Sveitarfélög gegna lykilhlutverki við meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög hafa tilteknar skyldur í málaflokknum en þær helstu eru raktar hér að neðan í stuttu máli.
Fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi: Sveitarstjórn skal ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Fyrirkomulag söfnunar á að stuðla að því að markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs verði náð í sveitarfélaginu.
Farvegir fyrir úrgang: Sveitarfélagi ber að hafa tiltækan farveg fyrir allan úrgang sem fellur til hjá einstaklingum og lögaðilum innan sveitarfélagsins en þeir farvegir þurfa ekki allir að vera staðsettir innan sveitarfélagsins sjálfs. Í einhverjum tilfellum eru þó dæmi um að rekstraraðilar sjái sjálfir um meðhöndlun úrgangs sem fellur til hjá þeim, enda geta þeir í slíkum tilfellum verið best til þess fallnir.
Flutningur heimilisúrgangs: Sveitarfélög bera ábyrgð á reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs, hvort sem hann fellur til á heimilum eða hjá lögaðilum á viðkomandi svæði. Þjónustan er útfærð af hverju sveitarfélagi og fellur ábyrgðin ekki niður þó að sveitarfélagið ákveði að bjóða þjónustuna út og henni sé sinnt af verktaka. Þrátt fyrir ábyrgð sveitarfélaga geta lögaðilar gert beinan samning við verktaka um tæmingu íláta og flutning heimilisúrgangs frá eigin starfsemi.
Fræðsla og upplýsingagjöf: Sveitarfélög skulu gera upplýsingaefni og fræða almenning, rekstraraðila og aðra handhafa úrgangs um úrgangsforvarnir, meðferð úrgangs í sveitarfélaginu og önnur úrgangsmál í samvinnu við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir. Sveitarfélög deila þessari ábyrgð með Úrvinnslusjóði, Endurvinnslunni hf. og Umhverfis- og orkustofnun. Sveitarfélag eða byggðasamlag skal einnig árlega birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.
Gjaldtaka: Sveitarfélög skulu innheimta gjald af einstaklingum og rekstraraðilum fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Skylt er að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Heimilt er að færa innheimtu gjalda á milli úrgangsflokka upp að vissu marki í því skyni að stuðla að markmiðum laganna.
Hreinsun á opnum svæðum: Hreinsun rusls á víðavangi og uppsetning á ruslabiðum í landi sveitarfélaga er í höndum sveitarfélaga. Úrvinnslusjóður tekur þátt í greiðslu kostnaðar sem hlýst af hreinsun vara og umbúða sem falla undir ábyrgð sjóðsins. Í lögreglusamþykktum geta sveitarfélög útfært frekar kröfur um bann við að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri og varða brot gegn slíkum samþykktum sektum. Heilbrigðisnefndir eða Umhverfis- og orkustofnun, eftir atvikum, fylgja eftir banni um að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Hafi úrgangur dreifst eða sé meðhöndlun úrgangs ábótavant að öðru leyti geta þessir aðilar krafist þess að viðkomandi aðili hreinsi upp og geri viðeigandi ráðstafanir.
Markmið um endurnýtingu og urðun: Sveitarfélögum ber að ná markmiðum sem sett eru um aukna endurvinnslu og aðra endurnýtingu heimilisúrgangs og lífræns úrgangs á sínu svæði. Einnig að stuðlað verði að endurnotkun og að dregið verði úr urðun heimilisúrgangs. Yfirlit yfir markmið er í kafla 3.1.
Söfnunar- og móttökustöðvar: Sveitarfélög bera ábyrgð á að starfræktar séu söfnunar- og móttökustöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu. Stöðvarnar eru ýmist reknar af sveitarfélaginu sjálfu eða í gegnum þjónustusamning við verktaka. Rekstur stöðvanna getur verið í samstarfi við önnur sveitarfélög.
Samþykkt um meðhöndlun úrgangs: Sveitarfélög skulu setja sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem sérstaklega er tilgreint í lögum og reglugerðum. Heimilt er að samþykkt taki til tveggja eða fleiri sveitarfélaga.
Sérstök söfnun: Sveitarfélög skulu koma upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi í þéttbýli og koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða efniviði með aðra eiginleika. Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp sorpílát fyrir sérstaka söfnun heimilisúrgangs í stað þess að sækja úrgang við hvert heimili og til lögaðila. Staðsetning sorpíláta skal vera þannig að aðgengi að þeim sé gott. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Sveitarfélögum er heimilt að uppfylla skyldu til sérstakrar söfnunar á gleri, málmum og textíl með söfnun í grenndargáma. Nota skal samræmdar merkingar fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl, spilliefni og blandaðan úrgang.
Ráðstöfun til endurnotkunar eða endurvinnslu eftir söfnun: Sveitarfélögum ber að koma því þannig fyrir að heimilisúrgangi sem safnað er sérstaklega sé ráðstafað til undirbúnings undir endurnotkun, til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar. Hvorki er heimilt að urða né senda til brennslu úrgangstegundir sem hefur verið safnað sérstaklega, nema þann úrgang sem eftir verður og hentar hvorki til endurnotkunar né endurvinnslu og brennsla eða eftir atvikum urðun er sá kostur sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið.
Svæðisáætlun: Sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, skal semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Áætlunin skal taka mið af lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Í áætluninni skal jafnframt fjalla um úrgangsforvarnir og, eftir atvikum, ráðstafanir sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lúta að plastvörum.
