Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar er unninn á grunni aðgerða sem tilgreindar eru í stefnu
umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum – „Í átt að hringrásarhagkerfi“, sem gefin var út árið
2021 og byggir á 5. gr. laga 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er á ábyrgð Sambands
íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.


Í handbókinni er fjallað um leiðir að markvissri og bættri úrgangsstjórnun sveitarfélaga í samræmi við
markmið sem sett hafa verið í tengslum við innleiðingu hringrásarhagkerfis. Farið er yfir skyldur
sveitarfélaga í málaflokknum og ýmis úrræði sem þau hafa heimild til að beita. Jafnframt eru
leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um gerð svæðisáætlana hluti af handbókinni og umfjöllun um hvernig
sveitarfélög geta í auknum mæli nýtt svæðisáætlanagerð til að skapa sýn og taka ákvarðanir sem tryggja
virka úrgangsstjórnun.


Úrgangur kemur fyrir víða í íslenskri löggjöf en segja má að meginlöggjöfin sé lög um meðhöndlun
úrgangs, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um úrvinnslugjald sem og reglugerðir sem á
þeim byggja. Að auki eru mikilvæg ákvæði um úrgang í reglugerðum um tilteknar vörur, t.d. reglugerð
um aukaafurðir dýra og byggingarreglugerð. Yfirlit yfir helstu lög og reglugerðir eru í viðauka 4.
Handbókin byggir á ákvæðum laga og reglugerða, þ.m.t. þeim umfangsmiklu lagabreytingum sem
samþykktar voru á Alþingi í júní 2021, sbr. breytingalög nr. 103/2021. Þessar breytingar koma flestar til
framkvæmda hinn 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo
stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.


Í handbókinni eru sett fram dæmi um aðgerðir sem sveitarfélög geta farið í til að bæta
úrgangsmeðhöndlun og/eða bregðast við áskorunum sem upp koma. Aðgerðirnar geta verið hluti af
svæðisáætlun.

Miðað við núverandi stöðu Íslands gagnvart þeim tölulegu markmiðum sem sett hafa verið um samdrátt í urðun og aukna endurvinnslu heimilisúrgangs má ljóst vera að þessum markmiðum verður ekki náð nema með því að breyta sorphirðu.“

Stefna ráðherra í úrgangsmálum, 2021