Sveitarfélög gegna lykilhlutverki við meðhöndlun úrgangs og hafa tilteknar skyldur.


Sérstök söfnun heimilisúrgangs: Sveitarfélög bera ábyrgð á söfnun og flutningi heimilisúrgangs hvort
sem hann fellur til á heimilum eða hjá rekstraraðilum. Þjónustan er útfærð af hverju sveitarfélagi og fellur
ábyrgðin ekki niður þó sveitarfélagið ákveði að bjóða þjónustuna út og henni sé sinnt af þjóðnustuaðila.
Það er hlutverk rekstraraðila, sem rekstrarúrgangur fellur til hjá, að sjá um flutning úrgangsins til
meðhöndlunar.


Móttöku- og söfnunarstöðvar: Sveitarfélög bera ábyrgð á að starfsræktar séu móttöku- og
söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu. Stöðvarnar eru ýmist reknar af sveitarfélaginu
sjálfu eða í gegnum þjónustusamning við einkaaðila. Rekstur stöðvanna getur verið í samstarfi við önnur
sveitarfélög.


Farvegir fyrir úrgang: Sveitarfélagi ber að hafa tiltækan farveg fyrir allan úrgang sem fellur til hjá
einstaklingum og lögaðilum innan sveitarfélagsins en þeir farvegir þurfa ekki allir að vera staðsettir innan
sveitarfélagsins sjálfs. Í einhverjum tilfellum eru þó dæmi um að rekstraraðilar sjái sjálfir um meðhöndlun
sérstaks úrgangs sem fellur til hjá þeim, enda geta þeir verið í slíkum tilfellum best til þess fallnir.
Markmið um endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu: Sveitarfélag hefur skyldur varðandi
það að ná markmiðum sem sett eru um aukna endurvinnslu og aðra endurnýtingu heimilisúrgangs og
lífræns úrgangs. Einnig að stuðlað verði að endurnotkun og að dregið verði úr urðun heimilisúrgangs.
Yfirlit yfir markmið er í kafla 3.1.


Svæðisáætlun: Sveitarfélög skulu leggja fram áætlanir um hvernig markmiðum verði náð fram og vinna
svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs til 12 ára í senn.
Samþykkt um meðhöndlun úrgangs: Sveitarfélög skulu skilgreina réttindi og skyldur íbúa og
rekstraraðila með því að setja sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
Gjaldtaka: Sveitarfélög skulu innheimta gjald af einstaklingum og rekstraraðilum fyrir alla meðhöndlun
úrgangs.


Fræðsla og upplýsingagjöf: Sveitarfélög skulu gera upplýsingaefni og fræða almenning, rekstraraðila
og aðra handhafa úrgangs um úrgangsforvarnir og úrgangsmál. Sveitarfélög deila þessari ábyrgð með
Úrvinnslusjóði og Umhverfisstofnun.


Hreinsun á opnum svæðum: Hreinsum rusls á víðavangi og uppseting á ruslastömpum er í höndum
sveitarfélaga. Úrvinnslusjóður tekur þátt í greiðslu kostnaðar sem hlýst af hreinsun.


Úrgangur er margskonar og aðferðir við meðhöndlun, nýtingu og förgun eru háðar eðli og umfangi hans.
Helstu straumar eru að úrgangi er safnað við heimili, á grenndarstöðvum og söfnunarstöðvum og er ekið
þaðan á móttökustöð. Rekstraraðilar semja alla jafna beint við þjónustuaðila um hirðu úrgangs eða fara
sjálfir beint á söfnunar- eða móttökustöð með sinn úrgang. Hafa þarf í huga að hluti þess úrgangs sem
fellur til hjá rekstraraðilum fellur undir skilgreininguna heimilisúrgangur. Frá móttökustöð er úrgangur
sendur í endurvinnslu eða aðra endurnýtingu eða urðun. Í sumum tilfellum er úrgangi ekið beint á
urðunarstað án viðkomu á móttökustöð. Jarðefni og óvirkur úrgangur getur farið beint á svæði til
landmótunar.