Í stefnu ráðherra í úrgangsmálum eru sett markmið fyrir ólíkar úrgangstegundir. Annars vegar eru
markmið sem hvert sveitarfélag skal ná innan síns svæðis og hins vegar landsmarkmið, þar sem
sveitarfélög hafa tiltekið hlutverk.
Markmið sveitarfélaga
Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná settum tölulegum markmiðum fyrir endurvinnslu og urðun
heimilisúrgangs sem og lífræns úrgangs frá heimilum annars vegar og rekstraraðilum hins vegar.
Sveitarfélög skulu sjálf setja sér markmið varðandi úrgangsforvarnir.
Endurvinnsla heimilisúrgangs: Markmið fyrir árið 2020 var 50% endurvinnsluhlutfall. Það fer svo
hækkandi í þrepum og er 55% árið 2025, 60% árið 2030 og 65% árið 2035. Sveitarfélög bera ábyrgð á
að ná markmiðunum.
Urðun heimilisúrgangs: Sett er markmið um að urðað verði að hámarki 10% af heimilisúrgangi árið 2035. Sveitarfélög bera ábyrgð á að ná markmiðinu.
Lífrænn úrgangur: Markmið er að lífrænn úrgangur sem berst til urðunarstaða hafi minnkað niður í
35% af heildarmagni þess magns sem féll til árið 1995, annars vegar fyrir heimilisúrgang og hins vegar
rekstrarúrgang.
Úrgangsforvarnir: Sveitarfélög skulu setja sér markmið hvað varðar samdrátt í myndun úrgangs og
meðhöndlun úrgangs sem fellur til, einkum heimilisúrgangs sem fer til förgunar eða er nýttur til orkuvinnslu. Þannig skulu sveitarfélög sjálf ákveða hvaða markmið þau setja og hvernig þau hyggjast
ná þeim. Settir eru í forgang úrgangsflokkar til tveggja ára í senn í stefnu ráðherra.
Landsmarkmið
Sveitarfélög hafa hlutverk varðandi markmið um úrgang sem er á ábyrgð Úrvinnslusjóðs með því að
bera ábyrgð á söfnun og móttöku úrgangsins. Fyrir byggingar- og niðurrifsúrgang er markmið fyrir landið
í heild og sveitarfélög skulu tryggja að til staðar sé aðstaða til söfnunar.
Byggingar- og niðurrifsúrgangur: Landsmarkmið var að fyrir 2020 hafi 70% úrgangsins verið
flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar. Það er á ábyrgð sveitarfélaga að til staðar
sé aðstaða til að safna flokkuðum byggingar- og niðurrifsúrgangi þannig að hann geti farið til
endurnýtingar frekar en förgunar. Hann skal flokkaður í a.m.k. spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler,
plast og gifs.
Rafhlöðu– og rafgeymaúrgangur, raf– og rafeindatækjaúrgangur: Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að
ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu í samræmi við framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð
á að til staðar sé aðstaða til að safna úrganginum flokkuðum.
Ökutæki: Úrvinnslusjósveður ber ábyrgð á að ná markmiðum um söfnun og endurnýtingu ökutækja í
samræmi við framleiðendaábyrgð. Sveitarfélög bera ábyrgð á að útvega aðstöðu eða útvista móttöku á
aflögðum ökutækjum.
Umbúðaúrgangur: Söfnun umbúðaúrgangs sem fellur til á heimilum er á ábyrgð sveitarfélaga.
Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan bera ábyrgð á að ná landsmarkmiðum fyrir umbúðaúrgang,
samkvæmt framlengdri framleiðendaábyrgð. Þannig bera nokkrir aðilar bera ábyrgð.
Markmið fyrir endurnýtingu umbúðaúrgangs er 60%. Sett er markmið um 65% endurvinnslu árið 2025
og 70% endurvinnslu árið 2030. Til viðbótar eru sérstök markmið fyrir ólíkar tegundir umbúða, þ.e. plast,
gler, pappír, pappi, málar og viðarumbúðir.
- Ábyrgð á að ná markmiðum varðandi umbúðaúrgang skiptist þannig:
- Endurvinnslan hf. – skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir.
- Úrvinnslusjóður – umbúðir sem bera úrvinnslugjald, þ.e.a.s. umbúðir úr plasti, pappír og pappa.Árið 2023 bætast við umbúðir úr gleri og málmum.
- Sveitarfélög – aðrar umbúðir sem teljast heimilisúrgangur óháð því hvort hann á uppruna sinn á heimilum eða hjá rekstraraðilum.

