Umhverfismat svæðisáætlunar er unnið samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Æskilegt er að vinna umhverfismat samhliða áætlanagerðinni, til að upplýsingar úr umhverfismati svæðisáætlunar nýtist sem best til að aðlaga áætlunina að niðurstöðum umhverfismatsins. Helstu þættir umhverfismats eru eftirfarandi:
- Stutt lýsing á efni og stefnu svæðisáætlunar.
- Tengsl svæðisáætlunar við aðrar áætlanir, s.s. stefnumörkun ráðherra um meðhöndlun úrgangs, stefnu ráðherra um úrgangsforvarnir, landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag ef við á, aðalskipulag sveitarfélaga, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og aðrar áætlanir stjórnvalda sem við eiga ásamt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
- Lýsing á aðstæðum og umhverfisþáttum sem líklegt er að verði fyrir umtalsverðum áhrifum eða eru sérstaklega viðkvæmir, svo sem vegna náttúruverndargildis.
- Umhverfisverndarmarkmið stjórnvalda sem varða áætlunina og mat á vægi umhverfisáhrifa áætlunarinnar með tilliti til þeirra og eftir atvikum annarra umhverfissjónarmiða.
- Lýsing og mat á líklegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfum valkostum við áætlunina, þ.m.t. núllkosts, þ.e. líklegrar þróunar umhverfisins án framfylgdar viðkomandi áætlunar.
- Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir vegna mögulegra umhverfisáhrifa.
- Vöktun umhverfisáhrifa af framkvæmd áætlunar.
- Hvernig valkostir voru skilgreindir og lýsing á því hvernig umhverfismatið fór fram, þ.m.t. um erfiðleika, svo sem tæknilega erfiðleika og skort á upplýsingum eða þekkingu við að taka saman þær upplýsingar sem krafist var.
- Samantekt umhverfismatsskýrslu.