um 42% árið 2021 en um 52% árið 2020.

Magn heimilisúrgangs jókst um 21 þúsund tonn á milli áranna 2020-2021 en hefur ekki náð toppi áranna 2018-2019 þegar magnið var um 250 þúsund tonn.

Aðeins um 27% heimilisúrgangs árið 2021 fór til endurvinnslu en Ísland hefur það að núverandi markmiði að ná 50% endurvinnslu heimilisúrgangs. Enn fer hlutfallslega lítið af heimilisúrgangi til endurnýtingar miðað við aðra upprunaflokka úrgangs og þó jákvætt sé að hlutfallslega minna magn af heimilisúrgangi lendi í förgun, þarf enn að auka hlutfall endurnýtingar og endurvinnslu sem ráðstöfunarleiða. Spennandi verður að fylgjast með hvaða áhrif breytingar á lögum sem tóku gildi núna um áramótin munu hafa á endurvinnslu heimilisúrgangs, en með breytingunum er sérstök söfnun gerð að skyldu fyrir pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Þessir flokkar eru einmitt stór hluti af því sem skilgreint er sem heimilisúrgangur.

Úrgangur frá mannvirkjagerð stærsti úrgangsstraumurinn

Stærsti úrgangsstraumurinn kemur frá mannvirkjagerð en sá úrgangur samanstendur mestmegnis af jarðefnum frá uppgreftri, s.s. hreinn jarðvegur, möl og sandur en einnig efnum eins og steypu, flísum, keramik og gleri. Slíkur úrgangur telst til óvirks úrgangs og er gjarnan notaður sem uppfyllingarefni eða í landmótun. Ráðstöfun af slíku tagi telst til endurnýtingar sem útskýrir hátt endurnýtingarhlutfall innan mannvirkjageirans eða 99%. Sú ráðstöfun skýrir einnig hátt endurnýtingarhlutfall heildarmagns úrgangs sem féll til á landinu árið 2021.

Úrgangsþríhyrningurinn skal hafður til grundvallar við meðhöndlun úrgangs

Önnur endurnýting er sú ráðstöfun sem er næstneðst í forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Æskilegt er að meðhöndlun úrgangs úr mannvirkjagerð færist ofar í úrgangsþríhyrningnum og litið sé frekar til endurvinnslu og undirbúnings fyrir endurnotkun við ráðstöfun hans en slíkar leiðir stuðla að minni umhverfisáhrifum. Nýju hringrásarlögin, sem tóku gildi 1. janúar 2023, kveða á um skyldu til að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang í a.m.k. spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs og standa væntingar til þess að aukin flokkun þessa úrgangs muni auka tækifæri til endurnotkunar á byggingarefnum og efla endurvinnslu þessara efna.

Samanburður við önnur ríki innan Evrópu

Árið 2021 var magn heimilisúrgangs á hvern íbúa á Íslandi 667 kg og var um 9% aukning frá fyrra ári. Ef horft er til aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) þá var meðaltal heimilisúrgangs árið 2021 innan ESB 530 kg/íbúa. Innan landa ESB og EES var Ísland í 7. sæti yfir magn heimilisúrgangs á íbúa árið 2021, en meira magn féll til í Austurríki, Danmörku, Lúxemborg, Belgíu, Noregi og Sviss. Magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hefur verið nokkuð stöðug innan ESB síðustu áratugi á meðan magnið hefur aukist jafnt og þétt hérlendis frá efnahagshruni.

Algengast er að bera saman magn heimilisúrgangs á milli ríkja í Evrópu þar sem heimilisúrgangur er svipaður í samsetningu á milli landa á meðan misjafnt er hvernig heildarmagn úrgangs eða aðrir úrgangsstraumar eru samsettir og stórir, allt eftir því hvaða atvinnugeirar eru ríkjandi í hverju ríki fyrir sig.

Til að ná betri samanburðarstöðu þarf Ísland ekki einungis að huga að betri ráðstöfun á úrgangi í takt við markmið hringrásarhagkerfisins, heldur fyrst og fremst beina athyglinni að úrgangsforvörnum, þ.e. hvar og hvernig má forðast myndun úrgangs.

Úrgangur er auðlind

Magn tölur úrgangs árið 2021 sýna að Ísland er enn langt frá því markmiði að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt. Heildarmagn úrgangs á Íslandi þarf að dragast verulega saman samhliða aukinni endurnýtingu og endurvinnslu. Ný lög í úrgangsmálum, nýju hringrásarlögin svokölluðu, eru mikilvægur þáttur í að styðja við myndun hringrásarhagkerfis hér á landi. Vegur þar einna þyngst ákvæði í lögunum um annars vegar skyldu til að safna lífúrgangi sérstaklega og bann við urðun hans, og hins vegar auknir fjárhagslegir hvatar til þess að draga úr myndun úrgangs og flokka úrgang betur. Innleiðing laganna stendur enn yfir en væntingar standa til þess að hægt verði að greina árangur af þeim og öðrum aðgerðum í tölfræðigögnum fyrir árin 2024-25. Á sama tíma og innleiðing laganna fer fram þarf einnig ákveðin vitundarvakning að eiga sér stað í samfélaginu þannig að litið verði á það sem í daglegu tali er kallað rusl sem auðlind.

Frekari upplýsingar um magn og meðhöndlun úrgangs má finna á mælaborði urgangur.is ! Einnig má sjá samantekt á skilgreiningu á hugtökum (eins og endurvinnsla, endurnýting og heimilisúrgangur) hér !

Fleiri fréttir